28.2.2011 | 23:34
Skattahækkanir vegna Icesave III
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, minnir á í viðtali við mbl.is að daginn eftir samþykkt Icesave III þurfi að hækka skatta um 26,1 milljarð króna vegna þeirrar greiðslu sem ríkið þyrfti að inna af hendi strax á þessu ári í vaxtagreiðlsu venga ólögvörðu kröfunnar, sem með samþykktinni á lögunum yrði að lögvarinni skuld íslenskra skattgreiðenda.
Hræðsluáróðurinn núna gengur út á að allt of mikil áhætta sé við það að fara "dómstólaleiðina" með málið, þrátt fyrir að ALLIR viðurkenni núna að aldrei hafi verið gert ráð fyrir ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda, hvorki samkvæmt tilskipunum ESB né íslenskum lögum. Þetta hafa meira að segja háttsettir embættismenn Framkvæmdastjórnar ESB staðfest, ásamt öllum lögspekingum íslenskum og erlendum sem um málið hafa fjallað.
Því er algerlega óskiljanlegt hvað á að vera svona hræðilegt við "dómstólaleiðina", þar sem vægast sagt litlar líkur eru á því að hugsanleg dómsniðurstaða gæti orðið Íslendingum óhagstæð og þar að auki myndi dómur EFTAdómstólsins alls ekki vera aðfararhæfur hér á landi. Færi allt á versta veg og mál yrði rekið fyrir íslenskum dómstólum og tapast þar, er ótrúlegt að Bretum og Hollendingum yrðu dæmdir hærri vextir af kröfunni en þeir hafa samþykkt nú þegar.
Það er lágmarkskrafa að þeir sem tala fyrir samþykkt laganna í þjóðaratkvæðagreiðlsunni útskýri í hverju þeir telja þessa miklu áhættu felast og ekki síður verða þeir að segja skýrt og skorinort hvaða skatta á að hækka og hvaða nýja skatta þarf að finna upp til að greiða þessa kröfu, sem aldrei hefur verið á ábyrgð skattgreiðenda og jafnframt af hverju ætti að samþykkja ríkisábyrgð á hana núna, fyrst aldrei var gert ráð fyrir slíku áður.
Einnig verður að útskýra hvers vegna ætti að setja slíkt fordæmi, þar sem meirihluti íslenska bankakerfisins er nú í eigu útlendinga. Vilja þeir sem ætla að samþykkja Icesave III taka á sig ábyrgð á þessum bönkum til ófyrirséðrar framtíðar?
Öllu þessu verða þeir sem fjárkúgunina vilja samþykkja að svara undanbragðalaust.
![]() |
Icesave þýðir hærri skatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2011 | 16:50
Fjör á kaffistofu saksóknara
Settur saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, Alda Hrönn Jóhannesdóttir, hefur kært Helga Magnús Gunnarsson, forvera sinn í starfi, vegna ærumeiðinga, en Helgi Magnús var í haust skipaður varasaksóknari í Landsdómsmáli gegn Geir H. Haarde. Alda Hrönn kærði vegna ærumeiðinga í sinn garð sem einhver sagði henni að Helgi Magnús hefði viðhaft á göngum embættisins.
Ríkissaksóknar hefur vísað kærunni frá, enda hafi ekkert lögbrot verið framið með þessum meintu ummælum, sem Alda Hrönn heyrði ekki, en eins og oft gerist þegar einhver er baktalaður á göngum efnahagsbrotadeildar, þá kjaftar einhver frá enda frumskylda rannsóknarlögreglumanna, ekki síst efnahagsbrotadeildar, að fylgjast með því hvað hver segir um hvern á göngunum og koma því til skila til þess sem baktalaður er hverju sinni.
Þegar Helgi Magnús tekur aftur við stöðu sinni og Alda Hrönn verður aftur undirmaður hans hlýtur að mega reikna með að fjör færist í leikinn í húskynnum embættisins, bæði á göngunum og ekki síður á kaffistofunni, þar sem allir geta keppst við að segja hver öðrum hvað þessi og hinn sagði um viðkomandi á bak hans. Umræðuefnin verða sjálfsagt óþrjótandi og kærurnar eftir því.
Þetta mál varpar skýru ljósi á hvernig fullorðið fólk starfar í opinberum embættum og hvernig andrúmsloftið hlýtur af vera á vinnustöðunum.
Svo er fólk undrandi á því, að lítið skuli ganga í rannsóknum sakamála í landinu.
![]() |
Kæru vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.2.2011 | 13:37
Gylfi, raðmannorðsníðingarnir á DV og bílarnir
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hugleiðir að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði og er það í sjálfu sér engin frétt, að þeim raðmannorðsníðingum skuli stefnt fyrir slíkar sakir því enginn fjölmiðill hefur verið dæmdur jafn oft fyrir mannorðsníð, svo oft reyndar að enginn kippir sér upp við það lengur.
Athygli vekja hins vegar ummæli Gylfa um bílategundir, en um þær segir hann m.a: "Ég íhuga það nú mjög alvarlega að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði vegna þessarar fréttar um mína persónuhagi. Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi."
Sem sannur Toyotaunnandi verð ég að íhuga alvarlega að leita réttar míns gagnvart Gylfa, því með þessum orðum sínum gæti hann verið að verðfella átta ára gamlan Rav4 jeppling minn, því ekki er hægt að skilja orð hans á annan veg en þann, að Toyota bílar séu bara druslur í samanburði við Nissan.
Þar sem enginn tekur mark á DV eru litlar líkur til þess að umfjöllun þess blaðs um Gylfa verði honum til tjóns og í því ljósi verður að velta fyrir sér hvort álit Gylfa á jepplingstegundinni minni verði til nokkurs skaða, ef miðað er við það álit sem Gylfi hefur keppst við að ávinna sjálfum sér undanfarið.
En manni getur nú sárnað, þegar gert er lítið úr bílnum manns.
![]() |
Íhugar að stefna DV fyrir persónuníð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2011 | 00:18
Ræktun eldsneytis
Joule Unlimited, bandarískt líftæknifyrirtæki, hefur upplýst að það sé búið að finna upp tækni til að geta ræktað eldsneyti með sömu þáttum og fá gras til að vaxa. Það sem til þurfi sé eingöngu sól, vatn og koldioxíð og þannig verði hægt að rækta plöntu sem gefur frá sér eldsneyti eða etanól.
Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Erfðafræðileg ræktun fyrirtækisins muni gera því kleyft að framleiða eldsneyti á áður óþekktu verði. Heimurinn geti í kjölfarið orðið óháður hefðbundnum orkulindum og tæknin tryggi að ekki muni þurfa að styðjast við olíu og bensín í framtíðinni." Áður hafa birst fréttir af því að ræktun annarra plantna til að framleiða eldsneyti sé sívaxandi t.d. á repju og er meira að segja byrjað að gera tilraunir með slíka ræktun hérlendis í þeim tilgangi að framleiða olíu sem nota megi til að knýja bíla og skip.
Þessi tækni er auðvitað stórmerkileg, enda eru olíuauðlindir heimsins ekki óþrjótandi og því líklega aðeins tímaspursmál hvenær þær þorna upp og auðvelt er að ímynda sér öngþveitið sem skapast myndi á vesturlöndum og víðar, verði ekki komin fram tækni sem leysa myndi olíuna af hólmi.
Ef rækta ætti allt það eldsneyti sem veröldin mun þarfnast í framtíðinni hlýtur að þurfa til þess gríðarlegt landflæmi og vandséð hvar allt það ræktarland ætti að fyrirfinnast, enda mun mannkyninu fjölga svo ört á næstu átatugum, að skorta mun land til matvælaframleiðslu og hvað þá til eldsneytisræktunar.
Fólk mun þurfa að hugleiða vandlega hvort réttlætanlegt sé að taka dýrmæt og gjöful landssvæði til ræktunar á bíla-, skipa- og flugvélaeldsneyti á meðan helmingur mannkyns sveltur og mikil andstæða er meira að segja við því að auka matvælaframleiðslu með erfðabreytingu jurta, sem myndi auka vaxtahraða þeirra.
Tækniframförum ber að fagna, en hugsa verður málin frá öllum sjónarhornum.
![]() |
Framleiða eldsneyti úr sól, vatni og koldíoxíði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)