Einkennileg fjármögnun Vaðlaheiðarganga

Fljótlega verður farið í formlegt útboð á frmkvæmd við jarðgöng gegn um Vaðlaheiði og verður þar um að ræða mikla samgöngubót, sérstaklega fyrir norðlendinga og reyndar alla landsmenn.

Eignarhaldið á göngunum verður í höndum Vaðlaheiðarganga hf., en svo einkennilega sem það hljómar, þá á Vegagerð ríkisins 51% hlut í félaginu og Greið leið ehf. á 49%.

Fram að þessu hefur því verið haldið fram að þarna yrði um einkaframkvæmd að ræða, sem fjármögnuð yrði utan ríkisreiknings, þ.e. með lántökum á almennum markaði og síðan ætti gjaldtaka af umferð í gegn um göngin að duga til að niðurgreiða lánið.

Í dag kemur hins vegar í ljós að ríkissjóður fjármagnar verkið með því að lána Vaðlaheiðargöngum hf. fyrir framkvæmdinni, þ.e. kaupir skuldabréf af félaginu, sem síðan er látið heita að eigi að endurgreiða lánin síðar, en auðvitað vita allir að gangnagjöldin munu ekki standa undir afborgunum lánsins á næstu áratugum.

Þetta verður því að teljast undarlegur skollaleikur í kringum fjármögnun verksins, eingöngu til þess að halda kostnaði við framkvæmdina utan ríkisreiknings. Ríkissjóður lánar fyrirtæki sem hann á meirihluta í sjálfur til að blekkja og falsa ríkisreikninginn. Þetta er kölluð Gríska leiðin og allir vita hvernig fór fyrir uppfinningamönnum hennar.

Eftir sem áður er það fagnaðarefni að loksins skuli einhverjar framkvæmdir komast af stað í landinu, þó meira þurfi til ef duga á til alvöru atvinnuuppbyggingar í landinu.


mbl.is Fjármögnun ganga tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búin að missa öll tök á peningamálunum

Þrátt fyrir að nánast algjör stöðnun ríki í efnahagslífi þjóðarinnar virðast ríkisstjórnin og seðlabankinn vera búin að missa öll tök á peningamálunum og verðbólgan komin á flug á nýja leik.  Nýgerðum kjarasamningum er að miklu leyti kennt um, en ríkisstjórnin tók fullan þátt í gerð þeirra og lofaði að koma ýmsum ríkisframkvæmdum af stað, ásamt því að greiða fyrir fjárfestingum einkaaðila, til þess að auka kaupmátt og hagvöxt í þjóðfélaginu.

Nú virðist þessi fyrirheit hafa verið algerlega gefin upp á bátinn, ef marka má eftirfarandi klausu úr Peningamálum Seðlabankans:  "Miðað við forsendur um þróun hrávöru- og olíuverðs, tiltölulega stöðugt gengi krónunnar og áframhaldandi slaka í þjóðarbúskapnum er gert ráð fyrir að hún taki að hjaðna á ný þegar líða tekur á næsta ár og verði við verðbólgumarkmiðið á seinni hluta ársins 2013, sem er um ári seinna en reiknað var með í apríl."

Aðeins örfárra mánaða spá Seðlabankans er fokin út í veður og vind og sýnir að lítið er að treysta á útreikninga og spár Seðlabankans, þegar það sýnir sig að þær endast varla út þann mánuð, sem þær eru gefnar út.

Til að skapa enn meiri slaka í fjárfestingum og eftirspurn er eina ráðið sem bankanum dettur í hug að hækka vexti í því okurvaxtaumhverfi sem ríkir hér á landi og hefur gert áratugum saman.

Vaxtaokrið hefur ekki dregið úr verðbólgu hingað til, heldur má leiða að því líkur að það hafi frekar verið eitt helsta eldsneytið á verðbólgubálið.  Nánast allir aðrir seðlabankar halda stýrivöxtum lítillega ofan við núllið á krepputímum til þess að gera sitt til að auka fjárfestingar og hagvöxt.

Hvenær skyldu Íslendingar eignast stjórnendur, sem læra af reynslunni.

 


mbl.is Seðlabankinn spáir 6,8% verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband