Ógæfuleg verkfallsboðun

Í því atvinnuástandi sem ríkir í landinu, þar sem hátt í 15.000 manns ganga atvinnulausir, fyrir utan allt það fólk sem flutt hefur úr landi til að finna sér lifibrauð, er ótrúlegt að sjá að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja séu búnir að boða til verkfalls til þess að knýja á um tuga prósenta kauphækkun.

Það sem er áríðandi núna er að hækka laun hóflega, en vinna þess í stað að því að skapa störf fyrir þá sem enga vinnu hafa og þurfa að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum, sem allir vita að eru ekki hærri en svo að þær rétt halda fólki yfir hungurmörkum og margir ná því ekki einu sinni.

Verkalýðshreyfingin virðist halda að það sé sniðug hernaðartækni að senda fámennan hóp í verkfall, vegna þess að hann geti valdið svo miklu tjóni í miðri loðnuvertíð, en það verður að teljast furðulegt, ef forystumenn verkalýðsfélaganna trúa því í alvöru sjálfir að samið verði við þennan hóp um miklar launahækkanir, sem hafi svo fordæmisgildi út um allt samfélagið.

Ekki er útlit fyrir annað en að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja verði í verkfalli allan þann tíma sem tekur að ganga frá kjarasamningum við allan vinnumarkaðinn og ekki munu þeir fá atvinnuleysisbætur í verkfallinu.

Verkalýðshreyfingin mun þurfa að halda þeim uppi á launum með verkfallssjóðum sínum og ekki er hægt að segja að það sé vel úthugsuð fjárfesting.


mbl.is Vinnustöðvun samþykkt í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brandarinn um aukið lýðræði

Steingrímur J. Sigfússon, VG, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, segjast ekki styðja þjóðaratkvæði um Icesave III og Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, hefur ekki tekið endanlega afstöðu til slíks og ekki er vitað um afstöðu Sigmundar Davíðs, Framsóknarflokki, en Hreyfingin mun líklega vera hlynnt þjóðaratkvæði í þessu tilfelli.

Stjórnmálamenn hafa predikað undanfarin misseri að auka þurfi áhrif almennings á niðurstöðu einstakra mála og það verði best gert með því að vísa þeim til beinnar afgreiðslu kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum.  Þegar kemur síðan að stórmálum, sem full ástæða væri til að láta kjósendur ákveða sjálfa, þá heykjast stjórnmálamennirnir alltaf á þessu aukna lýðræði og telja að "sum mál" séu þess eðlis að ekki sé hægt að vísa þeim til þjóðarinnar til ákvörðunar.

Stjórnmálamenn vilja sem sagt ekki aukið lýðræði, nema í ræðum á hátíðar- og tyllidögum.  Fólk skyldi ekki klappa fyrir slíkum yfirlýsingum framar, hleldur hlæja dátt og innilega, enda eru slíkir frasar hugsaðir áheyrendum til skemmtunar en ekki til að taka alvarlega.

Brandarinn er hins vegar strax orðinn svolítið þreyttur og hressist ekkert eftir því sem hann er sagður oftar.


mbl.is Forystufólk í stjórnarflokkunum vill ekki þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband