Kjósum á kjosum.is

Mikil örvænting hefur gripið um sig á Alþingi vegna undirskriftasöfnunarinnar á netinu með áskorun á forsetann að neita þrælalögunum um Icesave III staðfestingar og það svo, að reiknað er með að fundað verði fram á kvöld á morgun, en það er ekki algengt að svo sé gert fyrr en nær dregur þingslitum.

Þór Saari mun hafa lagt fram tillögu í Fjárlaganefnd um að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en enginn studdi þá tillögu í nefndinni nema Höskuldur Þórhallson. Þór segist ætla að flytja tillöguna aftur á þingfundi á morgun við þriðju og síðustu umræðu um þrælasölufrumvarpið.

Ekki verður öðru trúað en að meirihluti þingmanna muni samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu og setja þannig í hendur þjóðarinnar sjálfrar hvort hún samþykki að setja sjálfa sig í skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara til næstu áratuga.

Þingmönnum og forseta til hvatningar er vissara fyrir kjósendur að snúa bökum saman strax og skrifa sig á áskorunarlistann, því varla getur nokkur verið á móti því að efla lýðræðið í landinu með þjóðaratkvæðagreiðslum, enda spara þingmenn ekki lofsyrðin um opnari stjórnsýslu með meiri og beinni aðkomu kjósenda í stórum málum sem smáum.

Nú þegar hafa tæplega fimmtánþúsund manns tekið þátt í undirskriftasöfnuninni. Tíminn er naumur og því ástæða til að hvetja fólk til að taka þátt í baráttunni fyrir auknu lýðræði, áður en það verður of seint.


mbl.is Icesave afgreitt af fjárlaganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Hæstarétti fyrir Héraðsdóm?

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Gísla Tryggvasonar um endurupptöku úrskurðarins um kosningu til stjórnlagaþings, en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna hefði verið svo illilega ábótavant og ekki staðist lög og lágmarkskröfur um kosningar og því væri ekki annað hægt en að vísa öllu saman út í hafsauga.

Þar sem úrskurður Hæstaréttar í þessu tilfelli skoðast sem stjórnvaldsaðgerð en ekki dómur og lögin gölluðu um stjórnlagaþingskosningarnar gerðu ekki ráð fyrir áfrýjun til æðra dómstigs, en Hæstiréttur er auðvitað æðsta dómstig réttarríkisins, fer málið að vandast fyrir þá sem ekki eru ánægðir með niðurstöðu Hæstaréttar í þessu stórgallaða máli.

Eina leiðin til að fá úr þessu skorið er að stefna Hæstarétti fyrir Héraðsdóm og krefjast þess að Hæstaréttarúrskurðurinn verði ógiltur.  Niðurstöðu Héraðsdóms, hver sem hún verður, verður svo auðvitað áfrýjað til Hæstaréttar til endanlegrar afgreiðslu.

Þar með yrði vitleysisgangurinn vegna þessarar óvönduðu lagasetningar og lélegrar framkvæmdar hennar kominn á endastöð.

 

 


mbl.is Endurupptöku synjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur í boði lífeyrisþega

Fyrir allmörgum árum var almenningi gert kleift að leggja í séreignarlífeyrissjóði til elliáranna og átti sú viðbót að koma sjóðfélögunum til góða í ellinni sem viðbót við þær greiðslur sem fólkið fengi frá Trygggingastofnun og sameignarlífeyrissjóðunum. 

Munurinn á lífeyrissjóðakerfunum tveim er aðallega sá, að í sameignarsjóðunum eru félagarnir í raun að greiða iðgjald, líkt og hjá tryggingafélögunum, og fá ákveðin réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur sínar, en í séreigarlífeyrissjóðunum safnast upp séreign sjóðfélagans, eins og nafn sjóðanna segir til um, og inneignin erfist beint, sem ekki er raunin með samtryggingarsjóðina.

Til þess að létta ríkissjóði róðurinn í kreppunni og ekki síst til að halda uppi einhverri eftirspurn og eyðslu í þjóðfélaginu, fékk ríkisstjórnin þá snilldarhugmynd að láta væntanlega eftirlaunaþega standa undir hvoru tveggja, með því að eyða strax þeim sparnaði sem fólk hafði ætlað til að létta sér lífið í ellinni.

Allar ríkisstjórnir á vesturlöndum hafa látið í algeran forgang að efla atvinnulíf og minnka atvinnuleysi í löndum sínum og engum dottið í hug að láta þegnana snúa hagkerfinu með væntanlegum ellilaunum sínum og er íslenska ríkisstjórnin algerlega sér á báti varðandi ræfildóm í atvinnumálum og örugglega sú eina sem beinlínis berst með öllum ráðum gegn hvers konar aukningu og nýmælum í þeim efnum, en stuðlar þess í stað að fólksflótta úr landinu og auknu atvinnuleysi.

Steingrímur J. getur þakkað verkalýðshreifingunni og ríkisstjórn Davíðs Oddsonar fyrir að hafa komið séreignarlífeyriskerfinu á, því vandséð er hverning Steingrímur J. hefði bjargað sér fyrir horn núna, hefði hann ekki getað opnað fyrir eyðslu þessara sjóða.

 


mbl.is 52.000 taka út séreignasparnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband