20.7.2011 | 09:10
Hvað segja ESBgrúppíur við þessu?
Því hefur oft verið haldið fram af ýmsum málsmetandi mönnum að evran stæðist ekki sem gjaldmiðill, nema með algerum miðstýrðum fjárhagslegum yfirráðum frá Brussel og aðildarríkin afsöluðu sér fjárlagavaldinu endanlega til kommisaranna. Oft og iðulega hefur verið um þetta fjallað opinberlega og í bloggheimum, t.d. á þessu bloggi og alltaf hafa ESBgrúppíur tekið sig til og mótmælt slíkum málflutningi harðlega.
Nú bregður hins vegar svo við að í Mogganum í dag birtist grein eftir Emmu Bonino, fyrrverandi sjávarútvegsstjóra ESB og Marco Ee Andreis, fyrrverandi kommisar í ESB, þar sem þau staðfesta rækilega þá ætlun ESBkommisaranna að sölsa öll fjárhagsleg völd Evrópu undir sig og Brusselvaldið. Þar sem eitthvað mun vera um það, að fólk kaupi ekki Moggann, er rétt að birta nokkrar klausur orðréttar úr þessari grein skötuhjúanna, enda ekki tekið fram að bannað sé að vitna til hennar.
Þau segja þar m.a: "Við megum ekki missa af tækifærinu sem gefst í skuldakrísunni sem skollið hefur á evrusvæðinu og Evrópusambandinu. Nota þarf tækifærið til að færa Evrópu í átt að frekari samruna, til að Evrópusambandið fari ekki í hina áttina."
"Þar sem samstarf fullvalda ríkja hefur augljóslega brugðist eru nú aðeins tveir möguleikar eftir. Annar kosturinn er að ríki evrusvæðisins verði áfram fullvalda og endurheimti völd sín á sviði peningamála, sem felur ekki aðeins í sér dauða evrunnar, heldur myndi það stefna innri markaðnum og jafnvel tilvist Evrópusambandsins í hættu. Hinn kosturinn er að ríkin gangi lengra í því að afsala sér fullveldisrétti til Evrópusambandsins og það felur ekki aðeins í sér að evran haldi velli heldur getur það einnig af sér pólitíska sameiningu Evrópu, sem er ef til vill mikilvægara atriði. Þetta val er að verða öllum ljóst. Jean Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, og Jacques Attali, fyrsti bankastjóri Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, hafa nú báðir hvatt opinberlega til þess að stofnað verði evrópskt fjármálaráðuneyti."
"Einn evrópskur fastaher í stað margra og að mestu vanmáttugra og gagnslítilla herja, með tekjur sem næmu um 1% af heildarframleiðslu ESB-ríkjanna um 130 milljörðum evra yrði strax næststærsti her heimsins á eftir Bandaríkjunum hvað fjárhagslegt bolmagn áhrærir og vonandi hernaðarlega burði einnig."
"Fyrir utan varnar- og öryggismálin væri skynsamlegt að færa önnur valdsvið yfir til ríkjasambandsins. Málaflokkarnir sem koma helst til greina eru utanríkisþjónusta og utanríkismál (meðal annars þróunar- og mannúðaraðstoð), innflytjendamál, landamæraeftirlit, nokkur uppbyggingarverkefni sem hefðu áhrif á innviði allra aðildarríkjanna, viðamikil rannsókna- og þró- unarverkefni og svæðisbundin tilfærsla á fjármagni. Þessi opinbera starfsemi og mikil fjárhagsleg umsvif myndu auðvitað krefjast embættis fjármálaráðherra eða jafngildis þess."
"Í þessu ljósi gæti hætta á skuldakrísu á Ítalíu reynst gagnleg með því að treysta einingu ESB-landanna. Orðin e pluribus unum (latína: úr mörgum, eitt)ættu að vera á öllum evruseðlum til að vekja athygli á því að meginhugsjónin sem þeir byggjast á pólitísk sameining Evrópu er nauðsynleg til að tryggja að evran haldi velli."
Hér að framan hefur verið stiklað á stóru í greininni og eru allir hvattir til að lesa hana í heild sinni í blaðinu, enda um söguleg skrif að ræða að því leyti, að þarna eru eindregnir ESBsinnar og fyrrverandi kommisarar að skrifa, en ekki andstæðingar væntanlegs stórríkis Evrópu, sem þetta fólk og fleiri dreymir um að koma á í anda Sovétríkjanna sálugu.
Fróðlegt verður að fylgjast með skrifum ESBgrúppía í tilefni þessa greinaskrifs þeirra Emmu Bonino og Marco De Andreis.
![]() |
Björgun evru háð afsali fullveldis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)