24.11.2012 | 22:28
Afhroð Ögmundar og VG
Forval VG í Kraganum snerist upp í algjört grín eða kannski öllu heldur hreinan harmleik, bæði fyrir flokkinn sjálfan og frambjóðendurna.
Gríðarleg smölun átti sér stað með þeim árangri að 350 manns gengu í flokkinn til þess að geta tekið þátt í forvalinu, en aðeins ríflega 700 manns skiluðu sér á kjörstað, þannig að eldri félagar hafa vægast sagt verið áhugalitlir um framboðsmál flokksins fyrir kosningarnar í vor.
Ögmundur Jónasson mun leiða listann með 261 atkvæði á bak við sig, eða 54% þeirra sárafáu sem nenntu að taka þátt í kjörinu og getur það varla talist ríflegt nesti inn í væntanlega kosningabaráttu.
RÚV verður þó varla skotaskuld úr því að gera stórfrétt um "glæsilegt" forval VG í Kraganum og "stórsigur" Ögmundar.
![]() |
Ögmundur fékk 54% í 1. sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2012 | 08:37
Prófkjör eru hið eina og sanna persónukjör
Prófkjör stjórnmálaflokkanna, sem reyndar heita ýmsum nöfnum eftir flokkum, er rétt leið til að uppfylla síauknar kröfur um persónukjör því í þeim gefst almenningi kostur á að velja frambjóðendur og þar með þá sem líklegastir verða til að komast á þing eða í sveitastjórnir við næstu kosningar.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um persónukjör og því vekur það undrun að ekki skuli hafa verið meiri áhugi en raun ber vitni í þeim prófkjörum flokkanna sem þegar hafa farið fram. Vekur það upp þá spurningu hvort áhuginn á persónukjöri sé minni en af er látið og mest heyrist í þeim sem lítinn eða engan áhuga hafa á stjórnmálum, en telja sig eftir sem áður þurfa og eiga að ráða uppröðun á lista allra flokka og framboða sem í boði eru hverju sinni.
Eðlilegast er að stuðningsfólk hvers lista velji sér frambjóðendur sem þeir eru svo tilbúnir til að berjast fyrir þegar að kosningum kemur og láti vera að skipta sér af uppröðun annarra flokka og framboða, enda óeðlilegt að Vinstri grænir raði á lista Samfylkingar, Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks, eða yfirleitt að andstæðingar stjórnmálahreyfinga skipti sér af framboðum þeirra sem þeir munu svo berjast gegn síðar.
Vonandi mun stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fjölmenna í prófkjör dagsins og stilla upp sterkum og öflugum lista fyrir þingkosningarnar í vor. Í raun er nánast sama hvernig á listann mun raðast, þar sem úrvalsfólk er í framboði og listinn mun verða feykisterkur, nánast sama í hvaða röð frambjóðendurnir raðast á hann.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stöðugri sókn undanfarin misseri og því áríðandi að stuðningsfólkið sýni baráttuhug sinn í verki með því að fjölmenna í prófkjörin.
![]() |
Prófkjör, forval og uppstilling |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)