Verðmæt kjörbréf með mikið söfnunargildi

Þrátt fyrir kærur til Hæstaréttar um meint ólögmæti Stjórnlagaþingskosninganna hélt Landskjörstjórn og aðrir í kerfinu áfram undirbúningi fyrir þingið, gefin voru út kjörbréf, húsnæði leigt undir þingið, ráðið starfsfólk og húsnæði undir það og með þessu var Hæstiréttur algerlega sniðgenginn og látið eins og niðurstaða hans gæti aldrei orðið nema á þann veg að blessa framkvæmdina, eða að ekkert mark yrði tekið á honum ella.

Eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn um ólögmæti kosninganna og þar með að enginn hefði þar með hlotið kosningu og því yrði ekkert Stjórnlagaþing haldið á grundvelli þess sex hundruð milljóna króna kostnaðar, sem bramboltið í kringum kosningarnar og fyrirhugað þinghald hafa kostað þjóðina.

Margir frambjóðendur höfðu eytt talsverðum tíma, fé og fyrirhöfn í kosningabaráttu sína og einhverjir hinna tuttuguogfimm sem héldu að þeir yrðu ráðgjafar Alþingis í stjórnarskrármálefnum næstu vikur og mánuði, höfðu gert ýmsar ráðstafanir varðandi vinnu og sumir frestað námi til að geta tekið í þessu fyrirhugaða þinghaldi.

Það eina góða fyrir þessa tuttuguogfimmmenninga er, að kjörbréfin sem gefin höfðu verið út og þeim afhent vegna þingsins og eru nú orðin ógild, verða verðmætir minjagripir í framtíðinni, því fjöldi manna vítt og breitt um heiminn verður vafalaust reiðubúinn til að greiða stórfé fyrir þessi einstöku og sjaldgæfu bréf, sem vitna um mesta kosningaklúður á vesturlöndum í samanlagðri sögu lýðræðis og almennra kosninga.

Nú er eins gott að kjörbréfin hafi ekki verið brotin saman, en hafi það verið gert er rétt að strauja þau strax og koma þeim í þjófhelda geymslu, því söfnunargildi þeirra er mikið og þau munu ekkert gera í framtíðinni annað en að verða sífellt verðmeiri.


mbl.is Útsend kjörbréf teljast ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna skuldar afsökunarbeiðni

Jóhanna Sigurðardóttir gerði vægast sagt lítið úr gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave og taldi hana óþarfa og marklausa, enda væri hún þegar farin að huga að nýjum samningi, sem yrði betri en sá gamli. 

Yfir 63% kjósenda mættu samt sem áður á kjörstað og 98% þeirra hafnaði algerlega að þjóðin tæki á sig skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga.  Jóhanna og ríkisstjórnin gerði ekkert með þá skýlausu yfirlýsingu þjóðarinnar og hélt bara áfram að fela fjárkúgunarkröfuna í nýjan búning með þann staðfasta vilja í farteskinu að selja þjóð sína í erlenda ánauð og nú liggur aftur fyrir Alþingi að fjalla um nýjan þrælasamning.

Í tilefni af því að Hæstiréttur dæmdi Stjórnarskrárþingskosningarnar ógildar vegna lélegrar lagasetningar og framkvæmdar á kosningunni, sagði Jóhanna að ekki mætti svíkja þjóðina um Stjórnarskrárþingið, svo sárt hefði þjóðin grátbeðið um slíkt þing, þó hún léti þess ekki getið hvar sú heita ósk hafi komið fram.  Að minnsta kosti kom hún ekki fram í kosningunni til þingsins, þar sem aðeins 32% kjósenda höfðu fyrir því að mæta á kjörstað, en 68% sátu heima, algerlega áhugalaus um þetta þinghald og hverjir myndu þar sitja og smíða tillögur til Alþingis um nýja stjórnarskrá.

Jóhanna skuldar kjósendum afsökunarbeiðni fyrir að hafa vélað þá á kjörstað og nánast haft þá að fíflum og niðurlægt einn helgasta rétt fólks í lýðræðisríki, þ.e. kosningaréttinn. Hún skuldar frambjóðendunum 523 afsökunarbeiðni fyrir að hafa vélað þá til að gefa kost á sér til Stjórnlagaþings og hafa búið svo illa um hnútana að þeirra helgi réttur til framboðs hafi verið smánaður með lélegum lögum og enn verri undirbúningi þeirra kosninga, sem frambjóðendurnir eyddu tíma, fé og fyrirhöfn til þess að taka þátt í. 

Jóhann skuldar þeim 25 einstaklingum sem efstir urðu í kosningunum afsökunarbeiðni fyrir að telja þeim trú um að þeir væru löglega kjörnir þingfulltrúar á Stjórnlagaþingi og hefðu þar með umboð kjósenda til að undirbúa og samþykkja tillögur að nýrri stjórnarskrá til Alþingis og að hafa fengið ólögleg kjörbréf í hendurnar þar um.

Jóhann skuldar öllum framangreindum aðilum afsökunabeiðni fyrir að hafa látið halda áfram við undirbúning stjórnlagaþingsins, leigu á húsnæði og ráðningu starfsfólks eftir að kosningarnar voru kærðar til Hæstaréttar og þar með lítilsvirt æðsta dómstól landsins, með því að gefa í skyn að niðurstaða hans myndi engu máli skipta fyrir framgang málsins. 

Jóhanna skuldar afsökunarbeiðni fyrir að vera ekki búin að panta viðtal við forsetann, þar sem hún myndi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og gefa út yfirlýsingu um kjördag vegna nýrra Alþingiskosninga.

 


mbl.is Fyrirkomulagið var ekki lýðum ljóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband