Krónan kallar á efnahagsstjórn

Vandamálið í efnahagsmálum þjóðarinnar í gegnum tíðina hefur ekki verið krónan, heldur skortur á efnahagsstjórn. Nánast frá upphafi hefur verið látið reka á reiðanum í peningamálum og treyst á að fella gengið til að rétta kúrsinn af aftur eftir hver mistök sem gerð hafa verið í þeim efnum, t.d. varðandi tuga prósenta kauphækkanir og lengst af var útgerð og fiskvinnsla rekin eins og hver önnur atvinnubótavinna og gengið stillt af eftir kollsteypum á því sviði.

Aðeins í tiltölulega fá ár í forsætisráðherratíð Davíðs Oddsonar, þegar Friðrik Sóphusson og Geir H. Haarde voru fjármálaráðherrar, var sæmileg stjórn á ríkisfjármálunum, en því miður slöknuðu þau tök þegar á leið og fjárglæframenn tóku efnahagsmál þjóðarinnar í gíslingu, sem endaði svo með algeru hruni, eins og allir vita.

Á þeim árum var erlendum lánum ausið inn í landið, jafnt til fyrirtækja og almennings, en mest þó til íslenskra fyrirtækja sem fjárfestu fyrir lánin erlendis, þannig að við hrunið sat þjóðarbúið uppi með þá skuldasúpu til viðbótar við þau erlendu lán, sem notuð voru til fjárfestinga í eignabólu innanlands.

Ef banna á sveitarfélögum að taka erlend lán vegna þess að þau hafa allar sínar tekjur í krónum, ætti það sama að gilda um ríkissjóð og þá ekki síður fyrirtæki og einstaklinga sem eingöngu eru með tekjur í íslenskum krónum.

Þeir sem skildu það ekki fyrir hrun, hljóta að skilja það núna að vitlausata lántaka sem hugsast getur er lántaka í öðrum gjaldmiðli en tekjurnar eru í.

Það á jafnt við um alla, ekki eingöngu sveitarfélög.


mbl.is Krónan kallar á breytilega húsnæðisvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf og tímabær vegagerð

Það er fagnaðarefni að nú sé farið að ræða aftur af alvöru um Sundabraut, sem er líklega einhver hagkvæmasta vegagerð sem mögulegt væri að ráðast í um þessar mundir og eins og Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, bendir á gefur möguleika á veggjaldi, enda annar valkostur um akstursleið í boði fyrir þá sem ekki vilja greiða vegatollinn.

Hugmyndir Ögmundar Jónassonar um vegatolla á alla vegi út úr Reykjavík er svo arfavitlaus að hún tekur engu tali, enda ekki um aðrar leiðir að ræða fyrir þá sem vilja sleppa við gjaldið, en slíkt er alger grunnforsenda ef ætlunin er að skattleggja einhvern veg sérstaklega.

Í því árferði sem nú er ætti að ráðast í margar smærri framkvæmdir í vegagerð en ekki skipta því litla framkvæmdafé sem fyrir hendi er á einn eða tvo staði, eins og hugmyndir hafa verið uppi um hjá ráðherranum, en nánast allt vegafé næstu ára virðist eiga að fara í Suðurlandsveg og enn stærri upphæð í Vaðlaheiðargöng, sem ekki munu geta staðið undir sér þó gjald verði lagt á umferð um þau.

Sérstakt félag um Sundabraut hefur hins vegar alla burði til að standa undir rekstri brautarinnar, enda yrði þetta umferðarmesti vegur landsins.


mbl.is Aukinn áhugi á Sundabraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins vitglóra í bankamálum?

Samruni SpKef og Landsbankans virðist við fyrstu sýn vera það fyrsta vitræna sem gert er í bankamálum síðan nýju bankarnir voru stofnaðir eftir bankahrunið, en þá hefði reyndar verið nóg að stofna tvo nýja banka, þ.e. NBI hf. (nýja Landsbankann) og svo sameinaðan Arion- og Íslandsbanka.

Bankakerfið var orðið brjálæðislega stórt fyrir hrun og er það ennþá, með þrjá viðskiptabanka og tuga sparisjóða.  SpKef var það stór í sniðum að hann jafngilti í raun helmingi alls sparisjóðakerfisins, þannig að vonlaust verður að halda úti afganginum af kerfinu og væri líklega eðlilegast að sameina alla sparisjóðina nýja Landsbankanum.

Fjármálakerfið eins og það er ennþá, er allt of stórt fyrir íslenska markaðinn og áhættan í því allt of mikil, ekki síst í því ljósi að ríkisstjórnin er með í undirbúningi lög um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta sem tryggi allar innistæður fyrir að lágmarki 100.000 evrur í stað 20.803 evra, eins og gert er ráð fyrir í dag og Bretar og Hollendingar eru að neyða Íslendinga til að samþykkja ríkisábyrgð fyrir.

Með samþykkt Icesavelaganna yrði sett fordæmi um ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðinn og þar sem tveir bankanna eru í eigu útlendinga, væri verið að veita þeim ríkisábyrgð til jafns við íslenska banka.

Allt þetta verður að hafa í huga, þegar kjósendur gagan að kjörborðinu 9. apríl n.k.


mbl.is Vonandi síðasta uppstokkunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir og sannleikurinn

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur stefnt Svavari Halldórrsyni, fréttamanni, vegna frétta sem Svavar hefur flutt af málum tengdum Bónusgenginu og harðneitar nú að eiga frekari samskipti við hann, enda sé hann ófær um að segja sannar fréttir af Jóni Ásgeiri sjálfum og öðrum meðlimum Bónusgengisins.

Þessum fréttamanni og sjálfsagt öðrum tekst ekki að segja sannar fréttir af gerðum Bónusgengisins, að mati Jóns Ásgeirs, enda fléttan flókin og bæði skilanefndir bankanna og Sérstakur saksóknari eru að reyna að fá einhvern botn í það gífurlega flókna fyrirtækjanet, sem þessir aðilar komu sér upp á bankaránsárunum og viðskiptum fyrirtækjanna sín á milli í gegnum banka um allan heim og sem sum hver virðast hafa endað á Tortola og öðrum leynireikninglöndum.

Jón Ásgeir ætti að létta öllum þessum aðilum verkið með því að skýra sjálfur frá öllum þáttum málsins og draga ekkert undan og með því móti gæti hann forðast rangan fréttaflutning af sínum málum, að ekki sé nú minnst á hvað rannsóknaraðilar yrðu ánægðir með hann, en hann legði öll sín spil á borðið undanbragðalaust.

Saklaust fólk þarf ekkert að óttast segi það sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann.


mbl.is Svaraði í öllum fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband