Sósíalismi andskotans

Eftir nokkra daga taka gildi nýjar reglur "Norrænu velferðarstjórnarinnar" um lyfjakostnað sjúklinga, sem mun stórhækka útgjöld langveikra með alvarlega sjúkdóma og lífeyrisþega, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Það eru einkum tveir hópar sem munu þurfa að greiða meira en áður eftir að nýju lögin hafa tekið gildi. Annars vegar þeir sem eru með mjög lágan heildarlyfjakostnað, undir 24.075 kr á ári eða minna en 16.050 kr ef um er að ræða lífeyrisþega eða börn. Þessir hópar munu þurfa að greiða öll lyf sín að fullu í nýja kerfinu. Hinn hópurinn er sá sem hefur verið að fá *-merkt lyf, sem hafa verið greidd að fullu af SÍ. Í þessum hópi lyfja eru sykursýkislyf, en einnig lyf við gláku, krabbameinslyf, lyf við parkinsonssjúkdómnum, flogaveiki og Sjögren sjúkdómnum. Rúmlega 30.000 manns hafa verið að taka þessi *-merktu lyf."

Enginn í síðari hópnum hefur nokkurt val um það hvort hann tekur lyfin sín inn eða ekki, þar sem a.m.k. í sumum tilfellum eru lyfin algerlega nauðsynleg til þess að halda sjúklingnum á lífi, eða gera lífið bærilegra.

Þó yfirlýst markmið breytinganna sé að "jafna lyfjakostnað" fólks burtséð frá þeim sjúkdómum sem hrjá það, er það einkennilegur jöfnuður að stórhækka lyfjakostnað þeirra langveiku en lækka á öðrum á móti.  Ef jafna hefði átt kostnað milli einstakra sjúklingahópa hefði verið nær að stefna að lækkun þeirra sem nú greiða meira fyrir sín lyf en þeir sem lífsnauðsynlega neyðast til að nota lyf til að halda lífi.

Jöfnuður með þessum formerkjum hefði einhverntíma verið kallaður "sósíalismi andskotans".  Betri lýsing á fyrirbærinu er líklega vandfundin. 


mbl.is „Greiða fyrir að halda lífi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft var þörf en nú er nauðsyn að grípa til nýrra ráða

Atvinnuleysi hefur verið mikið á landinu undanfarin ár og í reynd verið meira en atvinnuleysisskráningin segir til um vegna allra þeirra þúsunda landsmanna sem flutt hafa og vinna nú og búa erlendis.  Ríkisstjórnin hefur í reynd staðið gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu, ekki síst með stórhækkuðum sköttum á atvinnulífið og almenning, sem bæði verður til þess að draga úr fjárfestingum og mannaráðningum fyrirtækjanna og veldur mun minni kaupmætti almennings.

Nú eru að birtast niðurstöður ýmissa efnahagskannana fyrir marsmánuð og kemur þá í ljós að neysla í þjóðfélaginu er að dragast saman og atvinnuleysi hefur stóraukist, eða um heil 2%, frá febrúarmánuði og er nú 6,8%.  Slík aukning milli mánaða er bæði gríðarmikil og skelfileg.

Sjálfstæðisflokkurinn er einn flokka um að boða raunhæfar ráðstafanir til að koma atvinnulífinu á skrið og bæta kaupmátt almennings og til þess eru skattalækkanir vænlegasta og árangursríkasta leiðin. Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands segir að eftir kreppuna þar í landi hafi skattalækkanir bjargað velferðarkerfinu, eða eins og segir um þetta í Viðskiptablaðinu m.a:  "Hann segir að fyrir kreppuna hafi skattar á finnsk fyrirtæki verið háir, en undantekningar og frádráttarmöguleikar margir. Stjórn hans hafi hins vegar lækkað skatta eins mikið og mögulegt var og þurrkað út allar undantekningar og frádrætti. Aho sagði að það hafi verið mjög erfitt að koma þessum lagabreytingum í gegnum þingið, því þingmenn hafi haft af því áhyggjur að skatttekjur ríkisins myndu minnka í kjölfarið. Reynslan hafi hins vegar verið allt önnur og innan tíðar hafi skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum tæplega þrefaldast. „Þessi breyting bjargaði finnska velferðarkerfinu,“ fullyrti Aho."

Stundum væri gott að læra af reynslu annarra.   


mbl.is Bakslag í eftirspurn eftir vinnuafli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband