Ögmundur og hinir kerfisþursarnir

Úti á Indlandi bíður mánaðargamall Íslendingur eftir því að fá útgefið vegabréf til þess að komast heim til sín með foreldrum sínum, en Innanríkisráðuneytið með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar neitar að afhenda barninu lögleg skilríki, þrátt fyrir að íslenskur ríkisborgararéttur þess hafi þegar verið staðfestur á lögformlegan hátt af Alþingi, eftir tillögu Allsherjarnefndar, eins og lög gera ráð fyrir.

Ögmundur og hinir kerfisþursarnir fóru í fýlu vegna afgreiðslu Alþingis á ríkisborgararétti barnsins, án þess að þeir sjálfir hefðu verið búnir að "gefa Alþingi leyfi" til samþykktarinnar og þess vegna stenda þursarnir þétt saman til þess að refsa Alþingi fyrir tiltækið.

Þetta stríð kerfisþursanna við Alþingi bitnar hins vegar á þessum unga íslenska ríkisborgara og foreldrum hans, sem sitja föst á Indlandi við óboðlegar aðstæður og haldi þursarnir baráttu sinni gegn samþykkt Alþingis lengi áfram, neyðast foreldrarnir til að yfirgefa Indland til að forðast fangelsisvist og verða þá að skilja barnið eftir í landi þar sem enginn gerir tilkall til barnsins eða kærir sig yfirleitt nokkuð um það.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, og allt þursahyskið sem með þessi mál fara í hans nafni ættu að skammast sín fyrir framkomu sína, biðja barnið, foreldrana, Alþingi og íslensku þjóðina afsökunar á framferði sínu og lofa boðlegum vinnubrögðum í framtíðinni.

Forgangsverkefni þessa liðs ætti að vera að hunskast til að ganga frá vegabréfi barnsins og það alls ekki seinna en á morgun. Ekki "fljótlega eftir helgi" eða "í næstu viku", eins og einkunnarorð ríkisstjórnarinnar hafa verið fram að þessu.


mbl.is Búa við ömurlegar aðstæður á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögga með Stokkhólmsheilkenni

Samkvæmt breska blaðinu Guardian plantaði Scotland Yard starfsamnni sínum í raðir atvinnumótmælenda í Bretlandi á árinu 2003 og þar var hann innsti koppur í búri í sjö ár, eða þangað til löggan kom sjálf upp um hann með klaufaskap varðandi málsmeðferð þegar njósnari hennar var handtekinn ásamt mótmælafélögum sínum árið í fyrra.

Eftir því sem ráða má af fréttinni og var svosem á allra vitorði áður, þá eru samtök atvinnumótmælenda geysilega sterk fjárhagslega og eru í reynd alþjóðleg samtök fólks, sem hefur það að atvinnu sinni að ferðast um heiminn til að mótmæla nánast hverju sem er.

Í fréttinni segir kemur fram um starfsemi njósnarans Mark Kennedy á meðan hann starfaði fyrir mótmælasamtökin:  "Þannig hafi Kennedy tekið þátt í flestum umfangsmestu mótmælaaðgerðum á Bretlandseyjum og jafnvel aðstoðað við að skipuleggja sumar þeirra.  Þá hafi hann ferðast til 22 landa, með því að nota falsað vegabréf, og tekið þátt í mótmælaaðgerðum, þar á meðal til Íslands.  Að sögn blaðsins tók Kennedy þátt í mótmælum gegn G8 fundinum í Skotlandi árið 2005 og í kjölfarið fór hann til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn Kárahnjúkastíflunni og Alcoa."  Eftir að upp komst um kauða virðist koma í ljós að hann sé haldinn Stokkhólmsheilkenni á háu stigi og sé því í raun farinn að styðja þá, sem hann áður barðist gegn.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst, að þessi mótmælaiðnaður er stóriðja í sjálfu sér og fjöldi manna hefur atvinnu af því að gera ekki neitt annað en mótmæla ýmissi atvinnuuppbyggingu og öðru sem liggur vel við höggi, hvar sem er í heiminum og ekki virðist skorta fjármagn til að halda mótmælaiðjunni gangandi.

Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það frá íslenskum meðeigendum þessara mótmælasamtaka hvaðan tekjur til að fjármagna svo skipulagan alþjóðlegan mótmælaiðnaða koma.


mbl.is Lögreglumaður í röðum mótmælenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband