Jóhannes í Bónus er "óháður" stjórnarformaður Haga

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, gagnrýndi Arion banka harðlega í viðtali við Viðskiptablaðið, vegna ótrúlegrar þjónkunar bankans við Bónusfeðgana Jóhannes og Jón Ásgeir, sem rökuðu að sér auðæfum bankanna á þeim tíma, sem Jón Ásgeir var skuldakóngur Íslands, en samtals skulduðu félög honum tengd um eittþúsundmilljarða króna á velmektardögum útrásargengisins.

Helga Þóra Eiðsdóttir, forstöðmaður á skrifstofu bankastjóra Arion banka, harðneitar öllum ásökunum um að Arion banki hygli þeim feðgum á nokkurn hátt og segir m.a.  "Við megum ekki samkvæmt Samkeppniseftirlitinu skipta okkur af daglegum rekstri félagsins. Hagar eru sjálfstætt eignarhaldsfélag og í stjórn Haga sitja óháðir aðilar. Við komum ekkert að því hvernig þeir nota sitt auglýsingafé, hvar þeir eru að auglýsa"

Óháða stjórnin í félaginu er svo skipuð samkvæmt heimasíðu Haga:

Stjórn

Jóhannes Jónsson

Steinn Logi Björnsson

Svana Helen Björnsdóttir

Guðbrandur Sigurðsson

Erna Gísladóttir

Varamenn

Kristín jóhannesdóttir

Sigurjón Pálsson

Eignarhlutur

Arion banki á 95,7% í Högum.

Eins og sjá má þá er Jóhannes Jónsson stjórnarformaður og dóttir hans er varamaður í stjórn, ásamt því að Steinn Logi Björnsson er í stjórn, en hann var forstjóri Húsasmiðjunnar á meðan Baugur átti það fyrirtæki, en eins og allir vita, þá var Högum komið undan gjaldþroti Baugs á sínum tíma.  Að kalla þetta óháða stjórn, er annaðhvort mikið grín hjá Helgu, eða hún er hreinlega að hæðast að blaðamanninum, sem við hana talaði og þar með lesendum fjölmiðilsins.

Það er þessi algerlega "óháða" stjórn, sem beinir öllu auglýsingafé Haga til 365 miðla, sem eru í eigu hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs, en 365 miðla eignuðust þau hjón fyrir einstakan velvilja bankans, sem lét þau hafa fjölmiðlana á slikk, en afskrifaði um leið milljarða skuldir sem Jón Ásgeir skildi eftir vegna eldra félags um þann rekstur.

Af þessu öllu má ráða, að ekki er nóg með að Bónusgengið sé algerlega óháð öllum lögmálum viðskiptalífsins, heldur er Arion banki það líka.


mbl.is Vísar ummælum Páls á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðsstjórinn og klappstýran

Klappstýra útrásargengisins nr. 1 og einn af liðsstjórum gengisins virðast vera komnir í hár saman vegna ágreinings um það, hvort liðsstjórinn hafi ótilkvaddur látið svo lítið að skjótast á þotu sinni hingað á skerið í bankahruninu, eða hvort það hafi hann gert að frumkvæði klappstýruliðsins, sem dansað hafi og sungið svo fagurlega, að hann hafi ekki staðist mátið og hraðað sér til landsins við taktfastan dans "grúppía" sinna.

Erindið til landsins var að sögn liðsstjórans að bjarga Landsbankanum frá hruni, en sú björgun átti að felast í því, að fá Glitni gefins og sameina hann Landsbankanum, en með því átti að steypa saman tveim gjaldþrotum og gera úr þeim ekkert gjaldþrot, enda var inni í áætluninni að Seðlabankinn legði þessum sameinuðu gjaldþrotum til nokkur hundruð milljarða króna af skattfé landsmanna.

Vegna illmennsku þáverandi seðlabankastjóra heppnaðist rústabjörgunin ekki sem skyldi, enda hefur því verið vandlega haldið á lofti síðan, hversu illilega liðsstjórinn misskildist við björgunarstörfin og hvernig allt sem miður hefur farið í viðskiptum í gegnum tíðina, hefur verið öðrum að kenna, en þeim sem viðskiptin stunduðu.

Nú verður líklega að kalla út rannsóknarnefnd til að upplýsa hver hrindi í hvern og hvenær og hver sagði hvað og hvað ekki, ásamt því að finna út hvort og hvenær klappstýrurnar dönsuðu og hvort það hafi verið að þeirra eigin frumkvæði eða aðeins eftir pöntunum.

Danskort klappstýranna er ekki fullkomin heimild að þessu leyti og því nauðsynlegt að setja rannsóknarnefnd í málið.   Íslandssagan verður að vera rétt skráð. 


mbl.is Hringdi ekki til Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband