11.8.2010 | 13:50
Herskip ESB á Íslandsmið?
ESB er komið í stríðsham gegn Íslendingum vegna makrílveiða og stigmagnast ofsi talsmanna ESB, eins og títt er um sanna stríðsherra í þann mund sem þeir tefla liði sínu fram á stríðvöllinn. Tónninn í hótunum ESB verður æ harðari og eru skoskir liðsforingjar í makrílstríðinu farnir að minna á þorskastríðin og bresku herskipin, sem þá voru send á Íslandsmið, þó stríðssagan hafi eitthvað skolast til í tímans rás, því herfræðin eru ekki nákvæmari en svo, að nú er sagt að þau hafi haldið í sjóoruturnar á Íslandsmiðum til að ,,til þess að reka íslenska togara af umdeildum veiðisvæðum.
Maria Damanaki yfirmaður sjávarútvegsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB, hefur látið þau boð út ganga, að gegni Íslendingar og Færeyingar ekki því, sem ESB fyrirskipar þeim, "...... að þá mun Framkvæmdastjórnin hugleiða allar nauðsynlegar aðgerðir til að vernda makrílstofninn og gæta hagsmuna ESB.
Einnig eru nefndar til sögunnar viðskiptaþvinganir, eða löndunarbann á íslensk skip í evrópskum höfnum og reyndar er þegar farið að neita færeyskum skipum um löndun í Bretlandi.
The Independent segir frá hörku stríðsherranna og nefnir sem dæmi að Bretland, Noregur og önnur ríki gætu átt það til að hindra inngöngu Íslendinga í ESB. Kalt vatn hlýtur að renna milli skinns og hörunds sannra Breta- og ESBvina hérlendis við slíkar yfirlýsingar, enda óþreytandi að dásama þann mannkærleik og ást á öllu kviku, sem þeir segja ríkja í stórríkinu væntanlega.
Samkvæmt Independent sagði sjávarútvegsráðherra Skotlands í gær: Ég finn fyrir miklum liðsauka með þeirri staðfestu sem ESB sýnir í þessu máli og vona að þessi mál verði í forgrunni í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB.
Svo dettur ESBsinnum og öðrum nytsömum sakleysingjum í hug, að ESB muni samþykkja í væntanlegum inngönguviðræðum, að breyta fiskveiðistefnu sinni til að þóknast Íslendingum.
![]() |
Spáir makrílstríði" við ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.8.2010 | 08:56
Græddur er geymdur útrásareyrir
Það er ákaflega gleðilegt að sjá hve góðar fyrirmyndir sumir útrásarvíkinganna eru æsku landsins í ráðdeildarsemi og útsjónarsemi, a.m.k. hvað varðar eigin fjármál. Flestum þeirra hefur tekist að öngla saman dágóðum varasjóði, með reglulegum sparnaði af naumt skömmtuðum launum sínum í gegnum tíðina og eiga nú þokkalegt sparifé til að grípa til, núna þegar harðnað hefur á dalnum hjá þeim sumum.
Karl Wernersson hefur verið einna duglegastur í einkasparnaðinum, þrátt fyrir að hafa lent í ýmsum erfiðleikum með rekstur fyrirtækja sinna, sem er afar sárt fyrir slíkan ráðdeildarmann, ekki síst hvernig fór með bótasjóð Sjóvár, sem Karl og félagar reyndu eftir bestu getu að ávaxta vel, en töpuðu öllum og þurfa nú að sæta rannsókn og jafnvel ákæru fyrir frá vanþakklátu þjóðfélagi.
Sama má segja um heiðurshjónin Jón Ásgeir og Ingibjörgu, þeim hefur tekist að öngla saman svolitlum eignum hérlendis, þó ekki nema tæpum sjöhundruð milljónum, sem allir geta séð að ekki er hægt að leggja fyrir á fáeinum árum, nema með mikilli útsjónarsemi og ráðdeild, án þess þó að þurfa að neita sér um smá munað öðru hverju, sem þó hefur verið afar hófstillt og látlaust.
Skýringin á því, hvers vegna Jón Ásgeir gaf einungis upp eignir upp á rúmar tvöhundruð milljónir fyrir dómstóli í London, þegar illa innrætt fólk lét kyrrsetja eignir hans, liggur auðvitað í því að það er húsmóðirin á heimilinu sem er sú hagsýna í fjölskyldunni og hefur sparað meira af laununum sínum, en eiginmaðurinn.
Nema skýringin sé sú, að Jón Ásgeir viti bara alls ekki aura sinna tal.
![]() |
Karl á rúman milljarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)