5.6.2011 | 17:12
Íslendingar, til hamingju með daginn
Íslendingum öllum er óskað til hamingju með sjómannadaginn og þá auðvitað sjómönnum og fjölskyldum þeirra alveg sérstaklega.
Fiskveiðar og vinnsla afla a.m.k. þriðjungs þjóðarteknanna og u.þ.b. helmings gjaldeyristeknanna og því mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar, en því miður vanmetinn af mörgum sem halda jafnvel að þjóðarauðurinn verði til í tuskubúðum og leikfangaverslunum fyrir börn og fullorðna.
Það eina sem skyggir á ánægju og gleði vegna sjómannadagsins núna, eru illa undirbúin og vanhugsuð frumvörp ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunina, enda ekki einu sinni samstaða um þau innan og milli stjórnarflokkanna og flest, ef ekki öll, hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna hafa mótmælt þeim harðlega.
Samkvæmt hugmyndum stjórnarinnar á að færa sjávarútveginn áratugi aftur í tímann með því að gera a.m.k. hluta fiskveiða og vinnslu að félagslegu úrræði fyrir íbúa á landsbyggðinni með þeim falsrökum að kvótakerfið hafi stuðlað að fólksfækkun utan höfuðborgarsvæðisins, þrátt fyrir þá staðreynd að sú fækkun á sér rætur langt aftur fyrir kvótasetningu og á sér miklu dýpri rætur en atvinnumálin á viðkomandi stöðum.
Verði þessi frumvörp að lögum óbreytt munu þau verða til verulegrar tekjuskerðingar fyrir þá sjómenn, sem starfa nú innan kerfisins, en munu hinsvegar líklega fjölga skipum og sjómönnum sem keppast við að veiða þann takmarkaða afla, sem í boði er og valda þannig mikilli óhagræðingu í sjávarútvegi, bæði fyrir fyrirtækin og starfsfólkið.
Sátt mun ekki nást um fiskveiðistjórnunina, fyrr en vankantar verða sniðnir af þessum frumvörpum, framsal aflaheimilda verði að mestu bannað og einhver leið verði til að hleypa nýjum aðilum inn í greinina, án þess að fórna hagkvæminni í leiðinni.
Hverning sem fer um stjórnun fiskveiðanna, verða sjómenn áfram hetjur hafsins og þjóðarinnar.
![]() |
Látum ekki fiskimiðin af hendi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)