Hvaða Icesavevinna?

Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar og snati Steingríms J., segir við mbl.is að "vinnan við afgreiðslu Icesavefrumvarpsins" gegni framar björtustu vonum og brátt sæi fyrir endann á henni.

Þetta er furðuleg yfirlýsing, þar sem allt sem menn þurftu að vita um Icesave er löngu komið fram og lá reyndar ljóst fyrir strax eftir þann glæpasamning sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson undirrituðu í umboði Steingríms J. í júní 2009 og ríkisstjórnin ætlaðist svo til að Alþingi samþykkti óséðan og án þess að vita um hverskonar þrælasamning var að ræða.

Eftir mikið japl og jaml og fuður og tilraun númer tvö til að troða kröfum Breta og Hollendinga ofan í þjóðina, tókst henni að snúa vörn í sókn þegar forsetinn vísaði "samningnum" til kjósenda, sem höfnuðu fjárkúgunarkröfunum með eftirminnilegum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.

Vegna þessa alls, er það hrein móðgun við fólkið í landinu að ætla að reyna í þriðja sinn að selja íslenska skattgreiðendur í þrældóm fyrir útlendinga, þegar þeir hafa algerlega hafnað því sjálfir og munu vafalaust gera það aftur, ef á þarf að halda.

Allir, meira að segja forkólfar ESB, viðurkenna að ekki sé, eigi að vera, eða megi vera, ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda og því eiga íslenskir skattgreiðendur ekki að bera nokkra ábyrgð á gjörðum óábyrgra bankaglæpona.

Því snýst þetta mál um það grundvallaratriði að Íslendingar mega hreinlega ekki samþykkja ábyrgð á svona uppgjörum og taka á sig tugmilljarða kostnað, sem þeim kemur ekkert við.

Þetta mál snýst um ofbeldi af hálfu ESB þjóða gegn minni máttar, til þess að sýna hvernig smáfuglarnir verði meðhöndlaðir í framtíðinni, því ekki myndu ofbeldisseggirnir samþykkja að setja svona byrðar á sína eigin skattgreiðendur.

Það þarf ekki frekari Icesavevinnu, enda verður því ekki trúað að þjóðin muni líða frekari svik í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Segir Icesavevinnu ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ennþá á hestvagnastiginu

Þjóðir fóru að skipa sendiherra hver hjá annarri fyrir nokkur hundruð árum síðan, enda ekki hægt að fylgjast með því hvað væri að gerast og gerjast hjá hinum, án þess að hafa fólk á staðnum til að fylgjast með á æðstu stöðum.

Þegar eitthvað gerðist, sem sendiherranum þótti merkilegt og þar með þess virði að senda upplýsingar um til heimalandsins, var sendiboði gerður út með fréttirnar og var daga og vikur á leiðinni með skilaboðin, enda samgöngur með því móti að notast þurfti við hesta til að komast ferða sinna á landi og seglskipa til að komast yfir höfin.

Sendiherrar nútímans eru því eins og hver önnur nátttröll og algerlega úrelt fyrirbæri, algerlega óþörf og ekkert annað en rándýrt snobb og sendiráðin aðallega orðin snobbaður bitlingur fyrir vini og vandamenn utanríkisráðherrans hverju sinni, eða afdankaða pólitíkusa, sem losna þarf við á fljótlegan og auðveldan hátt.

Með samgöngum nútímans og síma- og tölvutækninni urðu störf sendiherranna algerlega óþörf, enda berast allar upplýsingar heimshorna á milli, nánast á sömu mínútu og hlutirnir gerast og hægt að fylgjast með öllum fréttum af því sem gerist í heiminum heima hjá sér og meira að segja í utanríkisráðuneytinu.

Með breyttum heimi á auðvitað að leggja staðbundnu sendiráðin niður og láta starfsmenn utanríkisráðuneytisins um sambandið við yfirvöld annarra þjóða og dygði að senda erindreka af og til, til annarra landa vilji ráðherrann spyrja einhverra frétta, sem ekki rata beint í fjölmiðla umsvifalaust.

Sóunina kringum utanríkismálin ætti að stoppa strax.


mbl.is Afhjúpar tilgangsleysi sendiráða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirstaða kjarabóta er endurreisn atvinnulífsins

Það er algerlega hárrétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA, að undirstaða þess að um einhverjar kjarabætur geti orðið að ræða á næstu árum er að undirstöður atvinnulífsins verði treystar og þá ekki síst sjávarútvegsins, sem mestar tekjur skapar í þjóðfélaginu.

Síðan ríkisstjórnin tók við hefur ríkt mikil óvissa um framtíð kvótakerfisins og í þeim efnum hefur hver höndin verið upp á móti annarri innan stjórnarinnar, eins og í flestum öðrum málum öðrum en skattageggjuninni og því hefur verið alger stöðnun í greininni og útgerðir og fiskvinnslustöðvar ekki farið út í neinar fjárfestingar eða meiriháttar viðhald, enda óvissa um framtíð greinanna alger.

Verkalýðsrekendur eru farnir að halda þeirri lygi að fólki, að í komandi samningum verði "sóttar" miklar kjarabætur til atvinnulífsins, en enginn skynsamur maður trúir svoleiðis áróðri, enda verður ekki um neinar kjarabætur að ræða hér á landi á næstu árum og baráttan mun snúast um að halda óbreyttum kaupmætti þeirra sem þó halda vinnu sinni ennþá.

Mesta kjarabót þjóðfélagsheildarinnar á næstu árum verður að minnka atvinnuleysið og koma sem flestum aftur til verðmætaskapandi verka og það er eina leiðin til að auka veltu og hagvöxt í landinu, fyrir utan að snúa ofan af skattabrjálæðinu, sem ríkisstjórnin hefur látið bitna á þjóðinni með vaxandi ofsa ár frá ári.

Því fyrr sem fólk gerir sér grein fyrir því, að kjarabótaloforð verkalýðsrekendanna eru falsloforð og lífskjör batna ekki í landinu fyrr en breytt atvinnustefna nær sér á strik og fleiri og fleiri fái vinnu á þeim kjörum sem nú bjóðast vinnandi fólki í landinu.

Að halda öðru fram eru hreinlega blekkingar, lýðskrum og í flestum tilfellum vísvitandi lygi.


mbl.is Ekki samið án lausnar í útvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband