Hvað segir Jóhanna við þessum svikabrigslum?

Jóhanna Sigurðardóttir fór mikinn í þingræðu fyrir nokkrum dögum og sakaði Samtök atvinnulífsins um lygar og áróður vegna gagnrýni samtakanna á ríkisstjórnina vegna ítrekaðra svika hennar á loforðum sínum í tengslum við kjarasamninga, allt frá árinu 2009.

Jóhanna minntist hins vegar ekkert á að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa jafnvel verið enn harðorðari en SA í garð svikastjórnar Jóhönnu og Steingríms og margir þeirra vilja segja upp kjarasamningum um mánaðamótin, jafnvel þó atvinnurekendur hafi staðið við allt sem þeir skrifuðu undir.

Nú eru uppi háværar raddir, t.d. frá formanni Verkalýðsfélags Akraness, um að ASÍ lýsi yfir vantrausti á ríkisstjórnina og meira að segja Samfylkingarmaðurinn Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur lýst því yfir að launþegar muni ekki gera fleiri samninga með aðkomu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, enda sé ekki eitt einasta orð að marka þau skötuhjúin.

Ætli Jóhanna haldi ræðu á Alþingi af þessu tilefni? Eða þá Steingrímur J?


mbl.is Þungur tónn vegna svika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð Ögmundar og uppreisn í Samfylkingu

Tillaga Bjarna Benediktssonar um að Alþingi dragi til baka ákærurnar á hendur Geir H. Haarde og hætti þar með við málsmeðferðina fyrir Landsdómi hefur haft hinar ólíklegustu og ótrúlegustu hliðarverkanir.

Þrátt fyrir að allir þingmennirnir sem samþykktu að stefna Geir fyrir dóminn og lýsa um leið aðra ráðherra saklausa af öllum ávirðingum, sverji og sárt við leggi að ekki hafi verið um pólitískan gjörning að ræða, ætlar allt vitlaust að verða innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar einstaka þingmenn flokkanna lýsa því yfir að þeir muni styðja tillöguna um afturköllun málsins.

Þingflokkur VG logar stafna á milli vegna yfirlýsinga Ögmundar Jónassonar, ráðherra dómsmála, um að málið allt sé af pólitískum toga og að hann hafi gert mistök með því að samþykkja þessar pólitísku ofsóknir á sínum tíma og að Guðfríður Lilja skuli hafa dirfst að lýsa svipuðum skoðunum og Ögmundur.

Uppreisn er hótað innan Samfylkingarinnar og þeim þingmönnum flokksins, sem hugsanlega vildu styðja tillögu Bjarna, er hótað öllu illu og þar með missi þingsæta sinna, láti þeir verða af því að fylgja samvisku sinni og tillögunni.

Ekki vex virðing Alþingis, þingflokka Samfylkingar og VG, eða einstakra flokksfélaga þeirra við þetta upphlaup.


mbl.is Á ábyrgð Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. janúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband