15.7.2011 | 17:52
Óheillaþróunin heldur áfram
Brottflutningi af landinu linnir ekki, því ennþá flytjast mun fleiri frá landinu en til þess. Hagstofan hefur nú birt tölur fyrir annan ársfjórðung þessa árs og sýna þær áframhaldandi óheillaþróun í þessum efnum.
Í tölum Hagstofunnar kemur m.a. þetta fram, samkvæmt frétt mbl.is: "Á sama tíma fluttust 530 einstaklingar frá landinu umfram aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 360 umfram aðflutta, en brottfluttir erlendir ríkisborgarar voru 180 fleiri en þeir sem fluttust til landsins. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu."
Atvinnuleysistölur hér á landi segja ekki nema hálfa söguna, því stór hluti atvinnuleysisins hefur verið fluttur úr landi og þá aðallega til Noregs. Mörg þúsund vinnufærra manna hafa flust búferlum frá hruni í leit að möguleikum til að framfleyta sér og sínum, því slíkt er ekki hægt með atvinnuleysisbótunum einum saman, allra síst ef fjölskyldan er stór og skuldir miklar.
Til viðbótar þeim sem skrá búferlaflutninga til annarra landa bætist mikill fjöldi manna sem stunda vinnu erlendis, en fjölskyldan býr áfram á Íslandi af ýmsum ástæðum, t.d. vegna skólagöngu barna eða atvinnu makans. Í þeim tilfellum er viðkomandi skráður áfram til heimilis á Íslandi, þó hann stundi vinnu erlendis og komi aðeins heim til sín á nokkurra vikna, eða mánaða, fresti.
Á meðan ekki verður breyting á stefnu núverandi ríkisstjórnar í atvinnumálum, mun þessi óheillaþróun sjálfsagt halda áfram, þangað til allt besta fólk þjóðarinnar hefur hrakist úr landi.
![]() |
Flestir fara til Noregs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.7.2011 | 12:56
Frábært hjá Vegagerðinni. Annað mál með ferðaþjónustuna
Fyrir tæpri viku hvarf brúin yfir Múlakvísl í gríðarlegu hlaupi sem varð í ánni og var þá talið að taka myndi tvær til þrjár vikur að koma á bráðabirgðatengingu, þannig að umferð gæti gengið eðlilega fyrir sig á ný.
Umsvifalaust upphófst mikill söngur grátkórs ferðaþjónustusala og forsvarsmanna þeirra um hundruð milljóna króna tap, sem algerlega myndi ríða ferðaþjónustunni á suðurlandi að fullu. Alla þessa viku hefur söngurinn um tugmilljóna króna daglegt tap verið kyrjaður og leiðir þetta hugann að því hvort allar þessar gríðarlegu tekjur skili sér inn á skattskýrslur og í þjóðhagsreikninga.
Vegagerðin hefur unnið algert þrekvirki við smíði bráðabirgðabrúar yfir ána og með selflutningi bíla og farþega á vaði yfir vatnsfallið, en lítið hefur grátkórinn þó lækkað sig í tóntegund, þrátt fyrir það.
Nú er áætlað að hleypa umferð á bráðabirgðabrúna strax um helgina, en líklega þarf að stoppa selflutningana yfir ána í nokkra klukkutíma á meðan ánni verður veitt í nýjan farveg.
Hvað skyldu ferðaþjónustusalarnir segjast tapa mörgum tugum milljóna á þeim klukkutímum?
![]() |
Múlakvísl veitt undir brúna í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2011 | 09:15
Danskir pólitíkusar skilja, en íslenskir ekki
Jóhanna, Össur og aðrar ESBgrúppíur á Íslandi berja höfðinu við steininn og reyna að blekkja almenning í landinu með því að evran sé eini hugsanlegi bjargvættur íslensks efnahagslífs. Þessu er haldið að fólki, þrátt fyrir að allir aðrir en þessar grúppíur sjái þá erfiðleika sem steðja að ESB um þessar mundir og þá alveg sérstaklega evrusvæðinu.
Danir hafa hafnað upptöku evru í tvígang, en samkvæmt venju ESB er fólk látið kjósa aftur og aftur, þangað til "ásættanleg" niðurstaða fæst og í þeim anda hefur staðið til að láta Dani kjósa enn einu sinni um evruna. Þær fyrirætlanir eru nú komnar á frest, eða eins og segir í fréttinni: "Dönsk stjórnvöld hafa stefnt að því að halda þjóðaratkvæði um upptöku evrunnar um nokkurt skeið en ekki lagt í það enn vegna erfiðleika evrusvæðisins og vaxandi andstöðu almennings heima fyrir samkvæmt skoðanakönnunum."
Annað, sem danskir stjórnmálamenn virðast hafa fram yfir þá íslensku er, að þeir virðast taka mark á skoðunum almennings, en eins og allir vita eru um 70% Íslendinga andvígir því að Ísland verði gert að útnárahreppi í væntanlegu stórríki Evrópu.
Íslenskir ráðamenn taka yfirleitt ekkert tillit til skoðana almennings og allra síst í þessu efni.
![]() |
Þjóðaratkvæði um evruna frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)