Enn ein ESBlygi Samfylkingar

Samfylkingin virðist ekki geta stutt áhuga sinn á inngöngu í ESB með einni einustu sannri röksemd, heldur er haldið að almenningi alls kyns hálfsannleika og í mörgum tilfellum hreinum lygum.  Lengi hefur Samfylkingin klifað á því að vextir myndu lækka gríðarlega við upptöku evru og halda sér við þá lygasögu, þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að vextir eru ekki eins í öllum ESB löndum og fara algerlega eftir trausti á viðkomandi ríki og mörg ár munu líða, ef það verður þá nokkurntíma, sem Ísland mun njóta vaxtakjara eins og Þýskaland.

Þrátt fyrir að Lilja Mósesdóttir hafi sýnt fram á þessar staðreyndir með tilvísun til mismunandi vaxtakjara í Evrópu og þess að erlendar lánastofnanir lána ekki lengur til vandræðalanda, eins og Ísland sannarlega er og verður um mörg ár ennþá og ekki síst á meðan núverandi ríkisstjórn situr, en traust á henni erlendis er minna en ekkert, þá heldur Magnús Orri Schram áfram að falsa staðreyndir varðandi vaxtakjörin í Evrópu og þeirra kjara sem Íslendingum mun koma til með að bjóðast.

Endalaust er klifað á þeirri fölsun að verðtrygging íslenskra lána sé svo skelfileg, að hún ein réttlæti upptöku nýs gjaldmiðils og að verðbólga yrði úr sögunni hérlendis um leið og nýr gjaldmiðill yrði tekinn upp, þrátt fyrir að talsverð verðbólga sé einnig í ESBlöndum og fari vaxandi um þessar mundir.  Mismunurinn er sá, að í Evrópu er vaxtastiginu haldið yfir verðbólgunni, þannig að fólk í þeim löndum er ekki að fá neitt gefins frá bönkunum þar, frekar en hér.

Nú er verðbólga lítil á Íslandi og ekki horfur á að hún verði mjög mikil á næstu árum, þannig að ef einhvern tíma er tækifæri til að gera breytingu á lánakerfinu, er það núna.  Það verður að teljast undarlegt að andstæðingar verðtryggingarinnar skuli ekki rísa upp og krefjast afnáms verðtryggðra lána, fyrst þeir eru svona sannfærðir um að verðtryggingin sé upphaf og endir alls vanda skuldara.

Hér hefur oft verið bent á að það sé vaxtaokrið, sem sé vandamálið, en ekki verðtryggingin og því vekur það mikla furðu að engin umræða sé nú um afnám verðtryggingar og alls engin um vaxtaokrið, sem hér hefur tíðkast áratugum saman.  Jafnvel hefur verðtryggingunni verið kennt um hvað dýrt sé að taka lán þegar vextirnir hafa jafnvel verið 8-10% ofan á verðtrygginguna og í sumum tilfellum ennþá hærri.

Ef einhver vilji er til þess að taka upp alvöru hagstjórn á Íslandi, þá er hægt að gera það núna með krónunni, verðtryggðri eða óverðtryggðri, en að sjálfsögðu kallar slíkt á gjörbreytta hugsun almennings og stjórnmálamanna varðandi eyðslu og lántökur.

Sú hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað hvort sem gengið verður í ESB eða ekki og hvort sem skipt verður um gjaldmiðil eða ekki.  Óðaverðbólga með Evru myndi leiða hagkerfið í þrot á örfáum árum og skulduga einstaklinga líka, enda yrðu allir vextir breytilegir og alltaf hærri en verðbólgan.

 


mbl.is Segir vexti lítið lækka með upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir lætur ekki bjóða sér neinar almúgagistingar

Fréttir berast nú af því að skilanefnd Landsbankans hafi leyst til sín lúxusíbúð Jóns Ásgeirs í New York og hafi nefndin leyst svítuna til sín á tvo og hálfan milljarð króna.  Íbúðin mun vera um 400 fermetrar að stærð og því leggur fermeterinn sig á rúmar sex milljónir króna og má benda á að fermeterinn í lúxusíbúðum hér á landi nær varla 10% af þessari upphæð.

Einnig hefur komið fram, að íbúðin var öll í skuld og fyrst skilanefndin er að hirða hana núna upp í skuldirnar hefur ekki verið greitt af þeim, frekar en af öðrum lánum sem Bónusgengið hefur tekið í gegnum tíðina.  Þá vakna líka spurningar um það, hvort Jón Ásgeir hafi greitt skatta af þeim hlunnindum sem hann hefur notið vegna afnota af þessu lúxussloti undanfarin ár, en venjulegir íslenskir skattaþrælar eru miskunnarlaust látnir greiða skatta af öllum hlunnindum sem þeir eru taldir njóta til viðbótar við laun sín.

Hafi lánið, sem hvíldi á íbúðinni verið á tiltölulega góðum vöxtum, t.d. 4%, hafa vaxtagreiðslur verið um eitthundrað milljónir króna á ári og þar sem Jón Ásgeir bjó ekki að staðaldri í þessari íbúð, því fasta búsetu hefur hann í lúxusvillu í London, hefur hver gistinótt kostað ótrúlegar upphæðir.  Ef miðað væri við að Bónusgengið hefði gist í íbúðinni í mánuð árlega hefur hver nótt kostað rúmlega 3,3 milljónir króna vegna vaxtanna einna saman og er þá annar rekstrarkostnaður ekki meðtalinn, en hann er án vafa verulegur.

Sem betur fer á Bónusgengið aðra lúxusíbúð í New York, þannig að þó hún sé ef til vill ekki eins dýr og þessi, sem nú var tekin upp í skuldir, verður að reikna með og vona að sæmilega fari um gengið þar, því ekki er hægt að reikna með að fólk sem vant er svona lúxus geti gist á hótelum þegar það á leið um stórborgina, eins og hver annar almenningur.

Að vísu eru til rándýr hótel í New York sem margir raunverulegir auðkýfingar láta sér nægja í heimsóknum sínum til stórborgarinnar, en íslenskar snobbfígúrur láta auðvitað ekki bjóða sér svoleiðis hótelsvítur, þótt rándýrar séu.

Enda ekki ástæða til að láta bjóða sér annað en það flottasta og dýrasta, þegar maður þarf aldrei að borga krónu fyrir það sjálfur, en það er einmitt mottó íslenskra auðróna, eins og þeir hafa verið kallaðir, algerlega að ósekju auðvitað. 

 


mbl.is Íbúð Jóns Ásgeirs í hendur Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband