16.8.2010 | 16:41
Gylfi situr sem fastast í skilningsleysinu
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur viðurkennt opinberlega að hann hafi svarað fyrirspurnum á Alþingi út í hött, enda hafi hann hvorki skilið spurningarnar og hvað þá málið, sem þær snerust um. Líklega er þar um að kenna menntunarleysi Gylfa, en hann er bara hagfræðikennari við háskóla og ekki hægt að ætlast til að hann skilji einfaldar spurningar um fjármál.
Þess vegna tekur Gylfi það afar nærri sér að vera ásakaður um lygar, enda hafi hann svarað eftir bestu vitneskju sinni og geti ekki borið ábyrgð á því, sem starfsmenn ráðuneytisins kunni að hafa vitað og jafnvel þó þeir hafi látið sig hafa einhver skrifleg minnisblöð um gengistryggð lán, þá hafi hann ekkert vit á slíku og því ekki hægt að ætlast til að hann svari asnalegum spurningum um svoleiðis smámál, sem honum komi heldur ekkert við persónulega.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og annað Samfylkingarfólk er yfir sig hrifið af þessum skýringum Gylfa og telja þær algerlega fullnægjandi, enda ekki meiri skilningur á málefninu innan flokksins en hjá Gylfa og því styður þingflokkur Samfylkingarinnar Gylfa áfram, sem talsmann efnahagsmála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, því ekki sé hægt að ætlast til að aðrir fari að setja sig inn í mál, sem eru hvort sem er óskiljanleg.
Gylfi er afar ánægður með traustyfirlýsinguna, þótt hann segist aldrei hafa langað til að verða ráðherra og ætlaði heldur ekkert að gegna starfinu nema í stuttan tíma og því hafi svo sem ekki verið nein þörf á að setja sig inn í erfið og flókin mál.
Vegna gífurlegrar eftirspurnar Samfylkingarfólks eftir áframhaldandi starfskröftum Gylfa, ætlar hann að sitja eitthvað áfram í stólnum, en veit þó ekki hve lengi. Það fer líklega eftir því hvort einhver fer að gera kröfur um að hann setji sig inn í málefnin sem ráðuneytið er að fjalla um hverju sinni.
Gylfi ætlar ekki að láta bjóða sér slíkt, en fari svo, þá mun hann segja af sér embætti samdægurs.
![]() |
Gylfi situr áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.8.2010 | 15:38
Það á að kaupa lyfin þaðan sem þau eru ódýrust
Álfheiður Ingadóttir, sem illu heilli titlast heilbrigðisráðherra, ætlar að skella sér til Færeyja í vikunni til að skoða nýja lyfjaverksmiðju frænda vorra, með það í huga að hefja innflutning lyfja þaðan til Íslands. Ekki er nema sjálfsagt að flytja inn lyf frá Færeyjum, eins og öðrum, ef þeir eru samkeppnisfærir í verði, enda hlýtur að það að vera haft að leiðarljósi í heilbrigðiskerfinu, að kaupa ódýrustu lyfin hverju sinni, svo framarlega sem þau uppfylla tilskyldar kröfur.
Vafasamt hlýtur þó að teljast að örsmá lyfjaverksmiðja í Færeyjum geti keppt í verði við einn stærsta lyfjarisa heims á sviði samheitalyfja, þ.e. íslenska fyrirtækið Actavis, sem getur verðlagt sína framleiðslu eins og henni sýnist, eftir því á hvaða markaði er verið að keppa. Þannig eru lyf Actavis miklu ódýrari í öllum nágrannalöndunum en þau eru hér á landi og er smæð markaðarins hérlendis kennt um, því miklu dýrara sé að þjóna litlum markaði en stórum.
Eitt af því sem nefnt hefur verið að valdi miklum kostnaði er, að í hvert einasta lyfjabox þurfi að setja leiðbeiningar um lyfið og innihaldslýsingu á íslensku, þó vandséð til hvers það er gert, því neytendur lyfjanna lesa þann pappír aldrei og henda honum um leið og umbúðir lyfjanna eru opnaðar.
Væri ekki ráð að spara allan þennan óþarfa prentkostnað og bjóða upp á þessa fylgiseðla í apótekunum fyrir þá sem vilja, en hætta að prenta þá eingöngu til að útvega Sorpu hráefni.
Þetta er sjálfsagt ekki stærsta einstaka atriðið sem spara mætti í heilbrigðiskerfinu, en margt smátt gerir eitt stórt.
![]() |
Færeysk lyf til Íslands? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.8.2010 | 13:22
Lögreglurannsóknir án gruns um lögbrot eiga ekki rétt á sér
Ragna Árnadóttir, Dómsmálaráðherra, hefur hug á að leggja fram frumvarp til laga, sem á að rýmka heimildir heimildir lögregluyfirvalda til "forvirkra" rannsókna á afbrotum, án þess að grunur liggi fyrir um ákveðin brot á lögum.
Ragna, sem gegnt hefur starfi sínu af miklum myndarskap, fer hér út á hála braut, þar sem slíkar heimildir gefa lögreglu tækifæri til að hlera og fylgjast með einkalífi jafnvel blásaklausra borgara og því hlýtur að vera lágmarkskrafa að rökstuddur grunur um að viðkomandi einstaklingur sé viðriðinn undirbúnings glæps, þannig að hinn breiði fjöldi landsmanna eigi ekki á hættu, að lögreglan safni um hann alls kyns upplýsingum, sem aldrei tengjast neinum afbrotum.
Ragna segir að slíkar rannsóknir þurfi að vera undir ákveðnu eftirliti, eða eins og segir í fréttinni: "Ráðherra segir að forvirkum rannsóknarheimildum verði að fylgja skýrt eftirlit. Það geti verið í höndum þingnefndar eða sérstakrar deildar innan dómstóls."
Þetta er gott og blessað, en hver á að fylgjast með því að þingnefndin eða dómstóladeildin sinni eftirlitshlutverki sínu? Þarf sérstakt eftirlit með því?
Affarasælast hlýtur að vera að takmarka rannsóknarheimildirnar við rökstuddan grun um þátttöku í afbrotum og hlífa saklausum almenningi við að lögregluyfirvöld séu sífellt andandi ofan í hálsmálið hjá honum.
![]() |
Lögregla fái auknar rannsóknarheimildir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.8.2010 | 09:01
Virkjanir og ferðamennska geta vel farið saman
Nú er ríkisstjórnin að áforma næsta leik sinn í baráttunni gegn atvinnuuppbyggingu í landinu og á nú að slá hagkvæmasta virkjunarkost landsins út af borðinu, Norðlingaölduveitu, með því að stækka friðland Þjórsárvera langt út fyrir öll eðlileg mörk.
Alveg virðist vera sama hvað fyrirhugað er að gera í virkjanamálum, hvort sem er í vatnsafls- eða gufuvirkjunum, gegn öllu er barist af hálfu ríkisstjórnarinnar og sjálfskipaðra "verndunarsinna", nú síðast undir forystu Bjarkar Guðmundsdóttur, sem elskar land sitt svo mikið, að henni dettur ekki í hug að spilla því með búsetu sinni, enda býr hún, starfar og greiðir skatta erlendis, eins og útrásarvíkingum þykir líka svo fínt.
Ekki síst er hamrað á því, að virkjanir skemmi fyrir ferðamennsku á viðkomandi svæðum, en slík rök standast ekki skoðun, því virkjanir draga að sér ferðamenn, ekki síður en landslagið í kring um þær, enda mikill ferðamannastraumur að þeim virkjunum, sem þegar eru fyrir í landinu.
Þessi staðreynd er líka þekkt erlendis frá og nægir að nefna Igazu fossana á landamærum Argentínu, Brasilíu og Paragvæ því til staðfestingar, en fyrir neðan fossana er stærsta virkjun Suður-Ameríku, sem dregur að sér stóran hluta þeirra ferðamanna, sem koma á svæðið til að skoða fossana.
Það þarf að breyta þeim úrelta hugsunarhætti, að virkjanir og ferðamennska eigi ekki samleið, því það er svo sannarlega hugsun gamla tímans. Réttara væri að huga að ferðamennskunni samhliða virkjununum.
![]() |
Vilja breyta rammaáætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)