Vill Jón Gnarr sem leiðtoga lífs síns

Samkvæmt frétt mbl.is lét Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, í ljós þá heitustu ósk sína í viðtali við Guardian, að Besti flokkurinn undir forystu Jóns Gnarrs byði fram í næstu kosningum, til að vinna bug á spillingunni sem grasserar innan núverandi stjórnarflokka, að hennar sögn.

Það verður að teljast með afbrigðum undarlegt að þingmaður skuli hafa slíka ótrú á sjálfum sér, flokksfélögum sínum og öðrum þingmönnum, að gefa í skyn að allt séu þetta eintómir glæpamenn og spillingarbófar, sem uppræta þurfi með öllum tiltækum ráðum.

Jafn furðulegt er að þingmaðurinn skuli ekki sjá neinn annan lausnara í sjónmáli en Jón Gnarr, sem sýnt hefur á borgarstjórnarferli sínum að hann ræður engan veginn við starf sitt og að ekki hafi verið jafn illa stjórnandi meirihluti í Reykjavík, síðan R-listinn var og hét.

Lágkúra íslenskra stjórnmála getur varla orðið miklu meiri en þetta.


mbl.is Vill Besta á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran að verða skattgreiðendum dýrkeypt

Hvert evruríkið af öðru stefnir nú í þrot vegna skuldamála, en æ betur sannast að upptaka evru sem gjaldmiðils ætlar að reynast skattgreiðendum í þessum löndum, flestum öðrum en Þýskalandi og ef til vill Frakklandi, afar dýrkeypt þegar öll kurl verða komin til grafar.

Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, telur að evrukreppan eigi eftir að breiðast út til fleiri landa en Grikklands, Portúgal, Spánar og Írlands og nefnir að líklega muni a.m.k. Belgía og Ítalía bætast í hóp gjaldþrota ríkjanna innan ESB. Svo alvarlegt er ástandið í tveim síðastnefndu ríkjunum, að hann telur líklegt að þau muni þurfa að grípa til afdrifaríkra neyðarráðstafana jafnvel á undan Spáni, sem þó er kominn að fótum fram efnahagslega.

Eftirfarandi klausa úr fréttinni er afar athyglisverð: "Hann varar við því að einkaaðilar verði þvingaðir til þess að taka þátt í öðrum björgunarpakka Grikkja sem er verið að undirbúa. Alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin myndu ekki líta á slíkt jákvæðum augum og það gæti haft hrikaleg áhrif á evruna."

Þessir "einkaaðilar" sem Juncer talar um eru kallaðar "lánastofnanir" og "bankar" á mannamáli og þeir eiga að sjálfsögðu að bera sjálfir ábyrgð á sínum lánveitingum og taka áhættu af þeim.  Kynni þeir sér ekki skuldastöðu og greiðslugetu þeirra sem þeir lána til, eiga þeir að súpa seyðið af því sjálfir og ríkisstjórnum ESBlandanna á hreinlega ekki að líðast að velta greiðslubyrði slíkra lánaskandala yfir á skattgreiðendur.

Íslenskir skattgreiðendur börðust hetjulegri baráttu gegn því að ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við þá bresku og hollensku, seldu sig í skattalegan þrældóm fyrir erlenda kúgara vegna Icesaveklúðurs Landsbankans, þó ekki sé útséð um að Steingrímur J. og félagar hans í ríkisstjórn séu algerlega búnir að gefast upp á þeim fyrirætlunum.

Skattgreiðendur ESBlandanna verða að taka baráttu þeirra íslensku sér til fyrirmyndar áður en það verður of seint.  Takist þeim það ekki blasa erfiðir tímar við þegnum ESB ríkjanna, en nógir verða erfiðleikarnir samt þegar bankarnir fara að hrynja, einn af öðrum, og evrusamstarfið springur í loft upp.


mbl.is Vandinn breiðist út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband