27.4.2011 | 22:36
Endalaus ósannindi um ESBaðlögunina
Fulltrúum ríkisstjórnarinnar virðist algerlega fyrirmunað að segja satt orð um aðlögun Íslands að ESB, sem reyndar er algerlega andstætt samþykkt Alþingir um viðræður við sambandið um hugsanlega aðild.
Össur Skarphéðinsson er orðinn að athlægi vegna stöðugra ósanninda sinna um þennan gang mála og nú gerir Árni Þór Sigurðsson sig beran að ósannsögli af stærri gerðinni, þegar hann reynir að láta líta út fyrir að sátt og samlyndi hafi ríkt á fundi þingmannanefndarinnar sem hefur með aðlögunina að gera og fundar reglulega um málið.
Gert var ráð fyrir að nefndin sendi frá sér yfirlýsingu um aðlögun landsins að ESB eftir þennan fund, eins og eftir fyrsta fund nefndarinnar, en gífurlegt ósamkomulag var um innihald og texta þeirrar tillögu að ályktun, sem lögð var fyrir fundinn og samin var í Brussel og send fundinum til afgreiðslu.
Árni Þór reynir með venjulegum ósannindavaðli stjórnarliða að gera lítið úr því báli, sem tillagan olli á fundinum og segir m.a. í viðtali við mbl.is: "Það var ekki alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna um þær. Síðan var það þannig hjá okkur að það voru mismunandi skoðanir á því hvort menn ættu að vera að álykta og hversu mikið þannig að það varð niðurstaða okkar formannanna, mín og Gallagher, að leggja það ekki til."
Árni segir aðeins að ekki hafi verið "alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna", en þegir yfir því að ýmsir íslenskir þingmenn hafi verið algerlega öskureiðir yfir þeirri tillögu að ályktun sem lögð var fyrir þá til samþykktar. Vegna þessarar óánægju Íslendinganna drógu formennirnir tillöguna til baka og þorðu ekki að láta reyna á atkvæðagreiðslu um hana.
Það verður að teljast með ólíkindum, ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar halda að þeir geti prettað þjóðina inn í Evrópusambandið með hálfsannleik, hreinum lygum og svikum.
Þjóðin er löngu búin að sjá í gegnum blekkingarvefinn.
![]() |
Ákveðið að hætta við að álykta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2011 | 15:30
Neyðarlögin björguðu þjóðfélaginu frá algeru hruni
Héraðsdómur kvað í dag upp þann úrskurð að neyðarlögin frá árinu 2008 stæðust íslensku stjórnarskrána, samninginn um evrópska efnahagssvæðið og mannréttindaákvæði Evrópusambandsins. Þetta er gríðarlega góður og merkilegur dómur, sem vonandi og nánast örugglega verður staðfestur af Hæstarétti.
Í dóminum segir m.a: "...Þá verður og að telja, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru við umrædda lagasetningu, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að aðgerðir þessar hafi gengið lengra en brýna nauðsyn bar til í því skyni að ná því markmiði að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni og tryggja þar með hag hins almenna borgara."
Dómurinn er staðfesting á því, hve gott verk ríkisstjórn Geirs H. Haarde vann á síðustu dögunum fyrir hrun við gríðarlega erfiðar aðstæður.
Það þjóðþrifaverk hafa núverandi stjórnarflokkar þakkað með því að stefna Geir, einum ráðherra síðustu ríkisstjórnar, fyrir Landsdóm.
Þjóðin er reyndar hneyksluð á þeirri svínslegu aðgerð, enda í mikilli þakkarskuld við þá sem björguðu þjóðfélaginu frá algeru efnahagslegu hruni á haustdögum 2008.
![]() |
Lögmætt markmið neyðarlaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.4.2011 | 13:00
Suðurnesin í kuldanum - en ennþá von á herminjasafni
Í vetur var haldinn ríkisstjórnarfundur á Suðurnesjum með mikilli viðhöfn og þar lagðar fram göfugar áætlanir um atvinnuuppbyggingu á svæðinu, þar á meðal flutning Landhelgisgæslunnar og stofnun herminjasafns á Keflavíkurflugvelli.
Eins og við var að búast af þessari ríkisstjórn hefur ekkert orðið úr neinum framkvæmdum þar suður frá og atvinnuleysi á svæðinu aukist frá því að "atvinnuuppbyggingaráætlunin" var kynnt.
Nú hefur ríkisstjórnin endanlega slegið af allar hugmyndir um flutning gæslunnar á Suðurnes vegna kostnaðar, en undarlegt er að kostnaðaráætlunin skuli ekki hafa verið gerð áður en ríkisstjórnin hélt í grobbferð sína, sem greinilega var farin í þeim eina tilgangi að blekkja Suðurnesjamenn, en atvinnuleysi þar er það mesta á landinu, eða um 15%.
Miklar vonir hljóta að vera við það bundnar suður með sjó, að ríkisstjórnin standi við loforðið um stofnun herminjasafnsins, enda mun það a.m.k. skapa eitt til tvö störf og þar með mun ríkisstjórnin sjálfsagt telja sig hafa gert stórvirki í atvinnusköpun, ekki bara á Suðurnesjum heldur á landsvísu.
Takist að koma á herminjasafni verður það mesta átak í atvinnumálum, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á öllum sínum ferli og mun hún þá vafalaust telja sig hafa unnið þrekvirki á því sviði.
![]() |
Landhelgisgæslan ekki flutt í bráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)