Svikaflétta vegna Baugsbréfa afhjúpuð

BGE eignarhaldsfélag var stofnað á sínum tíma af Jóni Ásgeiri í Bónus og félögum hans í þeim tilgangi að sneiða fram hjá hlutafélagalögum, sem banna féagi að lána dótturfélagi fyrir hlutafjárkaupum í móðurfélaginu og því var BGE stofnað, sem einkahlutafélag til þess að komast fram hjá þessum ákvæðum hlutafélagalaganna við fegrun á eigin fé Baugs.  Það gekk þannig fyrir sig að BGE keypti hlutafé í Baugi með láni frá Baugi sjálfum og tók einnig lán hjá Kaupþingi og endurlánaði það fé til eigenda og starfsmanna Baugs og fjármagnaði þannig hlutabréfakaup þeirra í Baugi.

Öll fléttan gekk út á að starfsmennirnir myndu aldrei borga krónu fyrir bréfin, því væntanlega hefur hugsunin verið sú, eins og víðast annarsstaðar hjá Bónusgenginu, að arður af bréfunum ætti að greiða upp kaupverðið á nokkrum árum.  Við gjaldþrot Baugs raknaði öll svikafléttan upp og nú sitja þeir starfsmenn í súpunni, sem létu blekkjast af gylliboðum Bónusgengisins um auðfenginn gróða.

Skýringar Jóns Ásgeirs og félaga um að ekkert veð hefði átt að vera fyrir lánunum frá Kaupþingi stenst ekki skoðun, því Kaupþing lánaði ekki beint til eigenda og starfsmanna, heldur lánaði bankinn peninga til BGE, sem aftur endurlánaði þá til Baugsgengisins og starfsmannanna.  Þrotabú BGE er auðvitað ekki að innheimta vegna lánveitinga Kaupþings til þessara aðila, heldur vegna peninga sem BGE lánaði þeim til að leggja aftur inn í Baug til að fegra stöðuna þar.

Þetta er aðeins ein af minni svikamyllum Bónusgengisins í sambandi við brjálæðislegar lántökur á útrásartímanum, en heildarlántökur gengisins stóðu í um eittþúsund milljörðum króna, þegar spilaborgin hrundi.

Jón Ásgeir hefur gortað sig af því, að hafa gætt þess að setja sig hvergi í persónulegar ábyrgðir fyrir nokkrum hlut, vegna viðskipta á vegum Bónusgengisins og því verður fróðlegt að sjá hvort honum tekst að losa sig við greiðslu á þessari skuld, eins og öðrum.


mbl.is Skuldir starfsmanna innheimtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur ber ábyrgð

Minnisblað lögfræðinga, sem samið var undir ritstjórn fyrrum stjórnarformanns Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta og ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, en í því kemur fram sú lögfræðilega túlkun á tilskipunum ESB, að íslenska ríkið, f.h. skattgreiðenda, beri ekki nokkra ábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans, heldur sé ábyrgðin einungis bundin við endurgreiðslugetu tryggingasjóðsins sjálfs.

Þetta eru ekki ný sannindi, heldur hefur þetta verið ljóst öllum þeim, sem læsir eru og hafa haft fyrir því að lesa tilskipanir ESB um innistæðutryggingar, en þar en nánast bannað að ríkissjóðir ábyrgist tryggingasjóðina vegna þess að slíkt myndi mismuna bönkum milli landa á samkeppnissviði afar gróflega, sem algerlega væri andstætt tilgangi ESB um fjórfrelsi og jafna stöðu fyrirtækja innan stórríkisins.

Steingrímur J. Sigfússon og raunar ríkisstjórnin í heild hefur tekið málstað Breta og Hollendinga í þessari deilu og stutt eindregið að Íslendingar verði hnepptir í áratuga skattaþrældóm fyrir þessa fjárkúgara og virðast ennþá vera á þeirra bandi, þrátt fyrir að þjóðin hafi hafnað allri undirgefni gagnvart þessum ofbeldisseggjum í eftirminnilegri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Steingrímur J. boðar nú nýja "samningalotu" við fjárkúgarana, þrátt fyrir öll þau lögfræðiálit sem hann hefur undir höndum og einnig hafa forystumenn bæði ESA og framkvæmdastjórnar ESB viðurkennt að engin ríkisábyrgð eigi að vera fyrir hendi vegna Icesave.  Steingrímur J. hefur því ekki um neitt að semja og ef eitthvað kemur út úr þessum nýju "samningaviðræðum" þá getur það aldrei orðið annað en nýr nauðasamningur um að selja skattgreiðendur hér á landi í ánauð erlendra kúgara.

Ríkið ber enga ábyrgð í þessu máli, en Steingrímur J. ber mikla ábyrgð, a.m.k. á eigin gjörðum.


mbl.is Ríkið ber ekki ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband