11.5.2013 | 18:53
Af hverju samþykkti Steingrímur J. lán í erlendri mynt?
Við uppgjör milli gamla og nýja Landsbankans greiddi sá nýji fyrir þær kröfur sem hann yfirtók m.a. með skuldabréfi að upphæð kr. 310.000.000.000 (þrjúhundruðogtíuþúsundmilljónir) í ERLENDUM GJALDEYRI. Ef rétt er munað átti að greiða skuldina í einu lagi á árinu 2015 og hefðu allir átt að sjá strax við undirritun skuldabréfsins að aldrei yrði hægt að standa við greiðslu á þeim gjalddaga.
Þetta lán er stór hluti þess vanda sem framundan er við að losa um svokallaða snjóhengju, enda gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar svo takmarkaður að ekki er einu sinni hægt að standa undir nauðsynlegustu afborgunum ríkisins, annarra opinberra aðila og einkafyrirtækja á erlendum lánum sínum á næstu árum.
Seðlabankinn hefur orðið að grípa til þess ráðs að stöðva allar greiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna, ekki síst til að knýja kröfuhafa þeirra til samninga um gríðarlega eftirgjöf krafnanna. Sem dæmi má taka eftirfarandi klausu úr meðfylgjandi frétt: "...... herma heimildir blaðsins, að óvíst sé hvort Seðlabankinn muni veita heimild fyrir slíkum útgreiðslum meðan ekki hefur tekist að semja um endurfjármögnun eða lengingu á 310 milljarða erlendum skuldabréfum milli gamla og nýja Landsbankans."
Engin viðhlýtandi skýring hefur verið gefin á því hvers vegna Steingrímur J. ákvað að þessi skuld milli bankanna skyldi verða gerð upp í ERLENDUM gjaldmiðli, en ekki íslenskum, því auðvitað hefði átt að láta gamla bankann hafa áhyggjur af gjaldeyrisöfluninni en ekki nýja ríkisbankann.
Þetta er ekki minnstu mistök Steingríms J. og þeirrar lánlausu ríkisstjórnar sem illu heilli hefur plagað þjóðina undanfarin fjögur ár.
![]() |
Fékk ekki undanþágu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)