26.10.2011 | 19:30
Svik og prettir í atvinnumálum
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, metur það svo að nánast ekkert verði um nýja atvinnuuppbyggingu í landinu á næstu árum. Þessa ályktun dregur hann af því sem forstjóri Landsvirkjunar sagði á formannafundi ASÍ, en í máli hans komu fram efasemdir um að Alcoa tækist að fjámagna verkefnið vegna efnahagsástandsins í heiminum um þessar mundir. Jafnvel þó Alcoa tækist að finna fjármagnið, þá gæti Landsvirkjun ekki afhent neitt rafmagn til verksmiðjunnar fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm til sex ár.
Það hljóta að teljast vera stórtíðindi að jafnvel þó einhverjir fjárfestar hefðu áhúga á að reisa hér ný fyrirtæki, sem veitt gætu hundruðum manna vinnu, þá sé ríkisstjórnin búin að ganga svo frá málum að ekkert verði hægt að virkja á næstu árum og því ekkert rafmagn til að selja til stórnotenda.
Ástæða er til að vekja sérstaka áherslu á eftirfarandi orðum Vilhjálms: "Þessi niðurstaða, ef rétt reynist, hlýtur að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Suðurnesjamenn sem og þjóðina alla, vegna þess að hagvaxtaspár t.d. ASÍ byggjast að stórum hluta á því að þessar framkvæmdir fari á fulla ferð á næstu misserum. Við Akurnesingar þekkjum vel mikilvægi stóriðjunnar og þau sterku áhrif sem stóriðjan hefur á allt samfélagið. Á þeirri forsendu skilur formaður vel áhyggjur Suðurnesjamanna ef af þessum framkvæmdum verður ekki."
Það er ekki ofsögum sagt af því að atvinnu- og mannlíf á Akranesi á nú orðið nánast allt undir stóriðjurekstrinum á Grundartanga og væri ekki hjá svipur hjá sjón án hans.
Einnig er vert að minna á að í júnímánuði árið 2009 lofaði ríkisstjórnin skriflega, að ryðja úr vegi öllum hindrunum þess að uppbygging álvers í Helguvík gæti hafist strax þá um haustið. Þau loforð hafa verið endurtekin nokkrum sinnum síðan og svikin jafnóðum.
Ríkisstjórninni hefur þegar tekist að koma í veg fyrir uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík og útlit fyrir að sagan endurtaki sig með álverið í Helguvík. Ríkisstjórnin misskilur málið algerlega, ef hún heldur að átak í atvinnumálum felist í baráttu gegn uppbyggingu atvinnuskapandi fyrirtækja.
![]() |
Hverfandi líkur á að álver rísi í Helguvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)