Er Össur algerlega að tapa sér í ESBörvæntingunni?

Alla tíð hefur verið talið að erfiðustu málin í viðræðunum um innlimun Íslands, sem útkjálkahrepps í væntanlegt stórríki ESB yrðu landbúnaðar - og sjávarútvegsmál, enda voru fyrirvarar í samþykki Alþingis um að yfirráðarétturinn yfir tvöhundruðmílna fiskveiðilögsögunni yrði alfarið í höndum Íslendinga og allar ákvaranir um veiðar innan hennar teknar af íslenskum ráðamönnum.

Í viðtali við Euronews leyfir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sér að gefa út þá yfirlýsingu að Íslendingar þurfi nánast ekkert að ræða fiskveiðistjórnun við ESB, enda séu slík smámál bara hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og því úrelt. Það er nokkuð rétt hjá ráðherranum að baráttan um yfirráð fiskveiðiauðlindarinnar var lokaáfanginn í baráttunni fyrir fullu sjálfstæði þjóðarinnar og það má Össur vita, og kommisarafélagar hans innan ESB, að þjóðin er hreint ekki tilbúin til að gefa nokkuð eftir af sjálfstæði sínu og fullveldi, til að uppfylla drauma Össurar og fleiri slíkra um kommisaraembætti í Brussel.

Á meðan innlimunarviðræðum verður ekki hætt, er algerlega forkastanlegt að æðsti maður utanríkismála á Íslandi skuli gefa viðmælendum sínum önnur eins vopn í hendur og Össur gerir í þessu viðtali. Annar eins afleikur hefur varla sést í nokkrum "samningaviðræðum" í háa herrans tíð og á sér líklega ekki samsvörun í neinu öðru en fyrri ummælum Össurar sjálfs um þessi mál.

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, gerir þessum ótrúlega afleik Össurar góð skil í pisli í dag og er ástæða til að benda öllum á að lesa hann. Pistil Björns má sjá Hérna


mbl.is Þurfum ekki sérstaka undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlendar skuldir óreiðumanna

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde bjargaði því sem bjargað varð í íslensku efnahagslífi við bankahrunið og með því að láta gömlu bankana fara sína leið, voru óábyrgar erlendar fjármálastofnanir látnar taka á sig yfir sjöþúsundmilljarða króna tap, í stað þess að velta þeirri upphæð yfir á skattgreiðendur, eins og Írar gerðu og ESB er nú að neyða Grikki til að gera.

Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert þrjár tilraunir til þess að koma erlendum skuldum óreiðumanna í gamla Landsbankanum yfir á íslenskan almenning, sem í tvígang harðneitaði í þjóðaratkvæðagreiðslum að taka á sig slíkar óreiðuskuldir fjárglæframanna. Steingrímur J. hefur þó lýst því yfir að hann sé ekki ennþá búinn að gefast upp í því máli og hefur einsett sér að koma a.m.k. einhverjum milljarðatugum yfir á herðar kjósendanna, sem hann hefur hugsað þegjandi þörfina frá því þeir niðurlægðu hann á þennan hátt í tvígang.

Í hefndaræði sínu gagnvart pólitískum andstæðingum, beittu Vinstri grænir sér fyrir því að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna bankahrunsins, en reyndar eru tvær grímur farnar að renna á þá ólánsþingmenn sem greiddu atkvæði með þeim ótrúlega gjörningi.  Meira að segja Steingrímur J. virðist vera kominn með einhvern vott af samviskubiti, því nú lætur hann hafa það eftir sér á AFP fréttaveitunni að enginn haldi því fram að Geir hafi getað komið í veg fyrir bankahrunið. Hins vegar hafi hann getað brugðist betur við til að draga úr áhrifum þess.  Aldrei hefur Steingrímur þó bent á hvernig hefði átt að bregðast við á annan hátt en gert var.

Í viðtali við fréttaveitu AFP er t.d. eftirfarandi haft eftir Geir H. Haarde: "Bankahrun varð víða um allan heim. En af hverju var enginn annar stjórnmálaleiðtogi dreginn fyrir dóm?"  "Svarið er að engum hefur svo mikið sem dottið slíkt í hug því bankahrunið var ekki verk einstakra pólitískra leiðtoga."

Á þetta sama hefur verið bent margoft undanfarin ár á þessu bloggi.  Alls staðar annarsstaðar en á Íslandi er viðurkennt að bankahrunið í heiminum hafi verið á ábyrgð fjárglæframanna og hér á landi varð hrunið meira en sums staðar annarsstaðar vegna þess að fjárglæframennirnir íslensku voru stórtækari í gerðum sínum en flestir aðrir og rökuðu nánast öllu eingin fé þeirra fyrirtækja, sem þeir komust yfir, í eigin vasa.

Á þetta benti Rannsóknarnefnd Alþingis og væntanlega mun það staðfestast enn frekar, þegar rannsóknum Sérstaks saksóknara lýkur. 


mbl.is „Þetta er pólitískur farsi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband