Hverju lofar Steingrímur AGS núna?

Framkvæmdastjórn AGS mun taka fyrir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og Íslands, þann 29. september n.k. og hefur verið heldur hljótt um undirbúninginn að þeirri endurskoðun, enda ríkisstjórnin lagin við að beina athygli almennings annað um þessar mundir.

Fréttin af málinu er ekki löng, en þar segir þó:  "Íslensk stjórnvöld hafa sent sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu í samræmi við reglur sjóðsins."  Fróðlegt verður að sjá hvað í þeirri endurnýjuðu viljayfirlýsingu felst, en afar líklegt er að þar lýsi Steingrímur J. því yfir að hann hyggist halda áfram skattahækkanabrjálæði sínu, hækkun þjónustugjalda hjá hinu opinbera, aukinni þátttöku sjúklinga í kostnaði við lyf og læknisaðstoð, hækkun áfengis og tóbaks, hækkun virðisaukaskatts í lægra þrepinu (matarskattinn), svo eitthvað sé nefnt af handahófi af áhugamálum Steingríms J.

Eitt er alveg víst, að kreppan sem Jóhanna og Steingrímur J. sögðu um daginn að væri liðin hjá mun bíta í hjá almenningi, sem aldrei fyrr, á næsta ári og ekki mun atvinnuleysið minnka heldur, því engin teikn eru á lofti um að stjórnin ætli að láta af andstöðu sinni við atvinnuuppbyggingu hverskonar í landinu.

Hvað sem ráðherrarnir segja, fer kreppan harðnandi á heimilunum, en af slíkum smámunum skiptir ríkisstjórnin sér ekki.


mbl.is Þriðja endurskoðun að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarfarið troðið í svaðið af sjálfu Alþingi

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur verið boðið til viðræðna við þingflokk Samfylkingarinnar og áður á fund framkvæmdastjórnar flokksins, til þess að gera grein fyrir sinni hlið mála vegna tillögu Atlanefndarinnar um að stefna henni fyrir Landsdóm til að svara til saka um gerðir sínar og/eða aðgerðarleysi í aðdraganda bankahrunsins.

Ekkert er óeðlilegt við það, að sakborningum í jafn alvarlegum kærumálum sé gefinn kostur á að koma sínum málstað á framfæri áður en ákærur eru fluttar fyrir dómstólum, en í þessu tilfelli er röð atburðanna kolröng, því auðvitað átti nefnd Atla Gíslasonar að kalla alla ráðherra síðustu ríkisstjórnar fyrir sig og meta síðan út frá þeim yfirheyrslum, ásamt öðrum málsgögnum, hvort og þá hverjum nefndin vildi leggja til að stefna fyrir dómstólinn.

Atlanefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um neitt í sambandi við þessar ákærur, hvorki hvort yfirleitt skyldi stefna einhverjum og þá ekki hverjum.  Stórundarlegt er, að Samfylkingarfulltrúarnir skyldu leggja til að Ingibjörgu Sólrúnu yrði stefnt, en ekki Björgvini G., Jóhönnu og Össuri, sem þó fjölluðu öll um efnahags- og bankamálin á þessum tíma.

Með sínum slælegu vinnubrögðum í þessum kærumálum og að hafa í raun gert þau að pólitískum réttarhöldum, en ekki faglegum, hefur Atlanefndin komið af stað miklum illdeilum innan Samfylkingarinnar og hrossakaupum innan Alþingis um hvernig með málið skuli fara, ef og þegar Atli treystir sér til að mæla fyrir tillögum nefndarinnar.

Það hefði þurft mikið hugmyndaflug fyrir tiltölulega stuttum tíma, til að láta sér til hugar koma, að réttarfarið í landinu myndi nokkurn tíma komast niður á svona lágt plan.  Ekki síst þar sem það er löggjafasamkundan sjálf, sem er að troða það niður í svaðið.


mbl.is Ingibjörg Sólrún ræðir stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærumálin strand í þinginu vegna hrossakaupa

Í dag átti að ljúka umræðum á Alþingi um tillögur Atlanefndarinnar um málshöfðun á hendur ráðherrum úr fyrri ríkisstjórn vegna aðgerða þeirra og aðgerðaleysis í aðdraganda bankahrunsins.  Fjöldi þeirra ráðherra, sem stefna á fyrir Landsdóm, fer eftir pólitískum skoðunum þeirra sem vilja ákæra en ekki gerðum þeirra ráðherra, sem í stjórninni sátu, eins og sést á því að Samfylkingin vill ekki stefna Björgvini G. Sigurðssyni og einnig er Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni algerlega haldið utan við málið, þrátt fyrir sína aðkomu að ákvörðunum á þessum tíma.

Allt starf Alþingis vegna þessara tillagna einkennist af fálmi og hrossakaupum, því þrátt fyrir að umræðum um þessar stefnur ætti að ljúka í dag, er ekki ennþá farið að mæla fyrir tillögunum og verður líklega ekki gert fyrr en á föstudagsmorgun.  Ástæðan mun fyrst og fremst vera miklar illdeilur innan Samfylkingarinnar og þras og hrossakaup milli þingmanna um það, til hvaða nefndar skuli vísa tillögunum milli umræðna.

Þar sem líklega er meirihluti í þinginu fyrir því að vísa málinu til Allsherjarnefndar, en ekki Atlanefndarinnar, milli umræðnanna er allt strand í þinginu, þar sem VG og Hreyfingin eru hrædd um að breytingartillögur, sem frá Allsherjarnefnd kynnu að koma, myndu vera á skjön við sínar skoðanir og þar með yrði allt málið komið í enn meira uppnám en það er nú í.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni á Íslandi í dag varðandi sakamálaákærur.  Þær eru farnar að byggjast á pólitík og nægir að benda á ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur og Lilju Mósesdóttur því til sönnunar.


mbl.is Óvíst hvort málið fer í nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband