Óhrein samviska?

Dómstóll í New York ætlar að taka aftur upp skaðabótamálið sem slitastjórn Glitnis höfðaði þar í borg gegn Bónusgenginu og helstu samverkamönnum þess vegna þess tjóns sem bankinn varð fyrir á meðan hann var í "eigu" þessara aðila, stjórn þeirra og/eða viðskiptum fyrirtækja þeirra við bankann.

Slitastjórnin stefnir í New York vegna skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum upp á tugi milljarða, sem taldir eru hafa verið nýttir af gengjunum að mestu í eigin þágu og þar með notað aðstöðu sína í raun og veru til að ræna bankann innanfrá.

Gengin mótmæltu harðlega að málið yrði rekið í New York og báru því m.a. við að enskukunnáttu þeirra væri svo ábótavant, jafn vel þó gengismeðlimir byggju flestir í London, að ómögulegt væri fyrir þá að verjast fyrir enskumælandi dómara.

Dómarinn var tilbúinn til þess að vísa málinu til íslenskra dómstóla gegn því skilyrði að gengisfélagar myndu ekki reyna að standa í vegi fyrir því að gengið yrði að eignum þeirra í Bandaríkjunum, færi svo að þeir töpuðu málinu fyrir íslenskum dómstólum.

Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson, sem meðal annars sölsaði til sín Iceland Expess og Asterus á vafasaman hátt út úr þrotabúi Fons, neituðu að ganga að þessum skilyrði, enda ættu þeir engar eignir í Bandaríkjunum og því er málið nú tekið upp að nýju af hinum bandaríska dómara.

Getur verið að félagarnir séu ekki alveg með hreina samvisku gagnvart leyndum eignum á erlendri grundu?


mbl.is Glitnismálið tekið upp að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur óorði á einkaframtakið

Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að endurnýja ekki samstarfssamning sinn við Menntaskólann Hraðbraut vegna meðferðar rekstaraðila skólans á fjármunum og ekki síst framlögum ríkisins til skólastarfsins.

Miðað við þær fréttir sem af starfsemi skólans verða ekki aðrar ályktanir dregnar en að vægast sagt hafi verið farið frjálslega með rekstrarfé skólans, sem var í raun allt of hátt, þar sem greiðslur miðuðust við mun fleiri nemendur en stunduðu þar nám.

Eigendur skólans greiddu sér út tugi milljóna í arð á örfáum árum og lánuðu aðilum tengdum félaginu tugi milljóna til viðbótar, sem a.m.k. jaðrar við að vera brot á hlutafélagalögum og verður þessi fjármálastjórnun að teljast til afar slæmra viðskiptahátta og ekki nema von að Ríkisendurskoðun og yfirvöldum menntamála hafi blöskrað.

Eigendur fyrirtækja, sem rekin eru á eigin kennitölu, hafa ekkert leyfi til að umgangast fjármuni fyrirtækjanna eins og sína eigin og hafa alls ekki heimild til að veita sjálfum sér lán og ekki að greiða sér nema hóflegan arð í samræmi við afkomu félaganna. Allt annað flokkast undir sukk og svínarí í fyrirtækjarekstri og það var einmitt slík stjórnun, sem leiddi til gjaldþrota banka og útrásarfyrirtækja og enduðu með hruni efnahagslífsins.

Svona fjármálastjórn á ekki að sjást í fyrirtækjum, enda kemur hún óorði á einkarekstur og leiðir til vantrausts gagnvart öðrum rekstrarformun en ríkisrekstri, þó ríkisreksturinn sé nánast undantekningarlaust dýrari og spilltari en einkareksturinn.

Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar geta engu um kennt hvernig fór, öðru en eigin græðgi.


mbl.is „Ekki búin að gefast upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Landsbankinn orðinn gráðugt útrásargengi?

Landsbankinn á 67% í verlsunarkeðjunni Iceland í Bretlandi, eftir að hafa yfirtekið hana upp í skuldir lánakóngs Íslandssögunnar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, foringja Bónusgengisins við framgöngu þess og annarra banka- og útrásargengja í eyðileggingu íslensks efnahagslífs. 

Bónusgengið, ásamt hinum, greiddi sér stjarnfræðilegar upphæðir í arð út úr þeim bönkum og fyrirtækjum sem það komst yfir, enda urðu þau flest gjaldþrota og gengin skildu eftir sig ótrúlegar upphæðir í skuldum um allar jarðir og Bónusgengið eitt og sér mun hafa skuldað a.m.k. þúsund milljarða króna, þegar loftbólan sprakk.

Verslunarkeðja Iceland er besta fyrirtækið sem Bónusgenginu tókst að sölsa undir sig og eitt fárra þeirra sem hefur verið vel rekið og skilað arði.  Ekki er vitað hvernig skuldastaða fyrirtækisins er um þessar mundir, en Jón Ásgeir gumaði af því um árið, að hann hefði náð öllu kaupverði fyrirtækisins út úr því með arðgreiðslum á undra fáum árum.  Til þess að greiða þann arð varð fyrirtækið að skuldsetja sig, en lifði þó af eignarhaldstíma Baugsgengisins.

Nú virðist Landsbankinn vera kominn í gamla góða útrásargírinn og ætlar að láta Iceland greiða sér og öðrum eigendum fyrirtækisins arð fyrir síðasta ár sem nemur þreföldum hagnaði félagsins fyrir skatt.  Arðgreiðslan á að nema 330 milljónum punda, en hagnaðurinn var hins vegar 110 milljónir punda fyrir skatt, þannig að þegar skatturinn verður búinn að taka sitt verði endanlegur hagnaður á bilinu 60-70 milljónir punda.  Sé það nálæt lagi verður arðgreiðslan fimmfaldur nettóhagnaður.

Að ganga svo freklega á eigið fé félaga var talið hafa liðið undir lok með gömlu banka- og útrásargengjunum.

Nú virðist nýji Landsbankinn vera kominn í sama gírinn og svæsnustu útrásargengin voru í áður.


mbl.is Iceland Foods greiðir út arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óáreiðanlegt matsfyrirtæki

Moody´s segir að ef kjósendur hafni lögunum um Icesave muni lánshæfismat íslenska ríkisins "að öllum líkindum fara í ruslflokk", sem er með ólíkindum vegna þess að þá væri verið að auka á skuldabyrði ríkissjóðs og miðað við allar venjulegar efnahagslegar forsendur ætti slíkt að valda lélegra lánshæfismati, en ekki bæta það.

Moody´s er eitt þeirra matsfyrirtækja sem fram á síðasta dag gaf íslenskum bönkum hæstu einkunn og taldi þá með traustustu fjármálastofnunum heimsins, en eins og allir vita var ekki mikið að marka það álit matsfyrirtækjanna.  Núna passar Moody´s sig á því að setja þessu nýja áliti sínu alls kyns fyrirvara, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Hinsvegar er skýrt tekið fram í mati Moody's að mikil óvissa ríki  um ofangreint. Forsendur um gengisþróun og endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans kunna að reynast bjartsýnar. Einnig er nefnt að niðurstöður í ýmsum dómsmálum sem nú standa yfir kunni að hafa neikvæð áhrif á stöðu íslenska ríkisins og einkageirans."

Svona "álit" gefur undir fótinn með að ekkert sé að marka þessi svokölluðu matsfyrirtæki, enda hafa þau ekki úr háum söðli að detta eftir bankahrunið á vesturlöndum, enda stóð ekki steinn yfir steini í mati þeirra á fjármálageiranum og lítið mark tekið á þeim um þessar mundir.

Moody´s telur að höfnun laganna geti dregið á langinn að afnema gjaldeyrishöftin, en verður svo tvísaga þegar sagt er að afnám gjaldeyrishaftanna geti leitt til skyndilegrar lækkunar krónunnar með öllum þeim erfiðleikum sem því myndu fylgja.

Athyglisverðust eru þær vangaveltur Moody's að verði lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að slíkt myndi sennilega seinka greiðslum á lánum Norðurlandaþjóðanna og sýnir það enn og aftur hverjir eru helstu meðreiðarsveinar í þeirri skefjalausu og harkalegu fjárkúgun, sem beitt hefur verið af hálfu Breta, Hollendinga og ESB í þessu máli.

Þetta inngrip Moody's í umræðuna um kosti og galla þess að samþykkja eða hafna staðfestingu Icesavelaganna er vægast sagt ómerkilegt og að engu hafandi, enda með fyrirvörum í allar áttir.


mbl.is Moody's: Nei sendir ríkið í ruslflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband