Kjósið flokkinn - ekki formanninn

Skoðanakönnun MMR fyrir Viðskiptablaðið leiðir í ljós að rúm 40% þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Krístjánsdóttir væri formaður þess flokks.

Þetta sýnir ótvírætt hve persónulegar árásir, níð og lygar um Bjarna Benediktsson hafa haft gríðarleg áhrif á annars dyggt stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins, sem hefur látið stanslausan áróður vinstri manna í hans garð hafa áhrif á hvað það hyggst fyrir í kosningunum.  Með því að greiða Framsóknarflokknum atkvæði á að neyða Bjarna til að segja af sér formennskunni og þá mun Hanna Birna að sjálfsögðu taka við henni, enda varaformaður og staðgengill formanns.

Sá sem þetta skrifar er einlægur og dyggur stuðningsmaður Hönnu  Birnu og vill gjarnan sjá hana í formannsstólnum sem allra fyrst og reyndar þó fyrr hefði verið, en hefur ekki látið persónusvívirðingarnar í garð Bjarna hafa áhrif á lífsskoðanir sínar og mun að sjálfsögðu kjósa flokkinn í komandi kosningum, enda eini flokkurinn sem boðar þær hugsjónir og stefnu sem að þeim skoðunum falla.

Sannir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem óánægðir eru með Bjarna sem formann ættu eftir sem áður að standa við lífsskoðanir sínar og kjósa þann flokk sem næst þeim stendur og strika út af kjörseðlinum þá frambjóðendur sem þeir sætta sig ekki við.  Með miklum útstrikunum yrði Bjarna ekki sætt lengi í formannsstólnum, en stuðningsmennirnir myndu þá ekki stórskemma fyrir flokknum sjálfum með því að gera formannsskiptin sársaukafyllri fyrir alla aðila en nauðsynlega þyrfti.

Hugsjónirnar og flokkurinn sem fyrir þeim stendur er miklu mikilvægari en sá sem skipar formannssætið um skamma stund. 


mbl.is Fylgið myndi aukast ef Hanna Birna væri formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband