Ný rannsóknarnefnd um stríðsþátttöku VG og Samfylkingar?

Í fyrravetur fluttu allmargir þingmenn, aðallega úr VG og Samfylkingu, þingsályktunartillögu á Alþingi um að þingið setti á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda samþykktarinnar um stuðning Íslands við innrásina í Írak fyrir átta árum.  Þessa þingsályktunartillögu má sjá HÉRNA

Ef rétt er munað dagaði tillöguna uppi á þinginu í fyrra og hefur ekki verið endurflutt, en í ljósi síðustu stríðssamþykkta ráðherra VG og Samfylkingarinnar, vaknar sú spurning hvort ekki sé tímabært að endurflytja tillöguna með þeim endurbótum að bætt verði við rannsókn á aðdraganda samþykktarinnar um stuðning við árásina á Líbíu,  því nánast hvert einasta tilmæli um rannsókn, sem nefndinni var ætlað að vinna að, eiga nákvæmlega eins við um aðdraganda stríðssamþykktanna núna.

Samkvæmt því sem sumir VG þingmenn halda fram, þá var ekkert samráð haft við þingflokka, ekki við einstaka þingmenn og alls ekkert við Utanríkismálanefnd Alþingis, en slíka vöntun á samráði töldu flutningsmenn tillögunnar í fyrra einmitt vera einna veigamestu ástæðuna til rannsóknar.

Til að alls samræmis sé gætt í störfum Alþingis, verður ekki hjá því komist að skipa nýja rannsóknarnefnd um stríðssamþykktir Íslendinga í gegn um tíðina, sérstaklega þar sem hægt er að endurnýta tillöguna frá fyrra ári í sparnaðarskyni. 

Varla verður það látið viðgangast að sambærileg stríðssamþykkt árið 2011 og samþykkt var 2004 verði látin falla í gleymskunnar dá, algerlega rannsóknarnefndarlaus.


mbl.is Styrkja bandalag gegn Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarskattur hækkaður til að borga Icesave?

Matarskatturinn svokallaði, þ.e. 7% þrepið í virðisaukaskattinum, er eini skatturinn sem fyrirfannst í kerfinu þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda og ekki hefur verið hækkaður verulega.  Þetta virðisaukaskattsþrep nær yfir nokkra aðra vöruflokka en matvöru, þrátt fyrir gælunafnið "Matarskattur", svo sem bækur, hljómdiska o.fl.

Hér á landi munu vera staddir fjórir fulltrúar frá AGS í þeim erindagjörðum að fara yfir hvaða skatta muni verða hægt að hækka á næstunni, enda þarf að gera ráð fyrir miklum skattahækkunum,  til viðbótar við það skattahækkanabrjálæði sem þegar hefur verið bitnað á þjóðinni, til að standa undir væntanlegum útgjöldum vegna Icesave, verði þrælalögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl n.k., eins og ríkisstjórnin vonast til.

Ríkisstjórnin og aðrir áhugaaðilar um samþykkt þrælasamningsins um Icesave hafa þagað þunnu hljóði um það, hvernig og með hvaða skattahækkunum eigi að borga Bretum og Hollendingum, fari svo að skattgreiðendur samþykki að selja sig sjálfviljugir í slíka ánauð til næstu ára eða áratuga.

Það er jafnvíst og að dagur kemur á eftir nótt, að engan veginn verður hægt að standa undir Icesaveklafanum nema með gríðarlegum skattahækkunum, en mikill blekkingarleikur er stundaður til að fela þá staðreynd og reynt að telja fólki trú um að aukinn hagvöxtur einn saman muni greiða þetta, en að sjálfsögðu verður þá ríkissjóður að skattleggja þann hagvöxt til að afla tekna, enda eru engin útgjöld greidd úr ríkissjóði, nema aflað sé tekna fyrir þeim með skattheimtu.

Steingrímur J. heldur því fram að ekki sé von á "stórfelldum" skattabreytingum á næstunni, en ýmsar "lagfæringar" þurfi að gera.

Reynslan kennir að því minna sem Steingrímur J. gerir úr væntanlegu skattahækkanabrjálæði, því ofsafengnari verður framkvæmdin.


mbl.is Ekki von á stórfelldum skattabreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð Jóns Gnarr að verða borgarbúum dýrkeypt?

Fáir stjórnmálamenn, ef nokkrir, slá Jón Gnarr, borgarstjóra, hafa látið frá sér fara annað eins samansafn af fáránlegum ummælum um þau málefni sem þeir eru að fást við og enginn kemst með tærnar þar sem Jón hefur hælana í þessum efnum, ef miðað er við starfstíma í embætti.

Ef einhver nennti að safna öllu bullinu saman dygði efnið í heila bók, sem hægt væri að skemmta sér og hlæja yfir vel og lengi, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hér er um grafalvarlegt mál að ræða, sem sífellt tekur á sig alvarlegri og alvarlegri mynd.

Nýjustu fréttir af Jóni herma að lánadrottnar fyrirtækisins hafi dregið að sér hendur og neiti nú að endurnýja lánasamninga við OR vegna ummæla borgarstjórans óorðheppna um að fyrirtækið sé í raun á hausnum og slíkar yfirlýsingar eru hreint ekki til þess fallnar að laða að sér samstarfsaðila.  DV.is birtir frétt um þetta mál og má lesa hana HÉRNA

Til að bregðast við þessum afturkipp lánadrottnanna munu vera komnar fram hugmyndir um að hækka gjaldskrá OR um allt að 40% á næstunni til viðbótar við nýlega 20-25% hækkun.

Miðað við þann skaða sem borgarstjórinn hefur valdið fram að þessu, er fyrirkvíðanlegt hvernig framhaldið af kjörtímabilinu verður.


Bloggfærslur 28. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband