30.5.2011 | 18:48
Á ekki að banna svona þingmenn?
Þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir og Eygló Harðardóttir hafa lagt fram ótrúlegustu og vitlausustu þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi og er þá langt til jafnað.
Fyrir utan að banna reykingar nánast alls staðar, leggja þingmennirnir til að tóbak verði einungis selt í apótekum, en þó án lyfseðils frá læknum, að því er virðist. Hvers vegna þeim dettur ekki í hug að nota verslanir ÁTVR ekki til þessara viðskipta, frekar en apótekin, er hulin ráðgáta. Reyndar er tillagan öll svo vitlaus, að tæplega þarf að undra sig á þessum hluta hennar, frekar en öðrum.
Ef banna á reykingar jafnt utan sem innan dyra, liggur beinast við að banna innfluting og sölu tóbaks alfarið og láta svarta markaðinn algerlega um smygl á tóbaki, eins og hassi, amfetamíni, heróíni og öðrum bönnuðum "neysluvörum". Ekki hefur tekist of vel að hefta sölu og dreyfingu eiturlyfja, þrátt fyrir algert innflutnings- og sölubann og engin ástæða til að ætla að betur myndi ganga að stöðva smygl á sígarettum. Líklega myndu nikótínfíklarnir leita í sterkari efni, sem afar auðvelt er að útvega á svarta markaðinum.
Allir vita að tóbak getur verið hættulegt heilsu manna, en samt eru alltaf einhverjir sem ánetjast því og nær væri að bjóða því fólki upp á aðgengileg úrræði til að losna undan tóbaksfíkninni, alveg eins og boðið er upp á meðferðarúrræði fyrir alkóhólista og eiturlyfjafíkla.
Boð og bönn eru ekki lausn allra mála, en líklega ætti þó að banna svona gjörsamlega óboðlega þingmenn á Alþingi Íslendinga.
![]() |
Tóbak verði bara selt í apótekum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)