Stjórnin viðheldur kreppunni með öllum ráðum

Ríkisstjórnin viðheldur kreppunni með hatrammri baráttu sinni gegn endurreisn atvinnulífsins, t.d. með því að þvælast fyrir öllum framkvæmdum í orku- og stóriðjugeiranum.

Stórframkvæmdir á því sviði myndu veita flestum atvinnulausum nýja vinnu á skemmsta mögulega tíma og þær myndu smita bjarsýni og krafti út um allt samfélagið og ýta smáum og meðalstórum fyrirtækjum af stað að nýju, en þau hafa öll verið lömuð síðan í hruninu, enda ekkert verið gert til að koma þeim úr öndunarvélinni.

Sem betur fer er þó farið að örla á einni og einni frétt af erlendum fjárfestum sem hug hefðu á að koma upp fyrirtækjum hér á landi, en fyrirgreiðsla og hvatning ríkisstjórnarinnar er nákvæmlega engin, þannig að það sem þó virðist vera að gerast á þessu sviði, gerist þrátt fyrir ríkisstjórnina, en ekki vegna hennar.

Framundan er mesta fjöldauppsögn starfsmanna nokkurs íslensks fyrirtækis, en þar er um að ræða verktakafyrirtækið ÍAV, sem er að ljúka byggingu Hörpunnar og hafði búist við að nýjar stórframkvæmdir við virkjanir og annað slíkt myndi taka við, en ríkisstjórninni hefur tekist að koma í veg fyrir það og því mun fjölga umtalsvert á atvinnuleysisskrá á næstu vikum.

Allir aðrir en ríkisstjórnin skilja að það eina sem mun koma landinu og þjóðinni úr úr kreppunni er aukin vinna og verðmætasköpun. Þess vegna eru litlar líkur á að stefnubreyting verði af hálfu stjórnarinnar á næstunni og kreppan mun halda áfram að dýpka og lengjast.


mbl.is 170 starfsmönnum ÍAV sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. ætti að lesa þetta

Bobbi Demantur, nýráðinn forstjóri Barclays-bankans, breska, lét þá skoðun sína í ljós fyrir þingnefnd, að algerlega óviðunandi væri að skattgreiðendur væru látnir taka á sig þungar byrðar vegna illa rekinna banka.

Demanturinn sagði að slíkir bankar ættu einfaldlega að fara á hausinn og t.d. væri sinn banki ekkert of stór til að falla og kæmi sú staða upp ætti alls ekki að senda skattgreiðendum reikninginn.

Þetta er algerlega þvert á stefnu Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar, sem finnst ekkert eðlilegra en að láta almenning borga fyrir glæparekstur á einkabönkum og það sem merkilegra er, að helst vill Steingrímur borga sem allra mest í slíkum tilfellum og fékk bestu vini sína, þá Svavar Gestsson og Indriða H. Þorláksson ti þess að útbúa loforð til Breta og Hollendinga um þvílíkar ógnargreiðslur, að það hefði jafngilt því að selja íslendiga í skattaþrældóm til margra áratuga og hefði þó aldrei sést högg á vatni með eftirstöðvarnar.

Steingrímur J. ætti að kynna sér það sem Bobbi Demantur hefur um svona mál að segja og gera skoðanir hans að sínum. Best væri að hann hegðaði sér svo í framhaldinu í samræmi við þær.

Það myndi létta íslenskum skattgreiðendum lífið mikið á næstu áratugum.


mbl.is Óviðunandi að skattgreiðendur bjargi bönkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave og norðurlöndin

Fjórða endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og Íslands hefur nú verið staðfest í stjórn AGS og þar með er til reiðu 19 milljarða lánsloforð til styrkingar gjaldeyrisvarasjóðnum, ef á þarf að halda, sem nokkuð örugglega verður,þegar og ef gjaldeyrishöftum verður aflétt.

Í tilkynningu frá Árna Páli, viðskiptaráðherra, sem ekki telst til sannsöglustu eða nákvæmustu manna, kemur þetta fram m.a: "Íslenskum stjórnvöldum stendur nú einnig til boða öll sú lánafyrirgreiðsla sem Norðurlöndin höfðu boðað í tengslum við áætlunina."  Ef þetta er rétt, þá eru það stórmerk tíðindi og ný, því norðurlöndin settu það skilyrði í upphafi að íslendingar gerðust skattaþrælar Breta og Hollendinga til næstu áratuga vegna skuldar einkabanka við ákveðna viðskiptavini sína erlendis, þ.e. Icesave.

AGS tók þátt í fjárkúguninni upphaflega, en gafst upp á því vegna þess skaða sem sjóðurinn hafði skapað sjálfum sér og orðspori sínu með þátttöku sinni í glæpnum, en ekki hefur áður heyrst að norðurlöndin hafi fallið frá sinni þátttöku í aðförinni að íslenskum efnahag, né móttstöðu við lánveitingar frá Norræna fjárfestingabankanum vegna Búðarhálsvirkjunar.

Árni Páll hlýtur að útskýra þetta, jafnvel þó það verði ekki fyrr en "fljótlega eftir helgi", eins og allar tímasetningar hans hafa heitið fram að þessu. 

 

 


mbl.is Fjórða endurskoðunin samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband