Aldrei aftur óeiningu vinstriflokkanna

Eftir margra ára tilraunir til að sameina alla vinstri menn á Íslandi í einn flokk, sem átti að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, tókst að berja saman meginhluta Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Kvennalistans og Þjóðvaka og stofna Samfylkinguna úr þeim bræðingi.  Þeir sem lengst voru  til vinstri í Alþýðubandalaginu sigldu áfram sinn sjó undir merkjum Vinstri grænna, enda útséð frá fyrstu tíð að "sameining" vinstri manna jafngilti ekki samstöðu og samvinnu, heldur hefur hver höndin verið á móti annarri frá upphafi innan þessara flokka.

Liðin eru þrettán ár frá "sameiningu" vinstri manna og nú eru þeir sundraðri en nokkru  sinni og t.d. hefur Samfylkingin klofnað í a.m.k. þrjár fylkingar og Vinstri grænir í aðrar þrjár.  Þar fyrir utan verða sex til sjö vinstrisinnaðir listar til viðbótar í framboði í kosningunum, sumir í öllum kjördæmum og aðrir jafnvel aðeins í einu.

Engan þarf að undra að þessi sundraða fylking skuli ekki öðlast nokkra einustu tiltrú kjósenda, að ekki sé minnst á frammistöðu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna síðast liðin fjögur, ekki síst hörmuleg örlög "Skjaldborgarinnar um heimilin" og svik VG við stefnu  sína varðandi ESB og reyndar í fleiri málum.

Eina rökrétta niðurstaða kjósenda í komandi kosningum er að hafna algerlega sundrungu og innbyrðis hatri vinstri manna hvers í annars garð og kjósa flokk sem treystandi er til að skapa landinu og íbúum þess bjarta framtíð.

Tekið skal fram að þá er ekki átt við Framsóknarflokkinn. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru bankastjórnendur með óráði?

Stjórnendur Glitnis hafa í undirrétti fengið úrskuð um að Tryggingamiðstöðin skuli bera fjárhagslega ábyrgð á gjörðum þeirra í aðdraganda bankahrunsins með örlitlum fyrirvara, eða eins og fram kemur í viðhangandi frétt þar um:  " Þetta þýðir að TM þarf að greiða málskostnað stjórnenda og bætur sem þeir kunna að vera dæmdir til að greiða, nema að sannað verði að þeir hafi vísvitandi staðið að svikum eða brotið af sér í starfi."

Verði þessi dómur staðfestur af Hæstarétti þurfa Glitnisstjórnendur og væntanlega aðrir bankamógúlar einungis að sýna fram á að þeir hafi verið með óráði árin fyrir hrun og ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að gera og allra síst þegar fjallað var um fjáraustur til eigenda bankanna og annarra fjármálamógúla þeim tengdum.

Þar sem öll sú saga er bæði ævintýraleg, veruleikafyrrt og nánast lygileg, ætti þeim ekki að verða skotaskuld úr því að sannfæra dómarana um að þeir hafi hreint ekki staðið vísvitandi að svikum eða brotum í starfi.  Allt hafi þetta verið gert í óráði og af hreinni vanþekkingu á bankastarfsemi.

Eftir það geta allir verið kátir og ánægðir, enda verður ruglið þá bætt af erlendum tryggingafélögum og bankamógúlarnir halda sínum feng óskertum. 


mbl.is Lárus ætlar að sækja bætur til TM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband