Lélegir ökumenn

Ekki er hægt að segja að það komi á óvart, að við talningu lögreglunnar hafi komið í ljós að minnihluti ökumanna noti stefnuljós, því allir sem ekið hafa á Íslandi vita að í umferðinni þar ber sáralítið á nokkurri kunnáttu í einföldustu umferðarreglum.

Sárafáir virðast vita til hvers stefnuljósin eru og enn færri að í landinu sé hægri umferð, en í því felst að keyrt er að jafnaði á hægri akrein, þar sem fleiri akreinar eru en ein, og að þær sem til vinstri eru, séu til þess að taka fram úr þeim bílum sem hægar er ekið.

Hvergi erlendis þekkist að tekið sé fram úr öðrum bíl á hægri akrein, heldur eru flautur þeyttar ef einhver tréhestur er á ferðinni á vinstri akrein og fer hægar en umferðin á þeirri hægri. Í nágrannalöndum er það einnig undantekningarlítil regla að sé gefið stefnuljós og með því gefið í skyn að áhugi sé á að skipta um akrein, þá hægir önnur umferð á sér umsvifalaust og sá sem þarf að beygja getur gert það hindrunarlaust og án erfiðleika.

Hér á landi ríkir sama agaleysis í umferðinni og viðgengst á flestum öðrum sviðum, enda erum við Íslendingar kóngar allir sem einn og teljum að öðrum komi ekki mikið við hvað við gerum eða hvert við förum.


mbl.is Minnihluti notar stefnuljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennarar kunna ekki íslensku lengur

Íslenskukunnáttu hrakar mjög skart og er nú svo komið að yngri kynslóðir tala nánast ekki sama tungumál og talað var á Íslandi fyrir svona fimmtíuárum.  Beygingar eru ekki rétt notaðar og alls kyns ambögur vaða uppi bæí í rit- og talmáli.

Eina skýringin sem getur verið á þessu hlýtur að vera sú, að kennarar tala ekki lengur almennilegt mál og geta því ekki haft það fyrir nemendum sínum og leiðrétt þá þegar þeir tala þessa "nýju" íslensku, sem ömurlegt er að hlusta á og ekki síður lesa.

Viðbótarskýring, ekki síðri, er að foreldrar unglinganna sem nú eru í skóla hafi ekki lært almennilega íslensku og íslenska málfræði þegar þeir voru í skóla og geti því ekki, frekar en kennararnir, leiðrétt börn sín og verið þeim fyrirmynd varðandi málnotkun.

Hildur Ýr Ísberg rannsakaði málvenju unglinga og segir í fréttinni m.a:  ""Viðtengingarháttur er mjög flókinn og svo virðist sem málkerfið sé að reyna að einfalda sig. Sagnbeygingar, sérstaklega óreglulegra sagna, eru erfiðar viðfangs og þá virðast yngri málnotendur vera að einfalda beygingarnar,“ segir Hildur og nefnir þágufallssýki sem annað dæmi um þessa tilhneigingu tungumálsins."

Uppgjöfin gegn þessari hnignun tungumálsins kemur vel fram í þessari setningu fréttarinnar:  "Hildur segir erfitt að berjast við svona þróun en mjög spennandi að fylgjast með henni."  Ekki er von til þess að íslenskan haldi sérkennum sínum og blæbrigðum til lengdar, ef þetta er ríkjandi viðhorf þeirra sem helst ættu að berjast gegn þeirri hröðu hnignun tungunnar sem sífellt ágerist.


mbl.is Viðtengingarháttur á miklu undanhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar vegna Icesave

Nú stefnir allt í að Icesave III verði samþykkt á Alþingi fljótlega og ekki liggur fyrir hvort skattgreiðendur fái að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, um sína eigin sölu í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga.

Áður en þriðja og síðasta umræða um málið fer fram á Alþingi, en samkvæmt þingsköpum fer lítil umræða fram þá, heldur er aðallega um lokaatkvæðagreiðslu að ræða, þar sem umræðum um mál lýkur að mestu eða öllu leyti við umræðu númer tvö í þinginu, verður að upplýsa hvaða skattar verða hækkaðir eða fundnir upp til að hægt verði að borga fyrir þennan glæpsamlega rekstur Landsbankans.

Þrælar eru ekki réttháir allajafna, en í þessu tilfelli hljóta þeir að geta krafist þess að fá að sjá einhverja áætlun um hvaða skatta verða hækkaðir til að greiða fjárkúgunarkröfuna og hvort fyrir liggi áætlanir um nýja skatta, sem óhjákvæmilegt verður að leggja á til viðbótar til fjáröflunar fyrir erlendu kúgarana.

Varla getur verið að Alþingismenn ætli að samþykkja tuga eða hundraða milljarða skattaáþján á þjóðina í þágu erlendra ribbalda, án þess að fyrir liggi nákvæm áætlun um þær þrælabyrðar sem því munu fylgja.


mbl.is Allt að 2 milljónir á heimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband