16.11.2011 | 19:19
Tvennt athugavert
Á Alþingi standa yfir umræður um fjáraukalög fyrir árið 2011 og eru vinnubrögð stjórnarflokkanna algerlega stórfurðuleg og reyndar fullkomlega óboðleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í anda vinnubragðanna sem viðhöfð voru þegar frumvarpið um Icesave I var lagt fram og átti að afgreiðast án þess að þingmenn fengju að kynna sér innihaldið eða lesa "samninginn", á nú að afgreiða fjáraukalögin án þess að þingmennirnir fái að vita hvað þeir muni vera að samþykkja ef þeir greiða frumvarpinu atkvæði sitt.
Í fréttinni kemur þetta fram um leynimakkið: "Fram kom að þingmenn í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fengu að sjá þessa samninga í morgun en var þá sagt að leynd hvíldi yfir þeim. Þeirri leynd var aflétt síðdegis en þá kom í ljós að hluta af samningunum vantaði í þau eintök, sem þingmenn höfðu undir höndum. Vildu stjórnarandstæðingar að umræðu um fjáraukalögin yrði frestað svo þingmenn gætu kynnt sér málið nánar. Við því var ekki orðið."
Þetta eru meira en lítið athugaverð og vítaverð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og furðulegt að stjórnarþingmenn fáist til að greiða atkvæði með frumvarpi sem þeir vita ekki til fulls hvað inniheldur, eða hvaða kostnað það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið.
Annað sem er athugavert, en þó að nokkru skiljanlegt, er að stjórnarandstaðan skuli ekki ætla að mæta á boðaðan þingfund, þó svo að hann sé boðaður á óvanalegum tíma, því frumskylda þingmanna er auðvitað að taka þátt í þingstörfum.
Fáist ríkisstjórnin ekki til að leggja fram umbeðnar og nauðsynlegar upplýsingar um þau mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni, hefur stjórnarandstaðan það beitta vopn uppi í erminni að beita málþófi og koma þannig í veg fyrir að svona fáránleg mál séu keyrð í gegn um þingið.
Hvorki stjórn eða stjórnarandstaða eru þinginu til mikils sóma þessa dagana.
![]() |
Verða upptekin þegar atkvæðagreiðsla fer fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)