Jóhanna afneitar Atlanefndinni

Þau stórtíðindi gerðust á Alþingi í dag, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, afneitaði  vinnubrögðum Atlanefndinni algerlega og átaldi hana fyrir að skila af sér illa unnu verki og í raun handónýtu.

Jóhanna sagði m.a.:  "Ég hefði talið það rétt og eðlilegt, að þingnefndin leitaði skriflegs álits, til að mynda hjá Feneyjanefndinni,  sem starfar innan vébanda Evrópuráðsins og skipuð er sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar."  Taldi hún að vert hefði verið að leggja þá spurningu fyrir Feneyjanefndina hvort réttarstaða þeirra, sem nú er lagt til að verði ákærðir, standist nútímakröfur um mannréttindavernd sakborninga.

Síðan bætti Jóhanna við:  "Um það hef ég miklar efasemdir og ég undrast sérstaklega, að engin sjálfstæð rannsókn eða skýrslutaka hafi farið fram í þingmannanefndinni, meðal annars vegna þess að allir nefndarmenn hyggjast í raun víkja frá niðurstöðu þingmannanefndarinnar í sínum tillögum eða með því að láta hjá líða að flytja tillögu um ákæru."   Þarna má segja að Jóhanna hafi lýst algeru vantrausti á Atla Gíslason, sem nefndarformann og í raun veitt nefndinni banahöggið.

Til að snúa hnífnum í sárinu lýsti Jóhanna þeirri staðföstu skoðun sinni, að Ingibjörg Sólrún yrði sýknuð fyrir Landsdómi og jafngildir sú yfirlýsing því, að Jóhanna sé í raun að ásaka Atla um að reyna að gera tilraun til réttarmorðs, eða a.m.k. að stefna blásaklausri manneskju fyrir dómstóla algerlega að ósekju.

Allt málið er komið í algert rugl í þinginu og enginn í raun sannfærður um að hægt verði að dæma ráðherrana fyrir nokkuð, enda líklegra en hitt, að þeir yrðu allir sýknaðir fyrir Landsdómi.


mbl.is Gagnrýnir málsmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri vinnu þarf til að borga hærri skatta

Stefán Ólafsson, prófessor, hefur komist að þeirri niðurstöðu að hækkun jaðarskatta dragi ekki úr vinnuþátttöku fólks, heldur jafn vel auki hana, þvert á fullyrðingar Sjálfstæðismanna um að skattahækkanir dragi úr atvinnuvilja fólks, vegna þeirrar auknu skattpíningar sem þá leggst á aukalega.

Þetta telur prófessorinn kollvarpa öllum hugmyndum um að skattahækkanir séu vinnuletjandi, en ekki tekur hann með í reikninginn, að sé fólk búið að binda sig í ákveðnar afborganir af húsnæði, bíl og jafnvel fleiru, þá má það ekki við tekjumissinum, sem skattahækkanirnar hafa í för með sér og neyðst því til þess að bæta við sig vinnu, til að halda óskertum ráðstöfunartekjum. 

Stefán segir, að þegar hátekjuskattur hafi verið lækkaður, hafi það ekki aukið atvinnuþátttöku hátekjufólks, en það gæti verið vegna þess að fólkið var komið með eins mikinn vinnutíma og það réð við og gat af þeim ástæðum ekki bætt við sig meiri vinnu, en hefur hins vegar farið að njóta ávaxtanna sjálft af þeirri miklu vinnu, sem það lagði á sig, þegar greiðslan til ríkisins minnkaði.

Sú niðurstaða, sem nær væri að draga af rannsókn Stefáns væri sú, að skattahækkanir væru líklegar til að hneppa fólk í enn meiri vinnuþrældóm, en það í raun kærði sig um, eða réði almennilega við og þess vegna væri líklegra að skattalækkanir leiddu til minni atvinnuþáttöku hvers og eins, en annars væri.  Ekki má gleyma því, að á viðmiðunarárum Stefáns var mikil þensla í þjóðfélaginu og hver sem vildi, gat unnið eins mikið og mann vildi og gat.

Nú er ástandið á vinnumarkaði allt annað og enginn getur bætt við sig vinnu, þó hann gjarnan vildi og nauðsynlega þyrfti.  Allar skattahækkanir í slíku atvinnuástandi verða því einungis til þess að auka á vandræði fólks til að framfleyta sér og hvað þá að standa við skuldbindingar sínar.

Núverandi skattaálögur á einstaklinga og fyrirtæki eru hreint brjálæði og ekki á bætandi.


mbl.is Hækkun jaðarskatta dregur ekki úr vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Steingrímur J. að fara fyrir Landsdóm?

Nú er mikið rætt um þann hluta tillagna Atlanefndarinnar um ákærur á fyrrverandi ráðherra, að ákveðin mál hefðu ekki verið rædd á ríkisstjórnarfundum og því hefði öllum ráðherrunum ekki verið kunnugt um hvað var að gerast á verksviði allra ráherra.

Fram að þessu hefur sú túlkun verið við lýði á hlutverki ráðherra, að þeir væru hver um sig ábyrgir fyrir sínu ráðuneyti og þeim málaflokkum, sem undir þá heyra, en væru ekki ábyrgir fyrir verkefnum annarra ráðherra, enda væri ríkisstjórnin fjölskipað vald.

Forystumenn núverandi ríkisstjórnar virðast taka margar ákvarðanir sameiginlega og ekki verður alltaf séð, að þær hafi verið ræddar í ríkisstjórn eða bornar undir hana og því vaknar sú spurning hvort enn sé litið svo á að ríkisstjórnin sé fjölskipað vald og þau vinnubrögð sem ákæra á fyrrverandi ráðherra fyrir, séu ennþá viðtekin.

Nægir í þessu sambandi að benda á undirskrift Steingríms J. á fyrsta Icesavesamninginn, sem ekki er vitað til að hafi verið ræddur í ríkisstjórn fyrir undirskrift, hvað þá að innihald hans hafi verið kynnt fyrir Alþingi, sem svo var ætlast til að samþykkti hann fyrir sitt leyti, óséðan.

Er þessi embættisfærsla Steingríms J. tilefni stefnu fyrir Landsdóm?


mbl.is Staðan ekki rædd í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andi laganna

Hæstiréttur felldi nýlega þann dóm, að heimilt væri samkvæmt lögum að ganga að veði ábyrgðarmanns fyrir skuldum annars, sem gengið hafði í gegnum greiðsluaðlögun og skuldaniðurfellingu.

Þetta segir félagsmálaráðherra að sé ekki í "anda laganna", en ráðherrum hefur verið nokkuð tamt undanfarið að tala um "anda lagannna", þegar þeir fella sig ekki við texta laganna sjálfra, eins og nýlegt dæmi af Svandísi Svavarsdóttur sannar eftiminnilega.

Í fréttinni segir um þennan nýja dóm:  "Í dómi Hæstaréttar er vísað í ákvæði gjaldþrotalaga um að nauðasamningur haggi ekki rétti lánardrottins til að ganga að tryggingu sem þriðji maður veitir vegna skuldbindingarinnar. Ekki var hróflað við þessu ákvæði í lögum um greiðsluaðlögun"

Nú fer að verða tímabært að þingið fari að setja lög, sem segja það sem flutningsmennirnir meina og ráðherrar hætti að reyna að ráða í "anda laganna".  Einnig ber að athuga við lagasetningar að dómarasæti skipa löglært fólk, en ekki miðlar.


mbl.is Ekki í anda laganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband