Íslenskar eyðsluklær eru heimsmeistarar í skuldasöfnun

Við Íslendingar höfum lengi verið montnir af upprunanum og alltaf talið Ísland "stórasta land" í heimi og okkur sjálf meiri og merkilegri en allar aðrar þjóðir jarðarkringlunnar. Oft er gumað af hinu og þessu heimsmetinu og þá gjarnan miðað við höfðatölu, en nokkur heimsmet hafa þó fallið án þeirrar viðmiðunar.

Landinn er víða frægur fyrir ýmsar sakir, en frægastur er hann líklega fyrir eyðslusemi og kaupgleði í erlendum verslunum, enda slíkar opnaðar sérstaklega utan almenns opnunartíma þegar von er á hópum frá Íslandi með greiðslukortin á lofti. Gjarnan birtast fréttir í staðarfjölmiðlunum af þessum innkaupaferðum og hvílík guðsgjöf þær eru fyrir efnahagslífið í viðkomanedi bæjarfélagi og nágrannasveitum.

Samkvæmt samantekt sem fylgir í viðhangandi frétt sést að Íslendingar eiga heimsmet í skuldasöfnun einkaaðila, en þær nema 304% af landsframleiðslu og fáir sem komast með tærnar þar sem við mörlandarnir höfum hælana. Hérlendis hefur enginn verið hræddur við að taka öll þau lán sem í boði hafa verið án sérstakra áhyggna af endurgreiðslunum.

Kjörorð okkar Íslendinga hefur lengi verið orðtakið góða "þetta reddast einhvernveginn" og í þeim takti munum við sjálfsagt lifa enn um hríð, enda nógur tími til að sofa rólegur þegar maður verður dauður.


mbl.is Skuldsettar þjóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. nóvember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband