Ótrúlegt kvótaklúður og einelti Samfylkingarinnar

Ríkisstjórnin setti á fót sérstaka nefnd sem hafði það eitt hlutverk að vinna að sáttum um fiskveiðistjórnunarkerfið og skilaði hún af sér "sáttatillögu" í september 2010, eða fyrir um níu mánuðum, sem telst vera fullur meðgöngutími.

Strax eftir að "sáttanefndin" skilaði tillögum sínum blossaði upp mikil ósátt innan og milli stjórnarflokkanna um málið og hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, verið í gíslingu ýmissa stjórnarþingmanna fram á þennan dag og því ekki getað komið frá sér frumvarpi um málið, sem þó var búið að boða að lagt yrði fram í síðasta lagi í febrúarmánuði síðast liðnum.

Á þriðjudaginn mætti Jón loksins á ríkisstjórnarfund með frumvarpsdrög, en þá brá svo við að Samfylkingin trylltist og haft var eftir þingmanni flokksins, að engu líkara væri en að hópur simpansa hefði skrifað það og var Jón gerður afturreka með málið, en fyrirskipað að skila "fullbúnu" frumvarpi á aukafund ríkisstjórnarinnar sem halda átti í gærkvöldi. Vegna stríðsins milli stjórnarflokkanna var þeim fundi aflýst, en málið tekið upp á reglubundnum stjórnarfundi í morgun, en Jón gerður afturreka með það enn á ný.

Nú segir sjávarútvegsráðherrann, valdalausi, að hann geti ekkert sagt um það, hvenær frumvarpið verði lagt fram, en vonandi verði það fyrir þinglok í vor.

Þetta er að verða eitt vandræðalegasta mál ríkisstjórnarinnar frá upphafi og er þó af nægu að taka í klúðurs- og vandræðagangi á þeim bænum.

Samfylkingin lætur ekki deigan síga gegn Jóni Bjarnasyni, enda hennar heitasta ósk að bola honum úr embætti, en fyrir því er auðvitað ekki stuðningur innan stjórnarliðsins og því öllum brögðum beitt til að fá hann til að gefast upp á embættinu og segja því lausu "sjálfviljugum".

Annað eins einelti af hálfu stjórnarflokks gegn ráðherra í ríkisstjórn hefur aldrei fyrr sést í stjórnmálsögu þjóðarinnar.


mbl.is Kvótafrumvörp ekki afgreidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfingin vill enga hreyfingu í efnahagslífið

Um leið og kjarasamningar hafa verið frágengnir með það að markmiði, fyrir utan að bæta kjör launþega, að koma fjárfestingum af stað í þjóðfélaginu, auka atvinnu og minnka atvinnuleysi á sem skemmstum tíma, var alveg viðbúið að ýmsir nöldurseggir hæfu upp raust sína með áskorunum um að samningarnir verði felldir í félögunum, þegar þeir kæmu þar til atkvæðagreiðslu.

Hreyfingin reið á vaðið í þessum efnum á opnum fundi í gærkvöldi og sendi frá sér áskorun til launþega um að fella samningana, þar sem "þeir séu stórvarasamir", án þess að frekari skýring fylgi önnur en sú að þeir bæti ekki að fullu það tjón sem almenningur hafi orðið fyrir á undanförnum árum.

Þessi óábyrga ályktun er vafalaust aðeins fyrirboði þess áróðurs sem senn mun hefjast gegn samþykkt þessara kjarasamninga og ekki gerði forysta ASÍ sér það léttara að tala fyrir samningunum með óábyrgri framkomu sinni í aðdraganda 1. Maí og gaspursins þá um baráttuanda og verkföll, sem sýna skyldu illmennunum í SA hvað það þýddi að leika sér í jó-jó í miðjum kjaraviðræðum.

Gaspur og ruglandaháttur ASÍ-forystunnar mun þyngja róðurinn fyrir hana sjálfa í framhaldinu, þegar kemur að kynningu samninganna og meðmælum með samþykkt þeirra.

Launþegar eru hins vegar upp til hópa ábyrgt fólk, sem mun út frá sínum eigin hagsmunum samþykkja kjarasamningana og ekki hlusta á niðurrifsáróðurinn. 


mbl.is Vilja að launþegar felli samningana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband