Hugmynda- og dáðleysi verkalýðsfélaganna

Undanfarna daga og vikur og mánuði hafa verið að birtast fréttir af uppsögnum sjómanna á frystitogurum og að skipin hafi verið seld úr landi eða að þeim verði breytt og þau gerð út sem ísfisktogarar framvegis.

Þetta er gert vegna þess að nú er sagt að hagstæðara sé að vinna aflann í landi og frystitogararnir séu of takmarkaðir til þess að hægt sé að hafa vinnsluna nógu sveigjanlega til að þjóna mörkuðunum hverju sinni.  Einnig hefur komið fram að launakostnaður landvinnslunnar sé svo miklu lægri að arðsemi vinnslunnar muni aukast mikið við að verða færð frá frystitogurunum til landvinnslunnar.

Verkalýðshreyfingin hefur valið þann kost undanfarna áratugi að miða alla kjarasamninga við greiðslugetu lökustu atvinnugreinanna, enda ástandið orðið þannig að Íslendingar fást varla lengur til að vinna við fiskverkun og vinnslu vegna lágra launa og erfiðrar vinnuaðstöðu.

Verklýðsfélögin virðast ætla að sitja algerlega aðgerðarlaus hjá við þá þróun að hálaunastörf frystitogaranna verði lögð niður og verkefnin færð til láglaunafólksins í fiskvinnslustöðvunum án þess að lyfta litla fingri til þess að fá háu launin flutt með verkefnunum til landverkafólksins.

Afkoma fiskvinnslunnar hefur verið afbragðsgóður undanfarin ár án þess að gert hafi verið átak til að hækka laun starfsmannanna og nú virðist eiga að sitja með hendur í skauti og horfa aðgerðarlaust á hálaunastörfin lögð niður en verkefnin færð til láglaunafólksins.

Vonandi verður verkalýðsforystan búin að sjá ljósið áður en næstu kjarasamningar verða gerðir. 


mbl.is Uppsagnir áhafna hjá Þorbirni hf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. janúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband