Icesaveþrældómur til að niðurgreiða vexti?

Fulltrúar ýmissa atvinnufyritækja hafa myndað áróðurshóp til að berjast fyrir samþykkt þrælasamningsins um Icesave þann 9. apríl n.k. Helsta röksemd þessa hóps er sú, að með því verði hægt að kaupa aðgang að ódýrara lánsfé frá erlendum lánastofnunum.

Það verður að teljast mikil bíræfni að ætlast til þess að íslenskir skattgreiðendur selji sjálfa sig í þrældóm til að greiða erlendar skuldir óreiðumanna, til þess að íslensk fyrirtæki geti tryggt sér eitthvað ódýrari lán í útlöndum en ella væri. Með því væru íslenskir skattaþrælar að niðurgreiða vaxtakostnað fyrirtækja, sem síðan halda því fram að lægri vaxtakostnaður verði nýttur til að greiða þrælunum örlítið hærri laun.

Icesavemálið er í rauninni ekkert flókið, heldur þvert á móti sáraeinfalt. Engin lög eða reglur, hvorki í Evrópu eða hér á landi gera ráð fyrir ríkisábyrgð á slíkum reikningum og því algerlega út í hött að samþykkja slíkt núna. Þar að auki er þetta prinsippmál sem hafa mun verða víðtæk fyrirmynd um alla Evrópu, þegar bankar fara að falla þar eins og útlit er nú fyrir að verði innan skamms.

Skatta Íslendinga á ekki að nota til að niðurgreiða vexti fyrirtækja, sem segja slíkan þrældóm grundvöll launahækkana á næstu árum.

Þá er betra að halda haus, vera á lágu laununum eitthvað áfram og fyrirtækin greiði þá vexti sem þeim stendur til boða, án þrælasölunnar.


mbl.is Fjörugar umræður um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan um ráðherrastól Jóns Bjarnasonar

Sífellt koma upp nýjir fletir á stórstyrjöldinni sem geisar innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, sem aftur speglast í algerlega óstarfhæfri ríkisstjórn. Stjórnin hefur ekki komið nokkru frumvarpi, sem máli skiptir, fyrir þingið í langan tíma og til að breiða yfir vanmáttinn hefur allur tími þingsins undanfarið farið í að ræða um stjórnlagaráð, sem enginn hefur í raun áhuga á, en nýtist ágætlega til að leiða athyglina frá stærri og merkari málum.

Eit helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar, samkvæmt tveggja ára gömlum stjórnarsáttmála, átti að vera breyting á fiskveiðistjórnarlögum, en nú virðist vera útlit fyrir að það mál komist ekki frá ríkisstjórn og til þingsins áður en frestir til að leggja fram ný mál rennur út um mánaðarmótin.

Samfylkingin hefur lagt ofuráherslu á að losna við Jón Bjarnason úr Sjávarútvegsráðuneytinu og til þess átti að sameina ráðuneytið Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum, en Jón Bjarnason og félagar hans í órólegu deild VG hafa barist gegn því með kjafti og klóm, ekki síst vegna einarðar andstöðu við aðlögunarferlið að ESB, sem Samfylkingin er að svindla bakdyramegin inn á þjóðina.

Brotthvarf Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr þingflokki VG var líklega ekki síst til þess að koma í veg fyrir að Jón Bjarnason yrði hrakinn af ráðherrastóli, því yrði það gert myndi hann og Ásmundur Daði umsvifalaust taka stöðu með Atla og Lilju utan þingflokksins og þar með væri ríkisstjórnin fallin.

Eins og útlitið er núna mun Jón Bjarnason áfram gegna ráðherrastarfi, breytingartillaga verður ekki lögð fram um kvótamálin og verulega draga úr kappinu á að lauma landinu inn í væntanlegt stórríki Evrópu.

Brotthvarf Atla og Lilju úr þingflokki VG akkúrat núna er því engin tilviljun, heldur þaulskipulögð hernaðaraðgerð í þágu Jóns Bjarnasonar og órólegu deildarinnar innan VG sem nýtir tímann sem gefst til undirbúnings stofnunar nýs stjórnmálaflokks, eða samruna við Hreyfinguna.


mbl.is Fiskveiðifrumvarp frestast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband