Veiðigjaldið í Auðlindasjóð en ekki ríkissukk

Öll vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í málefnum sjávarútvegsins er til mikillar skammar fyrir alla aðila og algerlega óboðleg þegar um svo stór hagsmunamál er að ræða, en í þessu tilfelli er hvorki meira né minna en höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar sem um er vélað.

Allir umsagnaraðilar um veiðigjaldafrumvarpið voru sammála um að það væri hroðalega illa unnið og myndi að öllum líkindum leggja íslenskan sjávarútveg í rúst og þrátt fyrir margítrekaðar kröfur stjórnarandstöðunnar á þingi og annarra aðila, sem málið varðar, fengust ekki lagðir fram neinir útreikningar um áhrif frumvarpsins á þjóðarhag og verður það að teljast með ólíkindum í slíku stórmáli.

Kristján Möller, formaður Atvinnuveganefndar Alþingis, viðurkennir að enginn viti í raun og veru hvernig þessi væntanlegu lög um veiðigjald muni fara með undirstöðuatvinnuveginn, en segir að það muni allt verða reiknað út á næstu árum, en þá gæti það að vísu verið orðið of seint fyrir atvinnugreinina, sérstaklega ef hún verður dauð áður en niðurstaða í þá útreikninga fæst.

Í raun er verið að pressa þessi lög í gegn á þessu þingi í þeim eina tilgangi að ríkisstjórnin geti lagt fram eyðslu- og sukkfjárlög fram fyrir næsta ár, sem er kosningaár og því mikið í húfi fyrir ríkisstjórnina að láta líta út fyrir að fjármál ríkissjóðs bjóði upp á slíkt eyðslufyllerí sem Kristján gefur í skyn að bjóða eigi til á næsta ári.

Sjálfsagt er að veiðigjald standi undir kosnaði ríkisins af Hafrannsóknarstofnun og öðru sem snýr beint að fiskveiðum og vinnslu, en allt sem þar er umfram ætti að leggjast í Auðlindasjóð sem aðeins yrði nýttur í neyðartilfellum, þ.e. t.d. þegar aflabrestur eða aðrar efnahagshörmungar ganga yfir þjóðina.

Þess vegna á auðvitað að nota veiðigjaldið núna til að létta á skuldabyrði ríkissjóðs eftir síðasta efnahagsáfall, en alls ekki að nota það í kosningasjóð Samfylkingar og Vinstri grænna.


mbl.is Kristján: Hefðum mátt vera sneggri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband