28.8.2011 | 15:01
Hvað tekur "vandleg íhugun" langan tíma?
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að kauptilboð Huangs Nubo í jörðina Grímstaði á Fjöllum þarfnist "vandlegrar íhugunar" af sinni hálfu, enda þyrfti að gefa undanþágu frá Íslenskum lögum til að maður frá svo framandi landi, sem Kína er, fái að kaupa íslenska landareign.
Erlend fjárfesting er það sem einna mest skortir nú um stundir í íslenskt atvinnulíf og því ætti allur áhugi erlendra fjárfesta á eflingu ferðaþjónustunnar að vera fagnaðarefni, sem og á flestum öðrum sviðum, nema ef vera skyldi í sjávarútvegi.
Ögmundur varpar fram eftirfarandi spurningu: "Þetta þurfum við að ræða og ekki kyngja ómelt, væri okkur sama ef landið væri allt selt með þessum hætti?" Fram að þessu hefur ríkisstjórnin verið með miklar meltingartruflanir í sambandi við allt sem snýr að atvinnuuppbyggingu í landinu og minnkun atvinnuleysisins, þannig að ekki er við öðru að búast en að langan tíma geti tekið að koma þessum bita alla leið í gegn um meltingarveg Iðnaðarráðuneytisins.
Miðað við að Kínverjar skipuleggja mál yfirleitt í áratugum er sjálfsagt hægt að reikna með að Huang Nubo hafi þolinmæði til að bíða venjubundnar meltingartruflanir stjórnsýslunnar íslensku í talsverðan tíma.
![]() |
Þarf að fara vandlega yfir kauptilboð Huangs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
28.8.2011 | 10:20
Stjórnmálamenn verða að vinna vinnuna sína
Lagarde, forstjóri AGS, segir vaxandi hættu steðja að hagkerfi heimsins og að minnkandi möguleikar séu á að alþjóðastofnanir og ríki geti stutt við þær ríkisstjórnir sem keyri lönd sín á kaf í skuldafen.
Hún telur samt sem áður að mögulegt verði að snúa þróuninni við með samstilltu átaki ríkisstjórna og fastari tökum þeirra á ríkisfjármálunum og viðsnúningi á þeirri endalausu lánahugsun, sem tröllriðið hefur a.m.k. hinum vestræna heimi undanfarin ár, jafnt hjá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og einstaklingum.
Augu manna beindust ekki síst að því sem Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, myndi boða á þessum fundi seðlabankastjóra í Wyoming, en fátt kemur fram í fréttinni af ræðu hans, en þó segir þetta um hans málflutning: "Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hélt ræðu á fundinum í gær og sagði, að seðlabankinn gæti lítið gert til að örva efnahagsvöxt. Bandarískir stjórnmálaleiðtogar yrðu að grípa til aðgerða til að fjölga störfum og örva fasteignamarkað."
Vonandi taka íslenskir stjórnmálamenn þetta til sín, ekki síður en bandarískir, því ríkisstjórnin hérlenda hefur í raun barist með öllum tiltækum ráðum gegn uppbyggingu í atvinnulífinu og fjölgun starfa og nákvæmlega ekkert hefur heldur verið gert til að endurlífga fasteignamarkaðinn, sem hefur verið steindauður í þrjú ár.
Líklega væri það allt of mikil bjartsýni að halda að íslenska ríkisstjórnin taki sönsum héðan af. Sennilega verður engin breyting á málunum fyrr en ný ríkisstjórn tekur við af þeirri sem nú situr.
![]() |
Vaxandi hætta steðjar að hagkerfi heimsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)