24.5.2011 | 21:17
Aftur til fortíðar með fiskvinnsluna?
Ríkisstjórnin hefur eftir langa yfirlegu, mikið innbyrðis rifrildi jafnt innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, lagt fram frumvarpsbastarð um stjórnun fiskveiða, sem ekki mun einungis skapa mikinn ófrið um málið til framtíðar, heldur stórskaða atvinnugreinina og afkomu fyrirtækja og starfsmanna innan greinarinnar.
Svokallaðir "pottar" sem sjávarútvegsráðherra ætlar að úthluta og segir að verði notaðir í "félagslegum tilgangi" til að styrkja sjávarplássin, er algert afturhvarf til fortíðar, þegar allar helstu útgerðir landsins voru reknar af sveitarfélögum og ríkissjóði sjálfum.
Allir, sem eitthvað þekkja til þeirrar fortíðar, vita hvernig bæjar- og ríkisútgerðir voru reknar og hvernig afkoma sjávarútvegsins á hverjum tíma réð skráningu gengis krónunnar og á stundum voru fleiri en eitt gegni krónunnar í gangi í einu, eftir því til hvers nota átti þann gjaldeyri sem fyrir krónurnar var keyptur.
Á meðan hefta þarf aðganginn að auðlindinni og skammta aflaheimildirnar getur það aldrei orðið til annars en óhagræðis að fjölga vinnslustöðvum, skipum, verkafólki og sjómönnum sem veiða og vinna þann takmarkaða afla, sem heimilt verður að veiða hverju sinni.
Bæjar- og ríkisútgerðir voru algerlega misheppnað rekstrarform og ekki lofar góðu að nú sé hótað að stór hluti aflaheimildanna eigi að notast í "félagslegum tilgangi".
Atvinnureksturinn í kommúnistaríkjunum var og er rekinn í "félagslegum tilgangi".
Það er varla fyrirmynd fyrir atvinnulífið á Íslandi á 21. öldinni.
![]() |
Stærri en norðlenskar útgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
24.5.2011 | 12:47
Ráðherrar ráðleggja björgunarsveitunum
Til allrar hamingju fyrir íbúa hamfarasvæðanna vegna eldgossins eru ráðherrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson komnir austur til að ráðleggja björgunarsveitum og öðrum skipuleggjendum og starfsfólki hjálparstarfs um hvernig að haga beri aðgerðum á svæðunum.
Í fréttinni kemur fram m.a: "Ráðherrarnir munu í dag kynna sér aðstæður á hamfarasvæðinu og m.a. funda með vettvangsstjórn aðgerða á Kirkjubæjarklaustri." Vonandi verður þessi fundur með ráðherrunum gagnlegur fyrir vettvangsstjórnina og hún læri eitthvað um hvernig aðstoðar- og björgunarstörfum skuli hagað við þær erfiðu aðstæður sem við er að glíma á hamfarasvæðinu.
Þó ljótt sé að hafa svona mál í flimtingum verður þó að meta ráðherrunum það til tekna, að strax fór að draga úr gosinu eftir að þeir mættu á svæðið.
Vonandi lofa þeir þó ekki íbúunum að ríkisstjórnin muni "slá skjaldborg" um heimili þeirra og bújarðir, því reynsla landans af slíkum loforðum er vægast sagt hræðileg.
Hugur landsmanna allra er hjá fórnarlömbum hamfaranna og vonir um að þessum hörmungum fari senn að linna.
Er þar að sjálfsögðu átt við eldgosið en ekki ráðherraheimsóknina.
![]() |
Ráðherrar kynna sér aðstæður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2011 | 09:05
Upphafið að endalokum VG
Flokksráðsfundur VG um helgina virðist ætla að sýna sig að vera upphafið að endalokum VG sem stjórnmálaflokks. Allt púður var úr formanni flokksins og óánægja og samstöðuleysi áberandi meðal fundarfulltrúanna.
Annað sem styður þá kenningu að endalokin séu skammt undan kristallast í þessari setningu í fréttinni af fundinum: "Þá telja VG-félagar sem rætt var við í gær að valdabarátta sé í uppsiglingu innan VG um það hver eigi að taka við af Steingrími J. Sigfússyni, þegar hann hættir sem formaður flokksins. Eru þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir taldar vera þeir tveir kandídatar sem helst muni berjast um tignina."
Helsti stuðnings- og baráttumaður fyrir því að Svandís verði næsti formaður er faðir hennar Svavar Gestsson, sem jafnframt er faðir Icesave I og þeirra hörmunga sem leiða átti yfir þjóðina með því að keyra þann samning í gegnum þingið, án þess að þingmenn fengju svo mikið sem að fá að sjá hann eða lesa.
Verði Svavari að þeirri ósk sinni að troða dótturinni í formannsstólinn í VG, þegar að því kjöri kemur, mun flokkurinn springa í loft upp með miklu brauki og bramli og syrgjendur verða fáir við útförina.
Með kosningu Katrínar yrðu lífdagarnir eitthvað talsvert fleiri og andlátið miklu hægara og friðsælla, en eftir sem áður er flokkurinn kominn að fótum fram og ólíklegt að hægt verði að bjarga lífi hans úr þessu.
![]() |
Talið er að formannsslagur í VG sé hafinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)