Á líka að fella niður persónulegar skuldir Jóns Ásgeirs?

Fyrirtæki Bónusgengisins skulduðu þúsund milljarða króna þegar þau fóru í þrot og stór hluti þessara skulda verður afskrifaður, vegna þess að rekstur fyrirtækjanna var með þeim endemum, að tiltölulega lítið mun innheimtast upp í kröfur við gjaldþrotaskipti þeirra.

Nú eru að koma upp á yfirborðið fréttir af því, að Jón Ásgeir og félagar hafi skuldað Baugi eitt þúsund milljónir króna vegna hlutafjárloforða, en slík upphæð hefur fegrað eiginfjárstöðu félagsins að miklum mun og villt um fyrir lánadrottnum og birgjum félagsins.  Í sjálfu sér þarf enginn að vera hissa á þessum kúnstum við að fegra eiginfjárstöðu Baugs, miðað við annað sem komið hefur fram um rekstur fyrirtækja Bónusgengisins og persónuleg fjármál meðlima þess.

Alveg væri það með ólíkindum, ef þessar persónulegu skuldir Jóns Ásgeirs og félaga vegna hlutafjárkaupanna verða felldar niður, án þess að reyna innheimtu til fullnustu og ganga að öllum eignum þeirra, áður en nokkuð verði afskrifað.

Slíkar afskriftir eru ekki réttlætanlegar, nema viðkomandi skuldarar lýsi sig persónulega gjaldþrota áður.  Allt annað er móðgun við þá skuldara þessa lands, sem þurfa að glíma við afleiðingar hrunsins sem þetta sama gengi átti stóran hlut í að valda.


mbl.is Skulda milljarð vegna hlutafjárkaupa í Baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru 18 þúsund manns að mótmæla atvinnuuppbyggingu?

Nú hafa rúmlega átján þúsund manns skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald og nýtingu orkuauðlindanna, án þess að nánar komi fram um hvað verði spurt í atkvæðagreiðslunni, t.d. hvort ríkið skuli eiga og nýta allar orkuauðlindir, bæði ár og jarðhita, eða hvort sveitarfélög teljist til opinberra aðila í þessu sambandi og enn síður er útskýrt hvað átt er við með nýtingu orkuauðlindanna.

Skyldi hópurinn sem stendur fyrir þessari undirskriftasöfnun vera á sömu skoðun og núverandi stjórnendur OR, að orkuauðlindir skuli einungis nota til að framleiða rafmagn og hita til heimilisnota, eða á ef til vill að leyfa orkusölu til smáfyrirtækja, svo sem prjónastofa og gróðurhúsa, en heyrst hafa raddir um að stórátak megi gera í atvinnumálum þjóðarinnar með rósarækt í gróðurhúsum og þannig megi jafnvel skáka Hollendingum út af blómamarkaði heimsins.

 

Það sem græningjum virðist vera lífsins ómögulegt að skilja, er að þegar rætt er um atvinnumál, þá er verið að tala um fasta vinnu til margra ára fyrir tugþúsundir manna og kvenna, en ekki útgáfu bókar, uppsetningu málverkasýningar eða skipulagningu á tónleikaferðum.  Næsta vetur munu a.m.k. 16.000 manns vera atvinnulaus hér á landi, fyrir utan þá sem þegar hafa flutt erlendis, en nú stefnir í að fólksflutningar frá landinu verði þeir mestu í Íslandssögunni.  Árlega bætast 3 - 5000 manns á atvinnumarkaðinn og þarf að skapa fasta varanlega vinnu fyrir allt þetta fólk sem og þá sem bætast á vinnumarkaðinn á hverju ári í framtíðinni og þetta fólk skapar sér ekki allt framtíðarstörf með eigin listagáfu og ekki tekur ferðamannaiðnaðurinn við þeim öllum og ekki vinna við tilraunir með græna orku heldur.

Það þarf að efla allar greinar atvinnulífsins og fjölga störfum í öllum geirum, ekki bara fyrir mennta- og listaklíkur, heldur ekki síður (og miklu frekar) fyrir verkafólk, iðnaðar- og tæknimenntað fólk, menntafólk á öllum sviðum, sem sagt almenning í landinu, en ekki eingöngu þá, sem geta skapað sér eitthvað sjálfir og staðið undir sér, með eða án listamannalauna.

Þegar vinstri sinnað menntafólk kemst í samband við þann veruleika sem þjóðin lifir í og fer að gera sér grein fyrir þörum annarra en sjálfs sín, færist umræðan vonandi á vitrænna plan varðandi atvinnu- og efnahagsmálin, sem og önnur brýn hagsmunamál almennings í landinu.

Skyldu mörg nöfn vera bæði á þessum undirskriftarlista og á lista yfir atvinnulausa?


mbl.is 18 þúsund undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygin um að "skoða í pakkann"

Samfylkingin hefur fram á þennan dag logið því í þjóðina, að með inngöngubeiðni í ESB verði til uppkast að samningi, þannig að hægt verði "að skoða í pakkann" og sjá hvað í honum verði, áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn fari fram.  Meira að segja tókst Samfylkingunni að ljúga þessu að VG í stjórnarmyndunarviðræðunum í fyrra og eins grænir og þeir eru í flestum málum, trúðu þeir lygasögunni og samþykktu innlimunarbeiðnina sem Össur afhenti fulltrúum ESB tvívegis í gleði sinni með vel heppnaðar blekkingar.

Nú eru að renna tvær grímur á þingmenn VG, enda er æ betur að koma í ljós hvernig þeir voru blekktir, enda ekki um neinn "samningspakka" að ræða sem hægt verður að kíkja í og skoða frá öllum hliðum, heldur eingöngu aðlögunarferli að regluverki stórríkisins væntanlega og ekkert sem Íslendingum stendur til boða, annað en að taka upp þau lög og reglur sem gilda í stórríkinu, með hugsanlegri aðlögun í örfá ár.

Nú virðist eiga að taka við fjögurra milljarða mútum frá ESB, sem nota á til að samræma íslensk lög við lög stórríkisins, þannig að þegar "samningar" verði frágengnir, þá verði Íslensk lög orðin algerlega samræmd lögum og regluverki ESB og ekkert verði eftir annað en að staðfesta inngönguna formlega á Alþingi.

Margir hafa verið samþykkir því, að fara í "samningaviðræður" við ESB til að sjá hvað sé í "pakkanum", en nú er komið í ljós að í pakkanum er ekkert annað en regluverk ESB ómengað og Íslendingar verða að þiggja "pakkann" eins og hann kemur fyrir, því ekki er hægt að velja úr honum það sem mönnum sýnist og skilja annað eftir.

Er ekki tími kominn til að Samfylkingin fari að ræða þessa innlimun í ESB sannleikanum samkvæmt og fari að koma heiðarlega fram gegn þjóðinni?


mbl.is ESB leggur milljarða í aðlögun Íslands að stofnana- og regluverki þess
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartstakkar og þögnin

Geir Waage, foringi Svartstakka innan þjóðkirkjunnar, segir að prestar verði að þegja yfir þeim glæpum, barnaníði sem öðrum, sem þeir komist á snoðir um í viðtölum sínum við þá glæpamenn sem til þeirra leita og skýra þeim frá glæpaverkum sínum.  Geir bendir á að dómara sé heimilt að skylda lækna, endurskoðendur, félagsráðgjafa, sálfræðinga o. fl. til að upplýsa um það sem skjólstæðingur hefur trúað þeim fyrir, en sérstakt bann sé við því að prestar vitni um slíkt.

Guðsmaðurinn segir einnig að forsendur skrifta og sálusorgunar presta séu brostnar ef trúnaðurinn sé ógiltur og þá muni prestum aldrei verða trúað fyrir einu eða neinu.  Þetta stenst nú varla skoðun hjá manninum, því allir hljóta að geta haldið áfram að trúa presti sínum fyrir hverju sem er, væntalega öðru en stórglæpum, alveg eins og þeir treysta læknum, endurskoðendum, félagsráðgjöfum og sálfræðingum fyrir sínum málum, þrátt fyrir skyldu þeirra stétta um að tilkynna þá glæpi, sem þær verða áskynja um.

Trúnaður presta við skjólstæðinga sína getur aldrei réttlætt þögn um stórglæpi, enda getur enginn prestur með sómatilfinningu talið það sér til framdráttar að hylma yfir með glæpamönnum.  Barnaníðingar og aðrir glæpamenn eiga heldur ekkert sérstakt erindi við aðra opinbera starfsmenn en lögregluna og í sumum tilfellum heilbrigðisstarfsmenn einnig.

Aðrir opinberir starfsmenn eiga ekki að sinna glæpamönnum og allra síst á laun.

 


mbl.is Ríkari trúnaðarskylda samkvæmt lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband