Skandall í skilanefnd

Það getur ekki flokkast undir neitt annað en hneyksli af stærri gerðinni og jafnvel hreina spillingu, að Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður, sem sæti á í skilanefnd Kaupþings skuli jafnframt vera verjandi Ívars Guðjónssonar, fyrrv. forstöðumanns eigin viðskipta Landsbankans, sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um stórfellda markaðsmisnotkun og annað vafasamt brask í tengslum við lánveitingar til nokkurra félaga til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum og hafa með því áhrif á verð hlutabréfanna í Kauphöllinni.

Samkvæmt fréttinni er starf Jóhannesar í í undirnefnd skilanefndarinnar hlelst þetta:  "Nefndin hefur það hlutverk að endurskoða ýmsar óvenjulegar lánveitingar til aðila sem tengdust bankanum ásamt því að sjá um samskipti skilanefndarinnar við embætti sérstaks saksóknara."

Svo heldur þessi forherti skilanefndarmaður því fram að störf hans fyrir skilanefndina skarist á engan hátt við starf hans sem verjanda fyrir meintan sakamann, sem einmitt liggur undir grun um samskonar afbrot og skilanefndarmaðurinn á að vera að rannsaka fyrir Kaupþing.

Hvernig á Jóhannes að sjá um að koma gögnum til Sérstaks saksóknara um meinta glæpi í Kaupþingi og vera svo verjandi gagnvart Sérstökum saksóknara vegna samskonar brota í öðrum bönkum?  Að telja þetta ekki vera skörun er algert dómgreindarleysi og spurning hvort ofurlaunin fyrir skilanefndarstörfin séu farin að spilla skilanefndunum eins og fyrirrennurum þeirra við stjórnun bankanna.

Fyrsta verk Fjármálaeftirlitsins í kjölfar þessara frétta af Jóhannesi þessum hlýtur að vera að setja hann af sem skilanefndarmann og setja síðan í gang rannsókn á öllum störfum og gerðum skilanefnda eftir bankahrun.


mbl.is Verjandi situr í eftirlitsnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyting á kvótakerfinu

Mikið er rætt og ritað um kvótakerfið og ekki síst kvótaframsalið og virðast flestir vera á þeirri skoðun að gagngerra breytinga sé þörf á þessu kerfi.  Fiskveiðistjórnunarkerfið var og hlýtur að vera ennþá, hugsað til þess að vernda fiskistofnana, en ekki til að vernda hagsmuni einstakra útgerða.  Flestir eru sammála því, að nauðsynlegt sé að stjórna veiðunum, en ágreiningurinn snýst um hvernig það verði gert.

Núverandi kvótahafar virðast ekki geta hugsað sér neinar breytingar, en þeir sem eiga kvótalausa báta krefjast breytinga og er einna helst að skilja, að þeir vilji helst leyfa óheftar veiðar.  Óheft sókn í fiskisstofnana og stjórnlausar veiðar munu auðvitað ekki koma til greina og uppboð á kvótum til eins árs í senn gengur ekki heldur, því það myndi gjörsamlega eyðileggja allan stöðugleiga undir útgerð og fiskvinnslu.

Spurning er, hvort ekki mætti breyta kerfinu þannig innan samningaleiðarinnar svokölluðu, að kvóta yrði úthlutað til skipa til eins árs í senn og yrði þá byggt á veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan, þ.e. að skip fengju úthlutað kvóta fyrir þeim afla, sem þau veiddu sjálf síðustu þrjú ár að meðaltali, en ekki tekið tillit til kvóta sem þau hefðu selt eða látið frá sér á þeim tíma.

Veiðiskylda skipa yrði 80% af úthlutuðum kvóta, en 20% mætti nota til að skipta á tegundum við aðrar útgerðir, en slík skipti myndu þá að sjálfsögðu hafa áhrif við næstu kvótaúthlutun.  Sala og leiga á veiðiheimildum yrði algerlega bönnuð að öðru leyti en því að sá kvóti sem eftir yrði þegar búið yrði að úthluta í samræmi við veiðireynslu þriggja síðustu ára, yrði boðinn upp og þar með gætu nýliðar komist inn í greinina.  Eina skilyrðið yrði að sá sem fengi úthlutað kvóta á þann hátt ætti bát eða skip, því aðrir gætu ekki fengið úthlutað neinum aflaheimildum.

Með þessu móti myndi allt kvótabrask heyra sögunni til og útgerðirnar yrðu að reka sig eingöngu á tekjum sem fengjust fyrir aflann sjálfan, en ekki af braski með veiðiheimildirnar.  Þetta myndi líka skapa ákveðinn stöðugleika fyrir bæði útgerðina og fiskvinnsluna.  Greitt yrði auðlindagjald fyrir hvert úthlutað tonn í aflaheimildum og yrði ákvörðun um upphæð þess tekin við kvótaúthlutunina árlegu.

Ekki dugar endalaust að gagnrýna núverandi kerfi og benda ekki á eitthvað annað í staðinn.

Þess vegna er þetta sett fram hér í von um umræðu í stað stóryrða. 

(Endurbirt örlítið breytt frá árinu 2009)


mbl.is Standi við sátt um samningaleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband