Opinn og gagnsær Jón Bjarnason

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er jafn óútreiknanlegur og veðrið þegar hann svarar spurningum fréttamanna um störf sín.

Vilji hann ekki svara spurningum, talar hann um veðrið, öskuna á suðurlandi eða svarar bara einhverju algerlega út úr kú, sem tengist umræðuefninu hverju sinni ekki neitt.

Fréttin á mbl.is endar svo á þessum orðum:  "Aðspurður hvort hann teldi að frumvarpið liti dagsins ljós á yfirstandandi þingi svaraði Jón engu og gekk á brott."

Væntanlega er þetta háttarlag ráðherrans í fullu samræmi við það mottó ríkisstjórnarinnar að öll mál skuli "vera uppi á borðum" og "opin og gagnsæ".


mbl.is Svarar engu um frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkistjórnin að rumska - þarf að vakna alveg

Ríkisstjórnin hefur loksins, fullseint þó, rumskað og lofar nú að hætta að mestu að berjast gegn atvinnuuppbyggingu í landinu og gefur jafnvel fyrirheit um að gera eitthvað smávegis sjálf, til að koma hreyfingu á hlutina.

Þegar allt var við að sigla í strand í kjaraviðræðunum, kallaði stjórnin aðila vinnumarkaðarins á sinn fund og sýndi þeim "drög að tillögum" sínum í þessu efni, að vísu algerlega óútfærð en mjór er stundum mikils vísir. Fyrirheit voru gefin um átak í vegagerð, byggingu fangelsis, landspítala og hjúkrunarheimila, en þær byggingingar voru svosem fyrirhugaðar hvort sem var, en þó jákvætt að ekki skuli vera hætt við allt saman.

Galli var þó á tillögunni um aukna vegagerð, þar sem með fylgdi að í þær yrði farið ef leiðir til SÉRSTAKRAR fjármögnunar fyndust, en skammt er síðan tugir þúsunda manna skrifaði undir mótmælaskjal vegna hugmynda um vegatolla til að fjármagna þessar vegaframkvæmdir. Einnig var þess getið að fangelsisbygging yrði boðin út í apríl, en sá sem hreppa myndi framkvæmdina yrði að byggja fangelsið á eigin kostnað, eiga það og leigja til fangelsisyfirvalda. Með því yrði þá tekinn upp vísir að einkarekstri í fangavistun á Íslandi og ekki hefði maður fyrirfram búist við slíkri einkavæðingu í tíð hreinræktaðrar vinstri stjórnar, eins og núverandi ríkisstjórn segist vera.

Þrátt fyrir að nánast hafi ekki verið staðið við eitt einasta atriði, sem ríkisstjórnin undirritaði og lofaði að koma í framkvæmd með Stöðugleikasáttmálanum árið 2009, verður að fagna því að stjórnin skuli nú vera að rumska og verkefni aðila vinnumarkaðarins þarf að vera að koma henni almennilega á fætur og fá viðunandi lausn í þau mál sem ennþá standa útaf í þeim efnum, sem að ríkisvaldinu snýr.

Nú er að bretta upp ermar, bæta álverinu í Helguvík á framkvæmdaplanið, komast til botns í fiskveiðistjórnarmálum og nokkrum fleiri atriðum, sem nauðsynlegt er að ljúka sem fyrst.

Atvinnumálin verða að fá allan forgang á næstunni og skal ríkisstjórnin studd til allra góðra verka á því sviði.


mbl.is Tjáðu sig lítið um tillögurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband