Viðbót við ákærurnar á hendur Geir H. Haarde

Gígurleg efnahagsleg vandamál blasa nú við heimsbyggðinni vegna skuldavanda ýmissa ríkja, austan hafs og vestan, og evran magnar upp vandamálin þar sem komið er í ljós að sameiginleg mynt hentar ekki hagkerfum hinna ýmsu Evrópuríkja, t.d. Þýskalands og Grikklands, enda eiga þessar þjóðir lítið sameiginlegt í peningalegum hugsunarhætti.

Óttinn við það sem framundan kann að vera í efnahagsmálunum kemur skýrt fram í eftirfarandi setningu úr viðhangandi frétt:  "Leiðtogar 20 stærstu iðnríkja heims annars vegar og sjö stærstu iðnríkja heims hins vegar héldu símafundi í dag og Evrópski seðlabankinn bjó sig undir opnun markaða á Nýja-Sjálandi, fyrsta markaðnum sem opnar í Asíu í kjölfar lækkunar lánshæfseinkunnar Bandaríkjanna á föstudag."

Enginn skyldi láta sér detta í hug að leiðtogar þessara ríkja skelli saman símafundi sín á milli og sumir komi sérstaklega heim úr sumarfríum, án þess að hrein skelfing hafi gripið um sig vegna þeirrar þróunar sem verið hefur á mörkuðum undanfarna daga og þess sem menn vænta á næstunni.  Í fréttinni segir ennfremur:  "Ótti við kreppu á heimsvísu, sem margir telja geta orðið verri en þá sem varð árið 2008, varð til þess að stjórnmálamenn um víða veröld frestuðu sumarleyfum sínum."

Allir á Íslandi vita, a.m.k. vinstri menn, að efnahagskreppan 2008 var Geir H. Haarde að kenna, enda hefur honum verið stefnt fyrir Landsdóm til að svara til saka fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir hana.

Þar sem leiða má líkur að því að vandamálin sem nú steðja að efnahagslífi heimsins eigi rætur að rekja aftur fyrir árið 2008, hljóta íslenskir vinstrimenn að bæta ákærum vegna núverandi vandamála við kærurnar sem þegar hefur verið lýst á hendur Geir H. Haarde, strax að loknu réttarhléi. 


mbl.is Erfið vika framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll Óskar og "helvítis" eitt og annað

Páll Óskar, stórsnillingur og óskabarn þjóðarinnar, segir a Gay Pride snúist ekki lengur um réttindabaráttu samkynhneigðra, heldur sé dagurinn og Gleðigangan orðin að allherjaráminningu um almenn mannréttindi.

Alveg getur þetta verið rétt hjá Páli Óskari, en hins vegar skýtur hann yfir markið, eða fram hjá því, með því að halda því fram að allir aðrir en hvítir, hægrisinnaðir karlmenn, sem helst eru efnaðir, liggi undir árásum og svívirðingum á netinu og víðar.

Fáir hafa einmitt legið undir öðrum eins árásum, úthrópunum og svívirðingum á ýmsum netsíðum og einmitt hægri sinnað fólk, hvort heldur það erum við, þessir hægri sinnuðu sem eigum litla peninga, eða hinir sem sem eiga meira af þeim.

Það hefur ekkert vantað upp á að þeir hægrisinnuðu hafi verið kallaðir "helvítis" þetta og hitt, rétt eins og aðrir þjóðfélagshópar.

Það eru reyndar einna helst "helvítis" dusilmennin, sem ekki þora að koma fram undir nafni, sem vestir eru í þessu efni a.m.k. í bloggheimum.


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matsfyrirtækin í samkeppni? Um hvað þá?

Jose Manuel Gonzalez-Palermo, sem á sæti í framkvæmdastjórn Seðlabanka Evrópu, kvartar yfir því að matsfyrirtækin, Standard&Poor's, Moody's og Fitch, standi sig illa og byggi möt sín á ágiskunum og spádómum um framtíðina ásamt staðreyndum sem fyrir liggja hverju sinni.

Gonzalez-Palermo telur eftirsóknarvert að matsfyrirtækjum fjölgi, þannig að samkeppni verði meiri á milli þeirra, eða eins og segir í fréttinni:  "Spurður að því hvort setja ætti á laggirnar evrópsk matsfyrirtæki til þess að veita hinum stóru þremur samkeppni sagði Gonzalez-Paramo: „Það er eftirsóknarvert að hafa mörg matsfyrirtæki og þar með samkeppni, sem er ekki raunin í dag.""

Þetta vekur upp þá spurningu um hvað þessi matsfyrirtæki eigi að keppa og hvort fjármálafyrirtæki og aðrar lánastofnanir eigi, þegar matsfyrirtækjunum hefur fjölgað verulega og samkeppnin milli þeirra orðin heiftarleg, að taka bara mark á bestu, eða verstu, einkunnum sem "samkeppnin" mun leiða fram.

Lánastofnanir, fyrirtæki og ríkissjóðir þurfa núna, eftir því sem best er vitað, að greiða matsfyrirtækjunum fyrir álitin og varla mun það breytast þó þeim fjölgi, því öll þurfa þau að reka sig með hagnaði.  Verði matsfyrirtækin t.d. tíu í framtíðinni, mun enginn vilja borga þeim öllum stórfé fyrir mat á sinni stöðu og hvað mun þá ráða afstöðu hvers og eins til ákvörðunartöku um viðskipti við matsfyrirtæki?

Auðvitað mun þá ráða mestu, eða öllu, það verð sem matsfyrirtækin munu bjóða og ekki síður það "mat" sem viðskiptavinurinn vill borga fyrir. 


mbl.is Matsfyrirtækin standa sig illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband