Er Besti flokkurinn kominn á kaf í spillingu?

Fyrr á árinu urðu miklar umræður um prófkjörsstyrki til stjórnmálamanna og voru þeir taldir til mikillar spillingar og yllu hagsmunaárekstrum, þar sem viðkomandi stjórnmálamaður yrði fjárhagslega skuldbundinn þeim fyrirtækjum, sem styrkina veittu.  Þrátt fyrir að sannanir fyndust ekki um slíkt, voru nokkrir pólitíkusar neyddir til afsagnar vegna slíkra mála.

Nú hefur Jón Gnarr, borgarstjóri, þegið bifreiðastyrk frá bílaumboði í formi tugmilljóna króna lánsjeppa, sem merktur er viðkomandi fyrirtæki í bak og fyrir og hlýtur móttaka slíks styrks að orka tvímælis, vægast sagt og hefði verið um alvörustjórnmálamann að ræða, sem þægi slíkt, væri það umsvifalaust flokkað sem hreinar mútur.

Ekki eru þessi nýstárlegu styrkjamál bundin við borgarstjórann einan, því nú hefur Besti flokkurinn tekið upp á því að sníkja styrki af einkafyrirtækjum til reksturs borgarinnar og er fyrsta kunna dæmið um slíkt, styrkur Vodafone til borgarinnar vegna fjármögnunar flugeldasýningarinnar á Menningarnótt.  Að sjálfsögðu fær fyrirtækið sitt í staðinn í formi auglýsingar, en spurning vaknar hvort fleira hangi á þessari spýtu.

Þessi tvö atriði eru þó hreinn hégómi miðað við þá nýjung í borgarstjórn, að fjárhagsáætlun borgarinnar skuli vera unnin á leynifundum úti í bæ og hvorki nefndir eða fagráð borgarinnar hafðar með í ráðum og hvað þá að borgarfulltrúum minnihlutans skuli leyft að fylgjast með pukrinu.  Þetta eru algerlega óafsakanleg vinnubrögð og gefa ekki fagra mynd af því sem koma skal í stjórn borgarinnar.

Opin og gagnsæ stjórnsýsla, þar sem öll mál eru uppi á borðum og engu leynt, er krafa samtímans.  Besti flokkurinn hunsar slíkt algerlega og stefnir í að verða versti flokkurinn í borgarstjórn og taka þar með þann kyndil af Samfylkingunni.


mbl.is Engir fundir vegna fjárhagsáætlunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi sagði Alþingi ósatt

Í morgun var bloggað HÉRNA um þetta mál og að Gylfi væri orðinn margsaga um vitneskju sína um lögfræðiálitin.  Í svörum við því bloggi má einnig sjá hvar hægt er að lesa minnisblað lögfræðings Viðskiparáðuneytisins og þar sést að Gylfa var gerð góð grein fyrir því að "gengislánin" væru líklega ólögleg, þó tekið væri fram að endanlega yrðu dómstólar að skera úr um það.

Eftir sem áður, lét Gylfi í svari sínu á Alþingi, eins og öll lánin væru eins, þ.e. erlend lán og allir lögmenn væru sammála um að þau væru lögleg.  Fyrirspurnin snerist hins vegar ekkert um "erlend lán", heldur myntkörfulán, þar sem höfuðstóllinn væri tilgreindur í íslenskum krónum, sem skyldu endurgreiðast með viðmiði við verð erlendra gjaldmiðla á hverjum gjalddaga.

Allt málið er með svo miklum ólíkindum, að Alþingi verður að koma saman nú þegar, fara yfir málið og verði niðurstaðan sú, sem allt virðist benda til, að Gylfi hafi hreinlega sagt ósatt í þinginu, þá verði flutt vantrauststillaga á hann og jafnvel ríkisstjórnina í heild, sem hlýtur að vera samábyrg vegna þessa klúðurs.

 


mbl.is Bjarni: „Staða Gylfa í uppnámi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkabú, samyrkjubú eða hreinn ríkisrekstur?

Bújarðir og hvers kyns ræktun matvæla á þeim er atvinnurekstur eins og hver annar og ætti því að lúta sömu lögmálum og annar fyrirtækjarekstur í landinu.  Fyrirkomulagið á þessum rekstri er núna sá, að ríkið úthlutar hverju búi ákveðnu hámarki, sem þar má framleiða og greiðir síðan bændunum bein laun til viðbótar við þær skertu tekjur, sem þeir geta aflað sér með framleiðslunni.

Þannig má segja að hver einasti bóndabær á landinu sé í samrekstri bóndans og ríkisins og hömlurnar á framleiðslunni verða til þess, að bændur eru fastir í sama framleiðslufarinu til eilífðar og hafa afar takmarkaða möguleika á að stækka bú sín og auka þannig tekjurnar og samkeppnismöguleikar milli búa er enginn.

Þetta fyrirkomulag á búrekstri er komið í algerar ógöngur og bráðnauðsynlegt að stokka allt kerfið upp og annað hvort á að reka búin eins og hver önnur fyrirtæki í áhætturekstri, eða ríkið taki alfarið við framleiðslunni og stofni um hana samyrkjubú í anda Sovétríkjanna sálugu.

Reynslan af rekstri samyrkjubúa og annarrar ríkisrekinnar matvælaframleiðslu hefur hins vegar hvergi skilað tilætluðum árangri og væri því frekar reynandi að einkavæða bújarðirnar að fullu, ríkið drægi sig alfarið út úr rekstrinum og bændum gefinn kostur á að stækka bú sín og keppa síðan á markaði á jafnréttisgrundvelli.

Á meðan bændur sjálfir kjósa að vera hálfgerðir ríkisstarfsmenn, verður líklega seint komist út úr þessu haftakerfi fortíðarinnar.  Það þarf nýja hugsun í þessu efni, bæði hjá bændum og stjórnmálamönnum, sem réttlæta þetta úrelta kerfi í nafni umhyggju fyrir neytendum.

Hagur neytenda og bænda fer saman í því, að nútímavæða landbúnaðinn.


mbl.is Heimdallur gagnrýnir refsiheimild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hefur engin önnur ráð en skattahækkanir

Samkvæmt álagningarskrám hafa launatekjur lækkað verulega á milli ára, atvinnuleysisbætur hins vegar hækkað gríðarlega og skuldir aukist umfram eignir.  Í viðhangandi frétt kemur þetta m.a. fram:  "Laun og hlunnindi lækkuðu hins vegar allverulega nú eða um 5,8% sem samsvarar 40 mö.kr. enda hefur fjöldi starfandi minnkað, vinnutími styst og víða laun verið lækkuð."

Einnig koma fram skuggalegar upplýsingar um greiðslur úr lífeyrissjóðum, eða eins og þar stendur:  „Hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni skýrist fyrst og fremst af því að greiðslur úr lífeyrissjóðum jukust verulega á milli ára. Voru greiddir tæpir 92 ma.kr. úr lífeyrissjóðunum á síðasta ári samanborið við tæplega 54 ma.kr. árinu áður."

Þessar auknu greiðslur frá lífeyrissjóðunum byggjast á því, að sífellt fleiri eru farnir að taka út séreignarlífeyrissparnað sinn, bæði þeir sem atvinnulausir eru og margir sem enn hafa vinnu, en launin duga engan veginn fyrir framfæslu fjölskyldnanna og afborgana af lánum.  Það er hrikaleg staða, að fólk á besta aldri skuli þurfa að rústa afkomu sinni í ellinni, til þess að draga fram lífið undir þeirri "norrænu velferðarstjórn" sem nú situr í landinu í flestra óþökk.

Eina ráðið sem ríkisstjórnin kann, til að bregðast við efnahagsvanda þjóðarinnar er að hækka skatta og er hún nú þegar farin að hóta frekari skattahækkunum á næsta ári.

Ráðið, sem best myndi reynast til að rétta við efnahag þjóðarinnar væri að stuðla að eflingu atvinnulífsins og þar með minnkun atvinnuleysisins, en gegn öllu slíku berst ríkisstjórnin með kjafti og klóm og á því eina sviði hefur hún náð miklum árangri.

 


mbl.is Kreppan birtist í skattframtölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi og ráðuneytið í vondum málum

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um lögfræðiálit frá Lex, lögmannsstofu, sem unnið var fyrir Seðlabankann í tengslum við fyrirhuguð útlán bankans til fjárfesta, en þau átti að lána í íslenskum krónum, en endurgreiðast með erlendum gjaldeyri.  Lex komst að þeirri niðurstöðu að slíkt væri ekki heimilt og því varð ekkert af þessum fyrirhuguðu útlánum.

Lögfræðingur í Viðskiptaráðuneytinu fékk álitið sent frá Seðlabankanum og studdist við það, þegar samið var álit um erlend lán og gengistryggð lán fyrir Gylfa, viðskiptaráðherra, sem hann svo studdist við til að svara fyrirspurnum á Alþingi.  Álit lögfræðings Viðskiptaráðuneytisins hefur ekki verið birt opinberlega, svo vitað sé, en í ljósi svara ráðherrans á Alþingi er bráðnauðsynlegt, að álitið verði opinberað í heild sinni.

Gylfi harðneitar að hafa vitað um lögfræðiálit Seðlabankans, þótt upplýst sé að lögfræðingurinn hafi sent það umsvifalaust til ráðuneytisstjórans, sem algerlega hefur brugðist starfsskyldum sínum, hafi hann ekki kynnt það fyrir ráðherranum.  Hafi það verið gert, hefur Gylfi viljandi sagt ósatt á Alþingi og síðan margítrekað ósannindin í fjölmiðlum undanfarið.

Þó hvorki ráðherrann, seðlabankinn eða þingmenn hefðu getað skorið endanlega úr um lögmæti gegnislánanna, er það eftir sem áður stóralvarlegur hlutur, ef ráðherra verður uppvís að ósannindum fyrir þingi og þjóð og úr því sem komið er, verður að kalla alla þá aðila, sem að málinu koma, fyrir þingnefnd og upplýsa hvað hver vissi og sagði á hverjum tíma.

Trúverðugleiki Gylfa er í húfi, en hann hefur ekki sýnt sig valda embætti sínu, svo vel hafi verið, en bætist ósannsögli þar ofaná, verður þessi bráðabirgðaráðherra að snúa til annarra starfa strax.


mbl.is Upplýsti yfirmenn sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband