Alltaf versnar ástandið á stjórnarheimilinu

Í langan tíma hafa logað illdeilur innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, enda svo komið að stuðningur við stjórnina og flokkana sem hana skipa hefur fallið meira en hitastigið í frosthörkunum að undanförnu og styttist í að fylgið nái alkuli.

Síðustu daga hefur þó keyrt um þverbak, en a.m.k. tveir þingmenn VG krefjast þess að Ögmundur Jónasson verði rekinn úr ráðherraembætti og ekki annað að sjá en að nánast allir þingmenn flokksins séu með kutana í baki hvers annars.

Ungliðar Samfylkingarinnar hafa sent frá sér harðorða gagnrýni á nokkra félaga sína á þingi, þar með talin þau Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og saka þau um dómgreindarskort og svik við jafnaðarstefnuna, sem ungliðarnir virðast telja að eigi að snúast um pólitískt ofstæki og hefnd á andstæðingum flokksins í stjórnmálum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, safnar undirskriftum meðal þingmanna í þeim tilgangi að ná að hrekja Ástu Ragnheiði úr forsetastólnum og aðrir þingmenn þess flokks hafa heldur ekki sparað gífuryrðin að undanförnu um þá sem varðveita vilja lýðræði og málfrelsi á Alþingi.

Jóhanna og Steingrímur J. hafa verið að vonast eftir stuðningi Hreyfingarinnar við að framlengja líf ríkisstjórnarinnar um nokkra mánuði, en takist þau hjaðningarvíg sem nú eru reynd í báðum stjórnarflokkum munu svo margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar falla, að þrír þingmenn Hreyfingarinnar munu ekki megna að styrkja stjórnarhræið nægilega til að það komist upp af hnjánum aftur.

Kosningar hljóta óhjákvæmilega að verða í vor og í kjölfar þeirra mun þjóðin vonandi fá starfhæfa ríkisstjórn, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sem fær verður um að leiða þjóðina út úr þeim þrengingum sem nú er við að glíma og núverandi ríkisstjórn hefur gefist upp á að glíma við.


mbl.is Lýsa vantrausti á forseta Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refskák eða fjöltefli innan VG

Björn Valur Gíslason, sérstök málpípa Steingríms J., ræðst harkalega að samflokkskonu sinni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir þá afstöðu hennar að eðlilegt sé að þingmál fái eðlilega umræðu og afgreiðslu á Alþingi, hvert sem málefnið er og hvaða þingmaður flytur það.

Í útvarpsþætti í morgun lýsti Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, því yfir að vegna sömu afstöðu ætti Ögmundur Jónasson að víkja úr ráðherrastóli og gaf í skyn að þingflokkur VG myndi reka hann úr embættinu fljótlega.

Á undanförnum mánuðum hefur kvarnast verulega úr þingmannaliði VG, en þrír hafa sagt sig úr þingflokknum nú þegar og óvíst er orðið um stuðning Jóns Bjarnasonar við ríkisstjórnina eftir að hann var hrakinn úr ráðherraembætti og Þráinn Bertelsson hefur lýst því yfir að hann muni ekki framar ábyrgjast ríkisstjórn með Össur og Ögmund innanborðs.

Björn Valur segir að Guðfríður Lilja tefli refskák, sem hann telur ekki víst að hún nái að tefla til sigurs, enda þurfi meira til en venjulega skáksnilli svo vel fari í slíku tafli.

Ekki verður annað séð en að innan VG sé verið að tefla pólitískt og persónulegt hatursfjöltefli, þar sem allir tefla við alla og enginn sé annars bróðir í þeim leik.


mbl.is Varasamt að tefla refskák
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. janúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband