22.1.2014 | 20:36
Pólarnir, Höfðaborgin, braggarnir og nútíminn
Eftir seinni heimstyrjöldina varð mikill uppgangur í landinu og reyndar má segja að með stríðinu hafi þjóðin stokkið inn í nútímann og út úr þeirri örbirgð sem flestir landsmenn höfðu búið við frá landnámi.
Hraðastar breytingarnar urðu í Reykjavík og þangað streymdi fólk alls staðar af landinu í atvinnuleit og þó flestir hafi getað fengið einhverja vinnu var húsnæði af skornum skammti og varð fólk að sætta sig við hverja þá kompu sem til boða stóð.
Herinn hafði skilið eftir sig braggahverfi víða um bæinn sem nýttir voru til íbúðar fyrir aðflutta og nokkuð var byggt af íbúðarhúsnæði til að leysa brýnasta vandann og átti þetta allt að vera til bráðabirgða á meðan að úr húsnæðismálunum rættist.
Næstu áratugina var búið í þessu "bráðabirgðahúsnæði" öllu, sem ekki var orðið mönnum bjóðandi og var þá sama hvort um braggana væri að ræða, eða Höfðaborgina sem byggð var sem "bráðabirgðaíbúðir", Pólana eða aðra kumbalda sem fólk varð að láta sér lynda til íbúðar.
Undanfarin ár hefur orðið sívaxandi skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og margir sem verða að láta sér nægja húsnæði til íbúðar sem lítið eða ekkert er skárra en braggarnir, Pólarnir og Höfðaborgin voru á árum áður.
Vítt og breitt um borgina og nágrenni stendur ónýtt skrifstofuhúsnæði, sem í mörgum tilfellum er bæði traust og gott en byggt af allt of mikilli bjartsýnisþörf og því standa tugþúsundir fermetra af slíku húsnæði verkefnalausir og engum til gagns.
Yfirvöld verða að leyfa breytingar á slíku húsnæði, þannig að það nýtist til útleigu til fólks sem þarf á litlu og ódýru húsnæði að halda. Þetta þarf að gera núna, en ekki einhvern tíma í óvissri framtíð.
![]() |
Viljum ekki hafa þetta svona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)