Að greiða skuld eða skatt

Hagfræðistofnun Háskólans hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn á skuldamálum heimilanna, að svigrúm bankanna sem þeir höfðu eftir millifærslu lánanna úr gömlu bönkunum sé fullnýtt og því sé ekkert svigrúm til frekari niðurfellinga á húsnæðislánum.

Stofnunin finnur tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna ýmislegt til foráttu, t.d. að þær gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og verði farið að ráðum samtakanna muni a.m.k. tvöhundruðmilljónir króna lenda á skattgreiðendum, en þessi upphæð nemur hátt í 40% af árlegum útgjöldum ríkissjóðs.

Allir geta séð að ríkissjóður, eða réttara sagt skattgreiðendur, hvorki geta né eiga að taka á sig slíkar álögur og því hlýtur niðurstaðan að vera sú, að hver skuldari verði að leysa úr sínum málum í samvinnu við lánveitendur sína, en líklegt er að margur muni ekki ráða við afborganir lána sinna eftir sem áður.

Ef ríkissjóður ætti að koma frekar að þessum skuldamálum væri líklega eina ráðið að "sérstakar vaxtabætur" yrðu teknar upp fyrir þá skuldara sem tóku húsnæðislán á tímabilinu 2005- 2008 og yrðu þá látnar ganga beint inn á höfuðstól lánanna sem aukaafborgun.

Slíkt fyrirkomulag gæti gilt í tíu til fimmtán ár, enda er fjárfesting í húsnæði langtímafjárfesting og lánin í mörgum tilfellum til allt að fjörutíu ára.


mbl.is Líklegt að ríkið myndi bera kostnað við niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindagjald fari ekki beint í eyðsluhítina

Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum leggur til að innheimt verði svokölluð auðlindarenta af öllum afnotum auðlinda landsins og er það að sjálfsögðu ekkert annað en sjálfsagt mál. Sjálfsagt verða menn svo aldrei sammála um hversu hár slíkur skattur á að vera á hverjum tíma.

Nefndin leggur hins vegar til að auðlindarentan renni beint í ríkishítina og verði að mestu leyti til ráðstöfunar í eyðslugleði þeirrar ríkisstjórnar sem að völdum situr hverju sinni. Samkvæmt fréttinni gerir nefndin þó þessa undantekningu á því: "Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum."

Heillavænlegra væri að leggja allt auðlindagjaldið í sérstakan auðlindasjóð sem eingöngu yrði gripið til við sérstakar aðstæður, t.d. efnahagserfiðleika í kjölfar aflabrests, náttúruhamfara o.s.frv., eða bara ef til álíka hruns kæmi og gerðist á árinu 2008.

Engar auðlindir eru í raun endurnýjanlegar, því vatnsföll geta breyst eða þornað upp vegna náttúruhamfara, aflabrestur getur orðið nánast hvenær sem er eins og dæmin sanna í gegn um tíðina og enginn veit fyrir víst hvort eða hvenær heitavatnsæðar geta breyst eða kólnað.

Íslendingar þyrftu að læra af fortíðinni og safna varasjóðum til framtíðarinnar í stað þess að eyða öllum tekjum jafnóðum og þeirra er aflað, ásamt því að skuldsetja sig upp fyrir haus í eintómu neysluæði. 


mbl.is Vilja stofna auðlindasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. janúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband