Sérstaka kosningu forsætisráðherra

Eftir því sem fram kom hjá Atla Gíslasyni er meginniðurstaða þingnefndar hans, "að það verði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu og auka fagmennsku og undirbúning löggjafns."  Hann undirstrikaði alvöru þessara orða sinna á eftirfarandi hátt:  "Það má segja að þetta sé sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það er kominn tími til að iðka þrískiptingu ríkisvaldsins eins og hugmyndafræðingar þeirrar þrískiptingar lögðu upp með á sínum tíma."

Auðvitað átti Alþingi aldrei að verða stimpilpúði fyrir framkvæmdavaldið, en mál hafa þróast á þann veg að nánast engin lagafrumvörp eru samþykkt á þinginu, nema þau sem ríkisstjórnin leggur fram, en hlutverk þingsins á auðvitað að vera að setja landinu lög, sem ríkisstjórnin á svo að sjá um að séu framkvæmd.

Besta leiðin til að aðskilja löggjafar- og framkvæmdavaldið er að kjósa alþingismenn á fjögurra ára fresti, eins og verið hefur, en kjósa svo forsætisráðherra sérstaklega, einnig til fjögurra ára, en þær kosningar færu fram tveim árum á undan alþingiskosningunum, þannig að kjörtímabil þingmanna og forsætisráðherra sköruðust og engin trygging væri þá fyrir því, að meirihluti alþingismanna og forsætisráðherrann væru alltaf úr sama flokki.

Forsætisráðherra, þannig kjörinn, myndi síðan velja með sér fimm til sex ráðherra, alls ekki úr röðum þingmanna, heldur fagmanna úr þjóðfélaginu, sem hann myndi best treysta fyrir hverjum málaflokki fyrir sig.  Ráðherrarnir myndu ekki sækja þingfundi og kæmu aðeins í þinghúsið ef þingnefndir kölluðu þá fyrir sig til upplýsingagjafar.  Ef ráðherrarnir vildu fá fram einhverjar lagabreytingar, yrðu þeir að senda beiðni um slíkt til þingsins, sem þá myndi afgreiða slíkar tillögur eins og hverjar aðrar, sem til þingsins berast um lagabreytingar.

Með slíku fyrirkomulagi yrði Alþingi algerlega óháð framkvæmdavaldinu og þrískipting valdsins yrði loksins virk að fullu.


mbl.is Auka verður sjálfstæði þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynþáttafordómar á hættulegu stigi

Kynþáttafordómar hafa lengi verið við lýði meðal hluta þjóðarinnar, en með aukningu ferðalaga til útlanda og talsverðum flutningi fólks af hinum ýmsu kynþáttum til landsins undanfarana áratugi, hefði mátt ætla að skilningur manna í milli myndi aukast og fordómarnir hverfa.  Fordómarnir hafa þó ekki algerlega horfið og skjóta alltaf upp kollinum öðru hverju.

Nýjasta dæmið um slíka fordóma er af alvarlegri gerðinni, þar sem tveir, eða fleiri, menn hafa undanfarið herjað á átján ára gamlan íslenskan pilt, af erlendum uppruna, með líflátshótunum og árásum og skemmdarverkum á heimili hans.  Ofsóknir þessar virðast gerðar til að hræða piltinn og vinkonu hans frá því að hittast og vera saman.  Þessar ofsóknir hafa verið að stigmagnast að undanförnu og er nú svo komið, að pilturinn og faðir hans hafa flúið land vegna ótta um líf sitt og limi af hálfu þessara ofbeldismanna.

Hart verður að berjast gegn hvers konar kynþáttafordómum hér á landi, sem og öðrum fordómum, og taka alvarlega, þegar kvartað er undan slíku við lögregluyfirvöld, því allt getur farið í bál og brand, ef slíkar ofsóknir leiða til alvarlegra líkamsmeiðinga, að ekki sé talað um manndráp. 

Saga slíkra mála í nágrannalöndum okkar ætti að vera víti til varnaðar og öllum ráðum verður að beita, til að slíkt ástand þróist ekki hérlendis.


mbl.is Feðgar flýðu land vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband